23.04.1946
Efri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

159. mál, síldarniðursuðuverksmiðja ríkisins

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Þótt hér sé að vísu um stórmál að ræða, þá mun ég ekki orðlengja og geri ráð fyrir, að hv. þdm. séu kunnugir undirbúningi málsins, en hér er um það að ræða að heimila ríkisstj. að reisa og reka síldarniðursuðuverksmiðju á Siglufirði til niðursuðu á síld, og til þess að standa straum af þessu, er stj. heimilað að taka 3 millj. kr. lán.

Dr. Jakob Sigurðsson hafði með höndum undirbúning þessa máls og gerði áætlanir um niðursuðu síldar á ódýran hátt. Þær tilraunir gáfu góða raun, svo að stj. afréð að ráðast í þessar framkvæmdir og þá fyrst og fremst frá útflutningssjónarmiði og markaðs heima fyrir á ódýrri og góðri síld. Það liggur fyrir grg. og kostnaðaráætlun um byggingu verksmiðjunnar, en hún nemur um 2½ millj. kr. Þessi kostnaðaráætlun er rífleg og er gert ráð fyrir, að hún nægi fyrir þeim aukakostnaði, sem kynni að eiga sér stað.

Kostnaðaráætlun um framleiðsluna fylgir hér einnig, og niðurstaðan er sú, að framleiðslukostnaður er 70 aurar á dós, sem inniheldur 300 gr. síldar. Þessi framleiðsla er ódýrari en með fyrri aðferðum og tilgangurinn er að framleiða ódýra vöru, sem ætla má, að verði til aukins útflutnings síldar og einnig til þess að skapa aukna atvinnu í landinu.

Ég ætla ekki að eyða tímanum til þess að fara ýtarlega út í frv., en efnið er sem sagt þetta.