03.04.1946
Efri deild: 98. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (3789)

183. mál, lögreglustjórar í Fáskrúðsfirði og í Dalvík

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst þessi dagskrártill. hv. þm. Dal. dálítið undarleg. Þótt hún heiti till. til rökst. dagskrár, sé ég ekki mikil rök í henni. Ef hv. d. vill afgr. málið á þennan veg, þykir mér sýnu nær að taka upp dagskrártill. allshn. um annað skylt frv., þó vitanlega með breyt. Þar eru þó rök, hér ekki. Þessi till. byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að engar upplýsingar liggja fyrir um það, hvort kauptúnum þeim, sem um ræðir í frv., er meiri þörf á að fá sérstakan lögreglustjóra en ýmsum öðrum . . .“, o. s. frv. Auðvitað eru þetta hrein ósannindi (ÞÞ: með samanburði.), að engar upplýsingar liggi fyrir um þetta. Íbúar kauptúna þessara hafa beinlínis beðið um lögreglustjórn. Liggja beiðnir þessa efnis fyrir frá oddvitum og hreppsnefndum umræddra kauptúna, en eigi annarra. Menn skyldu halda, að þörfin væri þá meiri þar, sem menn telja sig tilknúna að óska eftir að fá á sérstakan lögreglustjóra, heldur en á þeim stöðum, sem engar slíkar óskir hafa komið frá.

Og svo kemur seinni partur þessarar dagskrártill.: „ . . . og samþykkt frv. gæti því haft í för með sér algera stefnubreytingu í sveitarstjórnarmálum, þá telur d. varhugavert að samþykkja frv. án rækilegri athugunar en gerð hefur verið og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“ Hvað meinar hv. þm. með því að setja þessa fjarstæðu í till. sem hann ætlast til, að hv. d. samþ. Það er nú skárri stefnubreytingin, sem þetta gæti haft í för með sér í sveitarstjórnarmálum. Þetta er ekki annað en það, sem samþ. hefur verið áður um ýmis önnur kauptún. Ég get gengið inn á, að það hafi verið stefnubreyting í sveitarstjórnarmálum, þegar fyrstu l. um lögreglustjóra í kauptúnum voru samþ., en þó að 2 lögreglustjórum sé nú bætt við, er það vitanlega ekki nein stefnubreyting í sveitarstjórnarmálum. Það eru eingöngu troðnar gamlar slóðir og ekki annað.

Við fyrri hluta þessarar umr. höfðu þeir báðir, hv. þm. Dal. og hv. þm. Barð., gert ýmsar aths. við frv. og það, sem ég hafði sagt. Ég gat nú ekki svarað því þá, sökum þess að hæstv. forseti vildi taka málið af dagskrá, og enda þótt nú sé tækifæri til þess, mun ég nú lítið fara út í það. Hv. þm. Dal. spurði mig að því þá, hvort ég hefði ekki áður flutt frv. um lögreglustjóra í Hrísey. Jú, ég gerði það einu sinni. Ég flutti frv. um lögreglustjóra í Hrísey samkv. beiðni íbúanna, en hv. Alþ. féllst ekki á að samþ. það frv., og ástæðan var sú, hvað kauptúnið í Hrísey er fámennt. Það hafði sem sé verið regla í þessum málum, sem Alþ. hafði farið eftir, og reglan var sú að veita þetta ekki annars staðar en þar, sem íbúarnir eru 700–800 eða fleiri. Þetta hafði verið sú fasta regla, og þess vegna var þetta fellt þá. Og af þessum sömu ástæðum er þá vitanlega engin hætta á því, þó að þetta frv. verði samþ., að það verði þá a. m. k. nema örfá af þeim kauptúnum, sem hv. þm. Barð. var að telja upp, sem bæðu þá um lögreglustjóra eða a. m. k., að Alþ. sæi þá ástæðu til þess að verða við beiðni þeirra um það. (GJ: Veit hv. þm., hvað margir íbúar eru í þessum kauptúnum, sem hann talar um?). Ég veit, hvað eru margir á Dalvík. (GJ: En á Fáskrúðsfirði? — IngP: 700–800). En á Stokkseyri og Eyrarbakka, eins og hv. þm. Barð. talar um í þessu sambandi, þá eru það ekki rök.

Þá var hv. þm. að tala um, að hreppstjórar landsins hefðu unnið störf sín með prýði, en væru illa launaðir, en svo ættu þessir lögreglustjórar að vera vel launaðir. Já, rétt er það, að flestir hreppstjórar landsins hafa unnið störf sín með prýði, og ég vildi sízt draga úr því, að þeir yrðu betur launaðir, svo að hótanir hv. þm. um það að bera fram frv. um það, að hreppstjórar verði betur launaðir, hræða mig ekki.

Þessir 2 hv. þm. voru að tala um það, að þessi embættafjölgun yrði mikill kostnaðarauki fyrir ríkissjóð. Þetta er gamla slagorðið, sem dugði vel fyrir mörgum árum, að vera á móti fjölgun embætta, þ. e. a. s. nema í sínu eigin héraði, gamla slagorðið, að úti um landið séu flest embætti stofnuð fyrir beiðni fólksins. Já, það er nú svo, en hvernig er hægt að taka tillit til svona raka, sem út af fyrir og geta nú átt rétt á sér, þegar stj. landsins fjölgar stöðugt hér í Reykjavík embættismönnum árlega um fleiri menn en farið er fram á að setja út á landsbyggðina. Og a. m. k. Alþ. tekur sér ekki vald í þessum efnum til þess að halda ríkisstj. í skefjum um að fjölga starfsmönnum á alls konar skrifstofum hér í Reykjavík. Það er eingöngu þegar, fólkið utan af landsbyggðinni af þörf biður um það, að þar sé skipaður starfsmaður, að þá er farið að tala um að spara. Ég vil skjóta því til hv. þm. Barð. sem form. fjvn., hvort hann hafi ekki orðið var við það, að fjölgað hafi verið starfsmönnum á skrifstofur hér í Reykjavík, sem ríkisstj. ræður yfir, eins mikið og meir en hér er farið fram á. Og mér finnst þá, að ef sparnaður á að vera ráðandi um þessi mál, þá eigi sá sparnaður að koma fram víðar en þar, sem beðið er um aðstoð í þessum efnum. sem hér er farið fram á.

Hv. þm. Barð. taldi, að allshn. hefði ekki önnur rök fram að færa fyrir því, að hún væri nú með þessu máli, en hefði áður lagt til, að annað sams konar mál væri afgr. með rökst. dagskrá, heldur en þau, að hún léti hv. Nd. skipa sér fyrir verkum. Ég vil benda hv. þm. á, að þetta getur alls ekki átt við mig. Ég ætla að biðja hv. þm. að lesa nál. allshn. um frv. um lögreglustjóra á Dalvík. Þar stendur með skýrum orðum, að ég óski eftir því, að frv. verði samþ. Hvað meðnm. mína snertir, þá er nú því að svara, að þeir voru málinu velviljaðir, en vegna undirtekta hæstv. dómsmrh. bjuggust þeir við, að það mundi ekki ná fram að ganga sem slíkt mál, og vildu þá heldur leggja málinu lið með því að gera till. um jákvæða dagskrá en að málið yrði beinlínis fellt. Og það breyttist aðstaðan, þegar við vissum, að málið hafði svo mikið fylgi í hv. Nd. sem raun ber vitni um málið, sem við vorum í raun og veru allir með.

Ég skal ekki þreyta umr. um þetta frekar, en að lokum ætla ég aðeins að taka það fram, eins og ég gerði í sambandi við lögreglustjórann á Dalvík, að mín skoðun um það, að nauðsyn sé á að endurskoða sveitarstjórnarlöggjöfina og þá alveg sérstaklega með tilliti til skiptingar landsins í sýslur, hreppa og bæi, er alveg sú sama og áður hefur verið. Þessi skipting er vegna breyttra aðstæðna orðin úrelt að mínu áliti, og einnig eru ákvæði um það, hvernig hinum ýmsu héruðum á að vera stjórnað, að mínu viti orðin úrelt. Ég álít því, að nauðsyn beri til þess að endurskoða þetta allt saman, og gæti ég vel trúað, að í framtíðinni yrði það svo, að landinu verði skipt í héruð á nokkuð öðrum grundvelli og hverju héraði fenginn starfsmaður, sem gæti gefið sig við því að sinna málum þess svipað og nú er um bæjarstjóra í bæjum. En hvað um það. Eins og ég gerði nokkra grein fyrir við fyrri hluta þessarar umr., álít ég að þetta frv. komi ekki að neinu leyti í bág við það, að þetta megi verða. Ég benti á meðal annars, að ef hæstv. ríkisstj. ætlaði að flýta slíkri endurskoðun, mætti hafa þann hátt á að setja menn í þessi lögreglustjóraembætti, en veita þau ekki. Þá er auðvitað ákaflega auðvelt að losna við þá, ef fyrir þessum þörfum kauptúnanna verður séð á annan hátt. Og auk þess er enginn vafi á því með þessa starfsmenn, og þótt þeir yrðu skipaðir, — þá verða auðvitað að vera ungir menn, — þá mundi verða auðvelt að flytja þá til í embættum, ef heildarlöggjöf yrði sett, sem gerði þeirra embætti óþarft.

Ég held mig því við og allshn., eða þeir 3 nm., sem tóku þátt í afgreiðslu þessa máls, að óska þess, að frv. verði samþ. Vilji hv. d. ekki fallast á það, mætti í það minnsta ekki minna vera en að það yrði afgr. með svipaðri rökst. dagskrá og allshn. hefur áður borið fram um annað frv., en að dagskrártill. hv. þm. Dal. verði felld.