27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4138)

234. mál, fjárskipti

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 769 er flutt af hv. þm. S-Þ. og báðum hv. þm. Eyf. og fjallar um það að heimila ríkisstj. að verja úr ríkissjóði á árunum 1946–49 1 millj. og 700 þús. kr. til fjárskipta á svæðinu milli Skjálfandafljóts og varnargirðinganna í Eyjafirði, með samþykki bænda á téðu svæði.

Þetta mál hefur í héraði fengið áskilinn undirbúning. Leynileg atkvgr. hefur farið fram í héruðunum og fjárskiptin samþ. með 191. atkv. gegn 34. Löglegum undirbúningi málsins er því lokið.

Hinn 24. apríl var málið tekið fyrir í fjvn., en n. varð ekki alls kostar sammála. Einn þm., hv. þm. Barð., skilaði séráliti og annar þm., hv. 4. landsk., tók ekki afstöðu í málinu. Hinir nm. voru sammála um að mæla með till. óbreyttri. Með þáltill. þessari fylgir álit sauðfjársjúkdómanefndar. Leyfi ég mér að vísa til þess, þar eð þar er fram tekið flest af því, sem til greina kemur. En ég vil undirstrika það, sem n. segir, að þetta muni auka mjög öryggi. Þeir, sem kunnugir eru, vita, að búið er að kaupa nýjan fjárstofn austan við girðinguna, og vestan girðingarinnar í Saurbæjarhreppi er veikin ekki heldur. Ég tel mikilvægt að koma í veg fyrir, að veikin berist austur og vestur á bóginn og tel því ákaflega ríka ástæðu til að samþ. þessi fjárskipti.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta, því að í nál. er náið skýrt frá málinu. En n. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt.