28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (4058)

134. mál, landsvistarleyfi nokkurra útlendinga

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. fann ástæðu til þess að rísa hér upp og lýsa því sem sinni skoðun, að þessi brtt., sem ég hef hér flutt við byrjun þessarar þáltill., væri undanhald í málinu. Þessar fullyrðingar hans eru á misskilningi byggðar. Og dæmið, sem hann talaði um og hann vildi sanna mál sitt með, er utanþingsstjórninni var falið að veita á sínum tíma ábyrgð, skiptir engu máli í þessu sambandi. Það skiptir engu máli, hvort ríkisstj. er falið eða heimilað að veita slíka ábyrgð. En þegar um er að ræða að veita mönnum landsvistarleyfi, er ekki hægt með lögum að fyrirskipa ráðh. að gera slíkt. Hæstaréttardómur hefur gengið um það, að slíkt fær ekki staðizt. Hv. þm. Borgf. ruglar hér saman óskyldum atriðum. Efnislega er sama, hvort orðalagið er notað, það sem er á þáltill., eða það, sem ég legg til að hafa. En ég tel réttara orðalag á byrjun till. samkv. minni brtt. og því rétt að samþ. brtt.