13.04.1946
Efri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

139. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur verið lengi hjá n., var borið fram í byrjun desember, og um starfstilhögun og störf n. vil ég vísa til nál. á þskj. 794, og hef ég þar litlu við að bæta. Ég vil þó geta þess, að við athugun málsins var mest rætt um fjárhagshlið þess, og komu fram ýmsar till., eins og menn geta séð af nál., bæði til lækkunar og hækkunar. Fulltrúi kommúnista bar fram till. á þskj. 798, um að mest hækkaði, og fulltrúi Sjálfstfl. lagði fram till. um lækkanir, en niðurstaðan varð sú, að þeir tilkynntu fylgi sitt við frv. bundið því skilyrði, að heildarkostnaðurinn lækkaði, og varð loks samkomulag um 5–6% lækkun.

Ég skal víkja að einstökum atriðum um leið og ég nefni till., en annars get ég vísað til nál. um afstöðu manna og flokka þeirra til málsins. En það er samkomulag um að fylgja málinu fram á þessu stigi þess með till. meiri hl., en án tillits til till., sem áður voru komnar fram. Ég skal svo víkja að brtt, og stytta mál mitt eftir því, sem ég get.

1. brtt. á þskj. 796, við 14. gr., þarf engrar skýringar við. — Þá er brtt. við 15. gr., um að skerðing á lífeyri hjóna skuli aðeins beitt, ef þau búa saman. Ég hef rætt um það við meðnm. mína, að þessi till. yrði látin bíða til 3. umr. Brtt. við 19. gr. er aðeins leiðrétting.

Þá er brtt. við 23. gr., a-liður, um að „ef ekkja giftist, á hún rétt á að fá greiddan barnalífeyri í 3 ár, þó aldrei hærri upphæð en hún hefði fengið, ef hún hefði eigi gifzt aftur.“ Það varð niðurstaða í n., að í staðinn fyrir að þriggja ára lífeyririnn væri greiddur í einu, þá skyldi hann greiddur á þrem árum, því að ekki þótti öruggt, að þetta yrði ekki eyðslueyrir, ef það yrði greitt í einu. En upphæðin breytist ekki. — Þá er það b-liðurinn við 23. gr. Samkv. frv. er tryggingaráði heimila að greiða ekkli barnalífeyri eins og um ekkjur væri að ræða, en n. varð ásátt um að lækka þetta niður í hálfan lífeyri.

Brtt. við 26. gr. er aðallega orðalagsbreyt., nema þar er sett inn, að 6 mánuðir skuli líða frá hvarfi eiginmannsins.

Við 27. gr. 3. mgr. er brtt., þar sem lagt er til, að gr. orðist sem þar segir. Í frv. er gert ráð fyrir, að Tryggingastofnunin hafi kröfu á framfærslusveit um barnaframfærslustyrk, en nú annaðhvort dvalar- eða framfærslusveit. — Brtt. við 30. og 31. gr. eru aðeins orðalagsbreyt. og þurfa ekki skýringa við.

Þá er brtt. við 32. gr. 1. mgr., um að „fjölskyldubætur skulu greiddar foreldrum barnanna, ef þeir eru á lífi og sjá um uppeldi þeirra. Þó getur Tryggingastofnunin greitt þær öðrum aðila, ef hún telur, að bæturnar komi börnunum að betri notum með þeim hætti, sbr. 33. gr.“ Hér hefur verið fylgt reglu, sem notuð er í Bretlandi. En ef um óreglufólk er að ræða, fer þetta eftir ákvæðum 33. gr.

10. brtt., við 34. gr., lýtur að fæðingarstyrkjum, sem greiddir eru mæðrum, giftum eða ógiftum. Réttur giftrar konu er bundinn því skilyrði, að maðurinn geti ekki séð heimilinu farborða.

Þá komum við að 11. brtt., við 35. gr., og mun ég um leið ræða um 12. brtt., við 36. gr. Í frv. er ákvæði um, að allar konur, sem verða ekkjur og eiga börn innan 16 ára, skuli fá lífeyri, 600 eða 450 kr. Hins vegar er í 36. gr. veitt heimild til að greiða ekkjum sérstakan lífeyri, ef þær eru orðnar 50 ára, þegar maðurinn fellur frá. Það vantar á, að tekið sé nóg tillit til þeirra kvenna, sem hafa misst menn sína og eru orðnar aldraðar eða heilsulausar. En ungar ekkjur eru að mörgu leyti hæfari til að sjá um sig sjálfar.

Í 35. gr. er öllum konum, sem verða ekkjur innan 67 ára aldurs, áskilinn réttur á bótum í 3 mánuði eftir lát eiginmanns þeirra, kr. 140,00 mánaðarlega. Í sambandi við þá lækkun, sem gerð var á heildarkostnaðinum, þá er felldur niður sá lífeyrir handa ekkjum, yngri en 67 ára, sem gert er ráð fyrir í 35. gr., en í staðinn koma 200 kr. á mánuði í 3 mánuði, en hafi ekkjan á framfæri sínu börn yngri en 16 ára, á hún enn fremur rétt á bótum í 9 mánuði í viðbót, kr. 150,00 mánaðarlega. — Það er ljóst, að af þessari breyt. leiðir, að ekkjur, sem hafa stálpuð börn á framfæri sínu, eru ekki miður haldnar en hinar. Eftir brtt. við 36. gr. á hver sú kona, sem verður ekkja um 50 ára, sama rétt á lífeyri, þótt hún hafi ekki börn á framfæri sínu, og er sá lífeyrir, miðað við 1. verðlagssvæði, 1200 kr. á ári, og er þá miðað við 67 ára aldur, en lækkar eftir því, sem konurnar eru yngri, en hækkar eftir því, sem þær eru eldri.

14. brtt. er við 40. gr., sem fjallar um jarðarfararstyrk, og varð samkomulag um að fella gr. niður.

15. brtt. er við 44. gr., sem fjallar um rétt manna til dagpeninga. Varð það sjónarmið ofan á í n. að miða við það, hvort hægt er að ná til læknis daglega. Hins vegar skal það tekið fram, að ákvæðið um 10 km ber ekki að skoða bókstaflega.

Næst er brtt. við 45. gr. frv. Í frv. er gert ráð fyrir lengri biðtíma, ef launþegi á ekki í hlut, en það varð ofan á í n. að láta hér gilda það sama um atvinnurekendur. — 17. brtt. er bein afleiðing af brtt. við 44. gr. — 18. brtt. tel ég, að þurfi ekki skýringar við. — 19. brtt. er við 60. gr. frv. og er viðbótarmálsgr. til skýringar. 20. brtt. er við 63. gr. frv. og felur í sér, að það sé að nokkru lagt á vald Tryggingastofnunarinnar, frá hvaða degi bætur skuli reiknaðar.

21. brtt. er við 68. gr. frv. og er afleiðing af breyt. á fjölskyldubótum. Samkv. 2. málsgr. þessarar gr. í frv. er það lagt á vald Tryggingastofnunarinnar, hvort hún greiðir bótþega sjálfum bæturnar eða öðrum, sem hún telur, að verji þeim meir honum til gagns. N. þótti ekki rétt að fela Tryggingastofnuninni slíkt vald á hendur. — 22. brtt. er við 69. gr. frv., en hún og þrjár næstu brtt. eru einungis orðabreyt. og þurfa ekki skýringar við. — 26. brtt. er við 84. gr. N, var sammála um, að 4. málsgr. þessarar gr. væri ástæðulaus, og leggur því til, að hún verði felld niður. — Brtt. við 85. gr. skýrir sig sjálf.

Viðvíkjandi 28. brtt., við 94. gr., telur meiri hl. n. rétt að taka fram, að fyllstu varúðar verður að gæta viðvíkjandi aðstoð í heimahúsum, t. d. kemur ekki til mála, að heimilin geti ráðið sér aðstoð og sent síðan reikningana.

Brtt. við 98. gr. lýtur að því að fella niður ákvæðið um, að skylt sé að greiða kostnað vegna heimfarar sjúklinga: Þó væntir n., að þessu verði ekki beitt, ef t. d. sjúklingurinn er fluttur veikur heim aftur. Þá leggur n. einnig til, að 2. málsgr. sömu gr., um hækkun á endurgreiðslum, falli niður. — Brtt. við 99. gr. er einungis orðabreyt.

31. brtt. er um, að 2. málsgr. 100. gr. falli niður. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að taka skuli vissan hluta af tekjum Tryggingastofnunarinnar auk þeirra þriggja millj., sem nú eru í vörzlum stofnunarinnar, og renni það til Atvinnustofnunar ríkisins. En þar sem þörf var á að lækka útgjöld trygginganna, þótti réttara að láta þetta falla niður en að ganga á aðra liði trygginganna. — Bein afleiðing af þessari breyt. á 100. gr. er svo 32. brtt., um að bæta þurfi aftan við 101. gr. nýjum tölul. — Brtt. við 102. og 103. gr. eru einnig afleiðingar þessarar breyt. — 34. brtt. er einungis orðabreyt. — Samkv. 35. brtt. fellur niður 2. málsgr. 105. gr. frv., þar eð þarflaust er að ákveða um útlán fjár, sem skal vera handbært. — 36. brtt. er einungis orðalagsbreyt., en miðar að því að rýmka lánsheimild til sveitarfélaga til að koma upp elliheimilum og öryrkjastofnunum. Þó hefur Tryggingastofnunin á valdi sínu að meta þá tryggingu, sem í boði er. Næsta brtt. er við 109. gr. frv. og er afleiðing af áður sögðu.

38. brtt. fjallar um, að hið sama gildi um meistara í iðnaði og þær stofnanir, sem veita verklega kennslu. Er þetta eðlileg og sjálfsögð lagfæring.

39. brtt. er við 111. gr. frv. N. var. sammála um, að með tilliti til þeirra tekna, sem skattaframtöl sýna, væri ekki unnt að orða þessa gr. eins og gert er í frv., en varð sammála um að orða hana á eftirfarandi hátt: „Nú sækir maður til sveitastjórnar um, að sveitarsjóður greiði fyrir hann iðgjöld hans, sakir þess að hann sé ekki fær um það af eigin rammleik, og tekur þá sveitarstjórn ákvörðun um umsóknina með tilliti til ástæðna hlutaðeiganda. Þó á iðgjaldsgreiðandi jafnan rétt á því, að sveitarsjóður greiði fyrir hann iðgjöldin, ef tekjur hans og eignir eru svo rýrar, að honum beri ekki að greiða tekjuskatt né eignarskatt það ár, og má aldrei krefja hann um hærri hluta iðgjaldsins en svo, að nemi helmingi skattskyldra tekna hans unz fullu iðgjaldi er náð. Greiðir sveitarsjóður það, sem á vantar fullt iðgjald. Slíkar iðgjaldagreiðslur úr sveitarsjóði teljast ekki framfærslustyrkur.“ — Því var haldið fram með réttu, að sveitarsjóðunum mundi íþyngt um of þar, sem tekjuframtöl eru lág, ef þessu væri ekki breytt. Þeirri leið er samt haldið opinni, að þeir, sem litlar tekjur hafa, geti sótt um greiðslu úr sveitarsjóði.

40. brtt. er við 114. gr., og hef ég áður skýrt hana. — 41. brtt. skýrir sig sjálf. Aftur á móti er 42. brtt. gagngerð breyting á 118. gr. Er þar um að ræða einn lið í því samkomulagi, sem ég gat um í upphafi máls míns. Samkv. brtt. n. skal orða gr. svo : „Ríkissjóður ábyrgist greiðslu bóta og kostnaðar af heilsugæzlu samkvæmt lögum þessum og leggur fram til tryggingasjóðs það, sem á vantar, að aðrar tekjur hans nægi til þess að inna af höndum árlegar greiðslur. Skal taka í hver fjárlög áætlunarupphæð í þessu skyni eftir áætlun tryggingaráðs, allt að 7 millj. kr. að viðbættri verðlagsuppbót.

Ábyrgð ríkissjóðs umfram hámark hins árlega framlags samkvæmt 1. málsgr. tekur þó eigi til hærri fjárhæðar en 75% framlagsins nemur.

Nú verður halli á rekstri tryggingasjóðs og framlag ríkissjóðs fer fram úr hámarki samkvæmt 1. málsgr., svo að taka þarf til þriðjungs eða meira af ábyrgðarupphæðinni samkvæmt 2. málsgr., og getur þá ríkisstjórnin, ef hallinn stafar af ástæðum, sem ætla má að verði varanlegar, lagt fyrir tryggingaráð að hækka iðgjöld samkvæmt 109. og 114. gr. um allt að 10% og lækka tekjumark það, er lífeyrisfrádráttur samkvæmt 1. bráðabirgðaákvæði miðast við, um allt að 50% til þess að jafna hallann. Fáist hallinn ekki jafnaður á þann hátt, skal ríkisstjórnin í samráði við tryggingaráð leggja fyrir Alþingi tillögur um endurskoðun laganna.“ — Það var ljóst, að ef samkomulag átti að nást um þetta mál, varð að takmarka greiðslurnar nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég skal játa, að þessi ákvæði eru óvenjulega ströng. Ég hygg, að það séu ekki í okkar löggjöf til ákvæði sem þessi. En það skal játað, að ekki er hæga að segja um það með nokkurri vissu, hver útgjöldin kynnu að verða, og mþn. var því að sjálfsögðu fullljóst, að með fullri vissu var ekki hægt að áætla slíkt. Þess vegna er lagt til í bráðabirgðaákvæðunum, að endurskoðun á l. skuli fara fram innan næstu fimm ára. Ég hef því talið, að ekki væri þörf á þessum sérstöku ákvæðum þarna, því að hvort tveggja lýtur að því sama, og þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að orða gr. eins og hér segir.

Brtt. við 119. gr. er aðeins viðbót, sem skýrir sig sjálf og er sett eftir ósk tollstjórans í Reykjavík, sem er manna kunnugastur þessari innheimtu og öllu, sem að því lýtur.

44. brtt., a-liður, við 120. gr., er aðeins breyt. á þeim tímaákvörðunum, sem gilda eiga um það, hvenær gjaldskráin til tryggingasjóðs skuli lögð fram, og skýrir sig sjálf. B-liðurinn er afleiðing af þeim breyt., sem gerðar eru á 111. gr., og þarfnast ekki skýringar. C-liðurinn er aðeins leiðrétting.

Þá er brtt. við 121. gr., og er lagt til, að hún verði orðuð eins og 45.. brtt. hermir, en í frv. er gert ráð fyrir, að í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem námsmenn eru staddir, sé skylt að innheimta gjöldin mánaðarlega. Þessi brtt. er gerð eftir ósk tollstjóra, en ég vil taka fram sem mína skoðun og að ég ætla meiri hl., að a. m. k. fyrst eftir að l. gengju í gildi, tel ég ekki fært að víkja frá því að innheimta mánaðarlega á þessum stöðum; þó að ég vel geti fallizt á, að þegar frá líður og framkvæmdin er komin í fast horf, megi víkja nokkuð frá því, og með tilliti til þess er þessi brtt. gerð við gr.

Brtt. við 124. gr. er eingöngu gerð í samráði við tollstjóra, sem telur sjálfsagt að halda sama hætti um innheimtu iðgjalda vegna sjómanna og bifreiðastjóra sem nú er og taka þau við lögskráningu og með bifreiðaskatti, og fellst n. á það. — Í 47. brtt., við 127. gr., er vísað til nýrri l. en gert er í frv., og er það aðeins leiðrétting. — 128. gr., um sérstaka lífeyrissjóði, er lagt til, að verði færð á annan stað, eins og 54. brtt. sýnir, því að þar er lagt til, að hún komi inn óbreytt. — 49. brtt. er gerð við 130. gr. Þar er prentvilla, og mun n. taka aftur 49.–50. brtt. til 3 umr. og athuga það nánar, bæði leiðréttinguna og annað í sambandi við það.

Þá er 51. brtt., við 133. gr., þar sem lagt er til, að upphaf gr. orðist eins og þar hermir, en efni brtt. er það, að þau viðurlög, sem samkv. frv. er ætlazt til, að gildi jafnt, hvort sem um innheimtufé er að ræða eða skyldugjald atvinnurekenda, skuli framvegis aðeins gilda um skyldugjald atvinnurekenda og fara eftir þeim l., sem til er vísað.

Við 134. gr. er lengdur úr fimm mánuðum í tólf mánuði sá tími, sem atvinnurekandi getur krafið fyrrverandi starfsmann um þetta gjald. Það varð að samkomulagi í n. að breyta þessu.

53. brtt. a er aðeins orðabreyt. B-liðurinn er um það, að bætur vegna útfarar samkv. 46. gr. skuli felldar úr frv., en í þess stað leggur meiri hl. til, að sett sé inn „bætur samkv. 35. gr.“, þ. e. a. s. 3–12 mánaða greiðsla eftir því, hvort um konu með barn á framfæri eða barnsmóður er að ræða.

54. brtt. er aðeins um það, að 128. gr. skuli sett á þennan stað í frv., og er það afleiðing af þeirri brtt., sem áður greinir um þetta efni. Annars skal ég geta þess, að einmitt um þessa till. var allmjög rætt í mþn., og var nokkur ágreiningur um að gera nokkuð aðra skipun þar á, þ. e. a. s., að lífeyrissjóðirnir yrðu viðbótartrygging við almannatrygginguna, sem allir eru skyldir að taka þátt í, en samkv. þessari gr. er ætlazt til þess, að lífeyrissjóðurinn taki að sér aðra lífeyrissjóði að fullu. Og þó að ég hefði talið hitt heppilegra, þá hef ég ekki hirt að bera fram brtt. um það, en að sjálfsögðu verður þetta lagað við endurskoðun.

Í 55. brtt. við 137. gr. er lagt til, að Tryggingastofnuninni sé heimilt að stofna til og taka að sér persónulegar ábyrgðartryggingar. Það er nokkuð spurt um þessar tryggingar nú, en ég held, að það sé ekki hægt að fá þær með sæmilegum kjörum eða ekki auðvelt a. m. k. N. telur sjálfsagt að veita þessa heimild, en ráðh. ræður, hvort hún er notuð, og setur þá reglugerð þar um, ef til kemur.

56. brtt. er aðeins leiðrétting. Það var aldrei ætlazt til, að skattfrelsi vegna iðgjalda tæki til þeirra iðgjalda, sem greidd eru samkv. 137. gr., því að það er annars eðlis.

Þá er loks brtt. við 142. gr., um gildistöku l. Í frv. var gert ráð fyrir því, að l. öðluðust gildi að nokkru 1. júlí n. k. og þá væri hægt að hefja innheimtu iðgjalda. Nú er ómögulegt að koma slíku við, svo langt sem liðið er á árið. Ýmsar breyt., sem ég hef gert grein fyrir, stafa af því, að ekki er hægt að halda sér við þessi tímamörk. Nú leggur n. til, að um næstu áramót taki l. gildi og þá hefjist allar bótagreiðslur samkv. l. og einnig hefjist þá iðgjaldagreiðslur, líka frá sama tíma. Ætlað var samkv. frv., að hægt væri að innheimta iðgjöld í sex mánuði, áður en bótagreiðslur hefjast. Þó er sú undantekning fyrir gildistöku l. samkv. till. n., að kaflinn um heilsuvernd taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1948, eða einu ári síðar. Er það með tilliti til þess, að tími vinnist til undirbúnings. Ég hef rætt um þetta við hæstv. fjmrh., og ég hygg, að hann mundi heldur vilja hafa það nokkru rýmra, þannig að hægt sé að láta heilsugæzlukaflann taka til starfa eitthvað fyrr á árinu, ef það þætti henta. N. gæti því fyrir sitt leyti fallizt á að fresta að ganga til atkv. um gildistöku l., en mun þó gera grein fyrir brtt. að öðru leyti, en vil heyra frá meðnm. mönnum mínum um það síðar. Aðrar brtt. eru fluttar sem bein afleiðing af gildistökutímanum, eins og t. d. c-liður, sem segir, að 3. kafli alþýðutryggingal. skuli gilda þangað til heilsugæzlukaflinn samkv. þessum l. kemur til framkvæmda, og einnig er gert ráð fyrir, að sama gildi um heilsuverndarstöðvar, að l. um þær gildi, þangað til kaflinn um heilsuverndarstöðvar í þessum l. kemur til framkvæmda. Hins vegar er lagt til, að 7. liður í 142. gr. frv. falli niður. N. var sem sé á því, að ekki væri vert að fella þessi eldri l. úr gildi um læknisvitjanasjóði. Meðan óséð er um, hvort þeir sjóðir, sem stofna skal samkv. frv., hrökkva til, þá getur verið gott fyrir hreppsfélög að hafa þessa læknisvitjanasjóði til umráða fyrstu árin.

Þá eru brtt. við bráðabirgðaákvæðin. Þar er lagt til í a-liðnum, að upphaf tölul. 1 orðist svo : „Greiðslur ellilífeyris samkv. 15. gr., örorkulífeyris samkv. 18. gr. og barnalífeyris samkv. 20. gr. eru um næstu 5 ár háðar þeim takmörkunum, sem hér segir.“ Hér er fellt niður að heimila að skerða ekkjulífeyri, önnur efnisbreyt. er ekki.

Þá er lagt til, að málsgr., sem lýtur að ekkjulífeyri, sé með öllu í burtu felld, þar sem hann er ekki lengur til í frv., en inn bætist viðvíkjandi barnalífeyri ákvæði eins og hermir í c-lið: „Heimilt er ríkisstjórninni að ákveða með reglugerð“ o. s. frv. Það þótti ekki fært að setja um þetta ákveðnari reglur, en þetta, sem sé, að sú hámarksupphæð, sem miðað er við, þegar til skerðingar kemur, sem er samkv. þessari gr., taldi n. að mætti nægja. — D-liðurinn er aðeins orðalagsbreyt., og e-liðurinn er settur inn samkv. ósk tollstjóra, að ákveða skuli iðgjöld í heilum krónum. — Í f-lið er lagt til, að meðan ekki eru sett l. um opinbera aðstoð til öryrkja, skuli heimilt að verja allt að 400 þús. kr. úr tryggingasjóði til styrktar slíkum mönnum eftir nánari reglum, sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir.

Loks er h-liðurinn, sem er í raun og veru afleiðing af því, sem gert er ráð fyrir, að fresta gildistöku l. N. er ljóst, að sjúkrasamlög hljóta að starfa áfram meðan heilsugæzlukaflinn kemur ekki til framkvæmda. N. þótti ekki fært að innheimta samtímis full iðgjöld til tryggingasjóðs og einnig sjúkrasamlagsgjöld, en hins vegar þótti ekki rétt að draga sjúkrasamlagsgjöldin frá, því að fríðindi sjúkrasamlaganna haldast, og er því lagt á vald tryggingaráðs eða ríkisstj. að fengnum till. tryggingaráðs að lækka iðgjöld um allt að 30%, þó aldrei meira en sjúkrasamlagsiðgjaldi nemur. Þar sem ekki er sjúkrasamlag, skal slík iðgjaldalækkun nema sjúkrasamlagsgjaldi eins og það er lægst á landinu.

Ég hef þá gert grein fyrir þessum brtt. og bið afsökunar, hversu langan tíma það hefur tekið, en taldi það þó óhjákvæmilegt, því að ég hygg, að það sé ætlun hæstv. forseta, að atkvgr. ljúki í nótt.

Ég skal aðeins segja örfá orð um aðrar brtt. varðandi þetta mál, en spara þá frekar umr. síðar, er hv. flm. þeirra hafa mælt fyrir sínum till.

Um brtt. á þskj. 798, frá hv. 4. landsk. þm., vil ég segja það, að í raun og veru er ég þegar búinn að skýra, hvers vegna ég hef ekki séð mér fært að vera með þeim, þegar ég hef greint frá viðræðum og samkomulagi, sem fengizt hefur í n. um fjárhagsatriðið. Mér þykir samt rétt að gera grein fyrir því, sem n. hafði í huga, þegar þær tölur voru settar í frv., sem gert var, þ. e. a. s. 1200 kr. grunnlífeyrir fyrir einhleypan mann, sem er sæmilega heilsuhraustur og þarf ekki umönnunar eða læknis við. Gegnum þetta frv. allt er fylgt þeirri reglu, að bótaupphæðin megi aldrei fara fram úr 75% af eðlilegum tekjum hlutaðeiganda. Ef maður athugar kaupgjald hér í Reykjavík áður en síðustu Dagsbrúnarsamningar voru gerðir, þá hefur verkamaður, sem hefur 300 vinnudaga, 16300 kr. árstekjur, og er þá ekki talið með neinni eftirvinnu. Setjum svo, að þetta séu hjón með 3 börn. Ef þau yrðu bæði öryrkjar, þá fengju þau fulla upphæð samkv. þessum l. Þá fengju hjónin 5500 kr. og börnin 6840 kr. eða samtals 12340 kr., ef um engar aðrar tekjur er að ræða, eða rétt um það bil 75% af þeim tekjum, sem verkamaður með Dagsbrúnarkaupi vinnur sér inn á 300 vinnudögum án nokkurrar eftirvinnu. Líti maður til einstaklings, getur maður deilt í þessar 16500 kr. með 5, og yrði þá á hvern einstakling 3500 kr. til uppjafnaðar. Þetta er sú viðmiðun, sem n. hafði í huga þegar hún lagði til, að þessi upphæð yrði ákveðin í samræmi við það hámark, sem tryggingin hefur greitt til þessa. Hins vegar er það svo, og það vil ég minna hv. þm. á, að það er heimild í frv. til þess að auka við þessar greiðslur, ef svo er ástatt um styrkþega, að hann þarf sérstakrar sjúkraumönnunar við.

Loks vil ég benda á, að í bráðabirgðaákvæðunum er beinlínis ákveðið, að fram skuli fara rannsókn á raunverulegum framfærslukostnaði á ýmsum stöðum á landinu og bótaupphæð ákveðin og landinu skipt í verðlagssvæði að fengnum þeim niðurstöðum. Ég skal rétt skýra frá þessu vegna þeirra brtt., sem fram eru komnar, og get ég látið þetta nægja um þær til viðbótar því, sem ég sagði í upphafi máls míns um möguleika á því að fá fjárhagsgrundvöll frv. samþ. í n.

Um þá brtt., að fastagjaldið verði lækkað, en í þess stað tekið upp hundraðsgjald af tekjum, vil ég segja það eitt, að um þetta var mikið rætt í mþn., og ég skal játa, að mér hefði ekki þótt óeðlilegt, að eitthvert slíkt ákvæði hefði verið tekið upp, en ég vil benda á, að ég hygg, að áætlunin um, hvað hundraðsgjaldið mundi gefa miklar tekjur, sé varla örugg, enda ekki kostur að gera svo mikla áætlun á svo stuttum tíma sem um var að ræða. — Þá er önnur ástæða, sem í mþn. var fram borin fyrir því, að hafa persónugjaldið nefskatt, ef svo mætti segja. Ástæðan er sú, að gert er ráð fyrir, að 4/7 séu teknir með stighækkandi sköttum frá ríki og sveitarsjóðum, sem aftur afla sér tekna með útsvörum og sköttum, en 2/7 sé lagt á þá tryggðu sjálfa, og það varð ofan á með tilliti til þess, hversu mikið af iðgjöldunum er tekið með stighækkandi sköttum, að hafa persónugjaldið eins og í frv. greinir. Ég hygg einnig, að það hefði stofnað málinu í nokkra hættu, ef á þessa brtt. hefði verið fallizt.

Loks þætti að sjálfsögðu hlýða að víkja nokkrum orðum að minnihlutaálitinu, en ég mun aðeins segja um það að þessu sinni örfá orð og geyma mér það heldur þangað til ef þörf krefur, eftir að minni hl. hefur fylgt því úr hlaði. Meginefni nál. er það, að hér sé um ófullnægjandi undirbúning að ræða og því ekki gerlegt að setja svo veigamikla löggjöf sem hér er um að ræða. Ég hygg, að þetta sé með öllu rangt hjá hv. þm. Ég vil segja það, að þessi löggjöf hefur fengið meiri undirbúning og rannsókn að sumu leyti en mörg lagasetning önnur, sem ekki þyrfti síður til að vanda, nú á síðustu árum. Það hefur verið mþn. starfandi að athugun þessara mála síðan 1943, að ég ætla og mér liggur við að segja, að á hverju ári síðan tryggingal. voru sett 1935 hafi þau verið til umr. og gerðar breyt. frá ári til árs.

Þeir, sem áhuga hafa á málinu, geta kynnt sér skýrslu Jóns Blöndals um málið. Og í raun og veru er 10 ára starfsemi tryggingastofnananna bezti undirbúningur málsins eða sú reynsla, sem með þessari starfsemi hefur fengizt.

Hv. þm. minnist á, að það hafi ekki verið hægt að lögbjóða tryggingar úti um sveitir 1936, og er það rétt, en reyndin hefur þó orðið sú, að nú mun um 90% starfrækja tryggingarnar, og þá er beinlínis óeðlilegt, að 10% séu utan við svo nauðsynlega starfsemi. — Þá hefur því verið haldið fram, að fólkið sé ekki nógu þroskað til þess að hægt sé að starfrækja svo fullkomna tryggingalöggjöf og fólk muni misnota hana. Ég held, að reynslan hafi sýnt þessi undangengnu 10 ár, að fólk skilur betur nauðsyn þessa máls og félagsþroskinn eykst eftir því sem tryggingarnar starfa lengur.

Ég mun nú stytta mál mitt, en þó er eitt atriði, sem ég vil minnast á. Á 2. bls. síðustu málsgr. í nál. minni hl. stendur: „Það má telja víst, að hin óvenjulegu vinnubrögð, sem viðhöfð eru við afgreiðslu þessa máls, mundu alls ekki hafa verið viðhöfð, ef hér væri ekki um pólitískan samning að ræða, sem af hálfu jafnaðarmanna er gengið ríkt eftir að verði fullnægt fyrir næstu kosningar“ o. s. frv. Því þarf ekki að leyna, að hér er um pólitískan samning að ræða, en það þarf enginn að hneykslast á því. 1936 studdi líka þessi hv. þm. ekki veigaminni breyt. eftir pólitískum samningi, og ég tel, að við séum betur búnir nú til þess að skipuleggja og framkvæma öfluga tryggingalöggjöf. En þessi hv. þm. er alltaf að hrópa um hrun og hefur gert það undanfarin fjögur ár. Alltaf hefur hrun verið yfirvofandi. (HermJ: Þetta er skáldskapur). Þessi hróp hv. þm. minna á strákinn, sem æpti „úlfur, úlfur“ bæði í tíma og ótíma. Hins vegar neita ég því ekki, að ég er hræddur um, að þessum hrópum hv. þm. verði ekki heldur gaumur gefinn, ef svo færi, að erfiðleikar steðjuðu að þjóðinni. En það er annað mál en hér er til umræðu. Ég tel, að það geti orðið okkur mesti bjargvættur, ef efnahagur þjóðarinnar versnaði, að hafa gott tryggingakerfi, og þess vegna tel ég, að ósk og álit hv. þm., að ekki sé tímabært að afgr. þetta mál, sé ekki á rökum reist.