09.04.1946
Neðri deild: 105. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

141. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, þá var frestað við 2. umr. þessa máls að taka afstöðu til ýmissa brtt., er fyrir lágu, annarra en þeirra, er meiri hl, sjútvn. flutti. Þessar brtt. liggja því fyrir enn, en ég vil geta þess um brtt. á þskj. 713 frá sjútvn., að hún er samkomulagstill. allrar n., samkomulag, sem hefur orðið nú á milli umr. og var að vikið í tveim sérstæðum brtt., sem eru dregnar til baka og koma ekki til atkv., þ. e. brtt., sem var flutt á sínum tíma af hv. 2. þm. S.-M., og önnur, sem ég flutti ásamt hv. form. sjútvn. En í stað þeirra er þá þessi brtt. hér, sem er samkomulagstill., á þskj. 713. — Ég þarf svo ekki að geta þeirra brtt., sem óútkljáðar voru, brtt. einstakra þm. í sjútvn,, sem eru á þskj. 716, 717 og 722. Þær bera með sér þann ágreining, sem var og er um þau atriði, er þær fjalla um.

Þá vildi ég mega koma á framfæri 3 brtt., sem sjútvn. flytur skriflegar (þskj. 735) við 8. gr. Í fyrsta lagi um það, að við 2. málsgr. þeirrar gr. bætist: „þar til lánið er greitt niður um helming.“ Þ. e. a. s., þetta snertir það atriði, þegar bæjar- eða sveitarfélag gengur í ábyrgð fyrir einstaklinga eða félög gagnvart lánsstofnuninni, sem hér um ræðir, þá er það tilætlunin með þessari skriflegu brtt., að þeirri ábyrgð bæjar- og sveitarfélaga megi vera lokið, þegar lánið er greitt niður um helming. En eins og gr. er nú í frv. eftir 2. umr., þá verður að líta svo á, að bæjar- og sveitarfélög séu í þessari ábyrgð, þar til greiddur er hinn síðasti peningur lánsins. Þetta fannst sjútvn. að mætti liðka þannig, að ábyrgð bæjar eða sveitar gæti horfið þegar lánin eru greidd niður um helming.

Þá er 2. brtt. við sömu gr. frv., sem líka er skrifleg og gengur út á það, að á eftir 2. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur má lána félögum þeim, sem um ræðir í 2. málsgr. 3. gr. laga þessara, allt að 2/3 (tveim þriðju) út á framkvæmdir þær, sem um ræðir í 2. málslið 1. málsgr. þeirrar greinar.“ Efni þessarar brtt. er það, að félög útvegsmanna og sjómanna, sem standa fyrir fyrirtækjum, njóti sömu fríðinda að því er snertir upphæð láns út á iðnfyrirtæki og væru það bæjarfélög eða sveitarfélög.

Og loks flytjum við hér þriðju skriflegu brtt. við sömu gr., 8. gr., sem miðar að því að setja hámarkstakmark fyrir því, hvað lána megi einum aðila, svo hljóðandi: „Óheimilt er að lána einum aðila meira en 4 millj. kr. af fé stofnlánadeildarinnar. Þetta ákvæði nær þó eigi til bæjarfélaga og hreppsfélaga né þeirra félaga útvegsmanna, sem um getur í 2. málsgr. 3. gr. laga þessara.“ En þessi félög, sem hér er átt við og líka er átt við með hinni brtt., sem ég nefndi, eru umtöluð í 2. málsgr. 3. gr. frv., og eru þau : „félög útvegsmanna og fiskimanna, sem stofnuð eru til að reka iðnað í þágu útvegsins og eru opin útvegsmönnum og fiskimönnum, og félög, sem meginþorri útvegsmanna á hverjum stað er þátttakandi í, í þeim tilgangi, er að framan greinir, enda skipti félögin arði af rekstri í hlutfalli við viðskipti félagsmanna,.“ Það verður nú að segja það strax, að það er ekki líklegt, að þetta hámark fyrir láni til eins aðila saki þessi félög, því að þau munu tæplega standa fyrir svo stórum framkvæmdum, að þau krefðust meiri lánveitinga en 4 millj. kr. En hins vegar þótti, fyrir varúðar sakir, rétt, að eitthvert hámark væri til í þessum l. fyrir því, hvað lána mætti í einn og sama stað. Það er að vísu svo ætlazt til, að þetta hámark nái ekki til þessara félaga. En ég tel, að þessi félög mundu ekki æskja eftir hærri lánum en hér er sett hámark fyrir.

Nú hefur verið útbýtt hér í hv. þd. brtt. frá hv. þ. m. Borgf., sem er þess eðlis að færa út verksvið stofnlánadeildarinnar og láta það ná til hafnarmannvirkja og lendingarbóta gegn ríkisábyrgð. Enn fremur um að hækka lánsfjármöguleikana, sem gert er ráð fyrir í frv., úr 100 millj. í 120 millj. kr. Þessi brtt. hefur nú ekki sézt fyrr en nú á stundinni, og ekki verið, svo að ég viti, rætt um hana við sjútvn., sem og kann að vera óþarft. En ég verð að segja það, að þó að ég viti ekki um afstöðu sjútvn. svo greinilega í þessu efni, þá finnst mér, að hér sé stefnt að því að stíga nokkuð stórt spor, ef þessi 1. eiga nú að fara að standa undir hafnarframkvæmdum og öðru slíku. Það hefur lítillega verið um það rætt í sjútvn., án þess að tekin hafi verið ákvörðun út frá því, að mörgum virðist, sem þetta fjármagn, 100 millj. kr., muni ekki endast alllengi, með öllum framkvæmdum, sem fyrir höndum eru, og kröfum, sem vitað er, að gerðar verða til að fá lánsfé. Þó hefur n. ekki á þessu stigi málsins viljað leggja til að hækka þessa upphæð, jafnvel þó að flestir séu þeirrar skoðunar, að þess gerist bráðlega þörf. Hitt hefur svo alls ekki verið rætt, að fara að leita eftir fleiri greinum til þess að lána til eftir þessum l., því að þess virðist nú ekki vera þörf, því að það er áreiðanlegt, að færri fá en vilja þessi nýju lán eftir þessum lögum. Mér virðist þessi hugmynd, sem hv. þm. Borgf. kemur hér á framfæri, að taka þetta fé og nota þennan sjóð til hafnarbóta, ekki eiga beinlínis erindi inn í þetta mál og geti ekki bætt neitt fyrir hinum öðrum viðskiptamönnum væntanlegrar stofnlánadeildar. Svo er það og vitað, að sérstakur sjóður, hafnarbótasjóður, hefur verið stofnaður hér, til þess að veita megi úr honum minni lán eða fjárhagslega aðstoð a. m, k., til hafnarframkvæmda. Og ef ég man rétt, þá átti hv. þm. Borgf. eitthvert orð að því við afgreiðslu fjárl. hér í vetur, að sá sjóður yrði tekinn til afnota jafnvel á þessu ári og það ekki í smáum stíl. Hitt finnst mér svo ekki geta samrýmzt tilgangi þessarar stofnlánadeildar, sem hér er frv. um, að teygja verksvið hennar út yfir það an veita sérstök hafnarlán, þegar það er vitað í fyrsta lagi, að Alþ. veitir lögboðið framlag beinlínis úr ríkissjóði til hafnanna, og í öðru lagi hefur verið stofnaður sjóður, og hann nú orðinn talsvert ríflegur, til þess að styðja aukalegar framkvæmdir við hafnargerðir, sem er hafnarbótasjóður. Hann er stofnaður einmitt að tilstilli hv. þm. Borgf. o. fl. hv. þm. og þá finnst mér ekki rétt að teygja verksvið stofnlánadeildarinnar út yfir það að veita úr þeim sjóði lán til hafnarframkvæmda, þar sem vitað er, að stofnlánadeildin er ekki annað en önnur útgáfa af fiskveiðasjóði Íslands og var upphaflega tilætlunin, að væri stækkun fiskveiðasjóðsins. Þetta er ekki sagt vegna þess, að ég telji ekki hafnarmannvirki og lendingarbætur mjög þarfar framkvæmdir.

Ég mun nú afhenda hæstv. forseta þær skriflegu brtt., sem ég lýsti og sjútvn. flytur, til þess að þær geti komið undir atkv. við þessa umr.