27.03.1946
Neðri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

142. mál, sameining Selfossbyggðar í eitt hreppsfélag

Jörundur Brynjólfsson:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál að þessu sinni, því að það er nú búið að ræða það nokkuð.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 628 og vil vænta þess, að d. geti á þær fallizt, og vildi mega óska þess af hálfu þeirra manna, sem hafa hér flutt brtt. við málið, að þeir gætu fallizt á að taka þær aftur, en þar með tel ég ekki þær brtt., sem eru á þskj. 641 og 642, sem nú er verið að útbýta. Það mundi gera afgreiðslu málsins öruggari, og mér sýnist sem það séu þá meiri líkur fyrir því, að hún kunni að verða á þann hátt, sem flestir gætu látið sér lynda eftir því, sem málavextir standa til.

Það er að vísu — og úr því verður ekki héðan af bætt — vont, að málið skyldi ekki koma betur undirbúið úr héraði, en ég hef lýst og fært fram ástæður fyrir því, og ætla ekki að endurtaka það, en maður verður að viðurkenna, að það er ekki nema eðlilegt, að það kauptún, sem hér á hlut að máli, Selfossbyggð, óski eftir að koma málum sínum á hreinni grundvöll en þau standa nú, og ég ætla, að það sé tekið tillit til allra aðstæðna, eftir því sem hægt er, með brtt. mínum, og ég hef sniðið þær með hliðsjón af till. annarra manna, sem áður voru komnar fram, þannig að ég vil mega vænta þess, að þeir hv. þm. geti látið sér lynda að gera ekki frekari breyt.

Um aðrar till., sem fyrir liggja og ég hef ekki tekið tillit til, þá vil ég mega vænta þess, að d., ef hv. flm. vilja ekki fallast á að taka þær aftur, láti þær ekki ná samþykki. Það liggur opið fyrir hv. þdm., hvert efni í minni brtt. er, og ætla ég ekki að fara að rekja það. Aðeins skal ég minnast á brtt. viðvíkjandi 4. gr., sem er um gerðardóminn.