08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

16. mál, fjárlög 1946

Sigurður Guðnason:

Ég flyt hér smábrtt., með 7. landsk. þm. við 14. gr. B. XXVII, um styrk til Alþýðusambands Íslands. Alþýðusambandið hefur fengið 10 þús. kr., en hér er farið fram á, að þetta verði hækkað upp í 30 þús. kr. Starfsemi Alþýðusambandsins er mikil og margvísleg bæði fyrir hinn mikla fjölda, sem er í sambandinu, og eins fyrir þjóðina í heild. Einmitt nú hefur Alþýðusambandið orðið fyrir miklum útgjöldum í sambandi við alþjóðasamband verkalýðsins. Kostnaður í sambandi við það hlýtur að verða að greiðast af ríkinu, því að það má telja víst, að fyrir Ísland er það stórt þjóðhagsmál að vera í slíku sambandi. Mikið starf hjá Alþýðusambandinu fer í margs konar upplýsingar fyrir hið opinbera, skýrslugerðir o. fl. Ég vona, að fjvn. taki þessa brtt. til greina og verði við þessum tilmælum.