08.04.1946
Neðri deild: 104. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Ég heyri, að það kemur það sama fram hjá hv. 2. þm. S.-M. og hjá hæstv. dómsmrh. Þeir vilja ekki fresta málinu, og segja, að ráðh. hafi enn sömu aðstöðu til að reka á eftir málinu. En þingið skal samt ákveða það, að ekki megi fela þetta öðrum en þeim, sem telja ófært að byggja verksmiðjuna á þessum tíma. Ég vildi telja hyggilegra, ef koma á máli þessu í framkvæmd, að setja þá menn yfir verkið, sem hefðu verulegan áhuga á, að því væri hrundið í framkvæmd sem fyrst. Að þessu leyti er það fráleitt að hafa þessa tilhögun á málinu. Til að byrja með taldi ég rétt, eins og nú er, að ráðh. skipaði stjórn verksmiðjunnar. En það er gefið mál, að þegar þetta er orðin stór verksmiðja, kveður þingið nánar á um þetta atriði. Ég man ekki betur, þegar síldarverksmiðjurnar voru byggðar, en þá hafi ekkert verið kveðið á um stjórnina. Ríkisstj. var gefin heimild til að byggja verksmiðjurnar, og þegar þær komu í gang, þá var það tekið til athugunar á ný. Og vitanlega mundi engin stjórn verða skipuð til rekstrar á verksmiðjunni fyrr en hún væri komin í gang, og sú stjórn, sem þá yrði skipuð, yrði skipuð á nákvæmlega sömu forsendum og stjórnin, sem skipuð var til að byggja síldarverksmiðjurnar á Siglufirði og Skagaströnd, hún yrði skipuð fagmönnum. Og ég álít mjög hæpið, að það sé rétt, eins og nú er, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sé skipuð á pólitískan hátt. Ég álít miklu hyggilegra, að hún sé skipuð fagmönnum. En það er annað mál. En sem sagt, það verður að byrja á því að skipa byggingarstjórn, sem væri skipuð beztu fagmönnum, sem við eigum völ á í landinu. Það er þess vegna óhugsandi annað en þessi brtt. gangi í þá átt að fresta málinu. Og þótt ég sé á engan hátt andvígur því, að tilraunir fari fram, þá álít ég, að þær tilraunir komi ekki að gagni, nema þær séu gerðar sem undanfari framkvæmda og fyrsti liður í framkvæmdum. Og stjórnin hefur ekki dr. Jakob Sigurðsson til að framkvæma þessar tilraunir, nema þær séu liður í framkvæmdum. Að öðrum kosti vill hann ekkert við þetta eiga.