26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (4239)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Háttvirtir tilheyrendur. Svo sem fram hefur verið tekið, er það tilefni þessara umr., að þeir hv. þm. Str., Hermann Jónasson, og hv. 2. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, hafa flutt vantraust á ríkisstj. Þetta er annað vantraustið, sem flutt er síðan núv. ríkisstj. var mynduð. Hið fyrra flutti Jónas Jónsson, þm. S-Þ., þegar eftir að núv. ríkisstj. var setzt að völdum. Þegar það var borið undir atkv., greiddi flm. því einn atkv. Framsfl. í heild sat hjá og afsakaði sig með því, að ekkert hefði komið fram, er benti til þess, að stj. hefði ekki meiri hluta í þinginu, og því tilgangslaust að bera fram vantraust. Hvað þetta snertir, eru aðstæður nákvæmlega þær sömu og þá voru, og satt að segja er erfitt að átta sig á því, að nú skuli borið fram vantraust af þeim mönnum sem treystu sér til þess að sitja hjá við vantraust áður, eins mikil stóryrði og þeir viðhöfðu frá upphafi um ríkisstj. og þá glæfrapólitík, sem þeir töldu hana reka. En þetta er ekki eina at riðið, sem forustumenn Framsfl. hafa skipt um skoðun á. Öll framkoma flokksins hér í þinginu er á þessa leið : Framsóknarmenn ýmist skamma stj. fyrir glæfralega miklar framkvæmdir, sem stofni þjóðinni og fjármálum hennar í voða, eða þeir atyrða stj. fyrir það, að framkvæmdir séu of litlar. Þessar mótsagnir koma þó enn þá betur fram í blaði Framsfl., Tímanum. Ef menn rekja ummæli þessa blaðs um nýbyggingarráð, skipakaup og skipasmíðar ríkisstj., þá rekur sig hvað á annað. Blaðið er svo mótsagnakennt í ádeilum sínum á ríkisstj. og framkvæmdir hennar, að manni dettur helzt í hug, að blaðritararnir séu ekki með öllum mjalla. Nú er það ekki svo, heldur stafar þetta af því, að flokkurinn hefur mjög óljósa stefnu í þjóðmálunum yfirleitt og málefnabarátta hans virðist mótast af því einu, að Hermann og Eysteinn geti komizt í stjórn með einhverju móti. Til þess að skilja málefnabaráttu Framsfl., ef það er yfirleitt hægt að nefna baráttu hans því nafni, verður að hafa þetta hugfast. Flm. vantraustsins, núverandi forustumenn Framsfl., liggja undir ámæli hjá flokksmönnum sínum fyrir að hafa stjórnað flokknum illa. Sumir flokksmannanna spyrja, hvers vegna þeir vildu ekki taka þátt í myndun núverandi stjórnar. Hvers vegna vildi Hermann Jónasson ekki taka þátt í framkvæmd þeirra framfaramála, sem nú er verið að framkvæma? Öll stefnumál núverandi ríkisstj. eru þannig, að ekki er sigurstranglegt að berjast gegn þeim, enda finna flokksmennirnir, að Hermanni hefur fatazt stjórnarandstaðan. Hann veit ekki, á hverju hann á að fóta sig. Nú horfir Framsfl. fram á klofning, sem koma mun í dagsljósið, þegar farið verður að stilla upp til kosninganna. Hermann og Eysteinn finna, að flokkurinn er að gliðna, og nú þarf að gera eitthvað stórt til þess að fylkja liðinu og kveða niður óánægjuna, sem fer vaxandi innan flokksins. Í þessu skyni er vantraustið borið fram. Þá flokksmenn, sem efast um, að foringjar flokksins hafi gert rétt í því að beita sér gegn þeim atvinnuframkvæmdum, sem ríkisstj. vinnur að nú, á að sannfæra um, að barátta Hermanns sé heilög og óeigingjörn. Í einni svipan á að bæta fyrir það ráðleysi og fálm, sem einkennt hefur alla baráttu Framsfl. síðan stjórnin var mynduð. — Vegna þess að þessar útvarpsumr. eru liður í tilefni af vantrauststill., sem tveir fyrrv. ráðh. hafa flutt, menn, sem stjórnuðu hér öllu að meira eða minna leyti í 8 ár, þá er ekki óviðeigandi að bera þá stjórnarstefnu, sem þeir fylgdu, saman við stefnu núverandi stjórnar.

Árið 1934 myndaði Hermann Jónasson stjórn með Alþfl. Alþýðan á Íslandi hafði fengið þessum flokkum völdin vegna þess, að hún trúði því, að þeir mundu vinna bug á hinu óþolandi atvinnuleysi og þeirri örbirgð, sem því fylgdi. Það stóð ekki heldur á því, að stjórn Hermanns Jónassonar lofaði ýmsu. Hún ætlaði svei mér að vinna bug á atvinnuleysinu. En það fór á annan veg en ætlað var. Sú aukning á atvinnutækjum þjóðarinnar, sem lofað hafði verið, var aldrei framkvæmd. Sjávarútvegur okkar, sem frá upphafi hefur verið langt á eftir öðrum þjóðum, var fullkomlega vanræktur. Framsóknar- og Alþfl.-stjórnin skildi á engan hátt þýðingu hans. Á valdatímabili Frams.- og Alþfl. minnkaði t. d. togaraflotinn úr 46 skipum árið 1928 í 34 skip árið 1939 og komst niður í 29 skip árið 1944. Fiskibátaflotinn hrörnaði. Nýrra báta var ekki aflað, þó að allir vissu, að meginhlutinn af bátaflota landsins var úreltar smáfleytur lítt nothæfar. Á þessu tímabili voru menn sektaðir fyrir að flytja inn góð skip. Ofan á þetta bættist, að lítið sem ekkert var gert til þess að koma upp fiskvinnslustöðvum, hraðfrystihúsum og niðursuðuverksmiðjum, þrátt fyrir það að markaður okkar fyrir saltfisk færi stöðugt minnkandi.

Á stjórnarárum Framsóknar var ástandið þannig, að þúsundir manna gengu atvinnulausir. Í einu strjálbýlasta og frumstæðasta landi Evrópu var, að því er virtist, fólkið of margt. Hver nýr einstaklingur, sem óx upp og þurfti að fá vinnu, jók á vandræðin. Ríkisstj. Hermanns stóð ráðalaus frammi fyrir þessu. Hún gat engu áorkað og greip til þess úrræðis að reyna að sannfæra fólk um, að svona ættu hlutirnir að vera — atvinnuleysið væri óhjákvæmilegt, við því væri ekkert að gera. En fólk man enn þá þessi ár. Nú er svo komið, að augu þjóðarinnar hafa opnazt fyrir því, að atvinnuleysi er sjálfskaparvíti, sem engin þjóð má sætta sig við. Af allri sóun verðmæta er það að láta fólk, sem vill vinna, ganga iðjulaust hópum saman, sú, sem sízt er fyrirgefanleg. Stjórnarár Framsfl. einkenndust af atvinnuleysi. Þess vegna vill þjóðin ekki slíka stjórn aftur. Núverandi stjórn hefur sett sér það verkefni að fyrirbyggja, að atvinnuleysi komi hér á ný, og hefur hún í því skyni stigið stærri skref í öflun nýrra framleiðslutækja en áður hefur þekkzt í sögu landsins. Það er því næsta hlálegt, að þeir menn, sem sátu í stjórn í 8 ár við vaxandi atvinnuleysi, skuli gera sig að dómurum um atvinnuframkvæmdir núverandi stjórnar. Atvinnutæki þau, sem þjóðin átti á árunum fyrir stríð, voru engan veginn nóg, til þess að allir gætu haft vinnu við arðbæran atvinnurekstur. Það var stríðið, sem gerði það að verkum, að atvinnuleysið hvarf í bili. Ef þjóðin hefði látið sér nægja að taka upp þráðinn í atvinnumálum sínum eftir stríðið, þar sem frá var horfið fyrir stríð, þá var fyrirsjáanlegt, að atvinnuleysið yrði á mjög skömmum tíma eins mikið og verið hafði fyrir stríð. Íslenzkir atvinnuvegir hafa raunar aldrei enn sem komið er komizt í það horf, að þeir gætu tryggt allri þjóðinni atvinnu. En á árunum fyrir stríð var sjávarútvegur okkar vanræktur svo herfilega, að hann var kominn í hina mestu niðurníðslu. Þjóðin hefur lengi þráð, að hafin væri atvinnuleg uppbygging, er tryggði það, að íslenzkt atvinnulíf væri fyllilega sambærilegt við atvinnulíf annarra nágrannaþjóða. Sósfl. benti á nauðsyn atvinnulegrar nýsköpunar þegar frá upphafi, og flutti um það till. á þingi þegar fyrir stríð. Á þeim árum vildu valdhafarnir ekki hlusta á till. sósíalista. En eftir að þjóðin hafði vegna stríðsástandsins lifað það, að allir hefðu atvinnu, þá var ekki lengur hægt að þegja till. sósíalista í hel. Eftir ræðu Einars Olgeirssonar haustið 1944, þar sem hann gerði grein fyrir nýsköpunarstefnu Sósfl., krafðist þjóðin þess beinlínis, að mynduð yrði stjórn, er hæfist handa um nýsköpun í atvinnulífi landsins.

Ég hef áður gert rækilega grein fyrir stefnu ríkisstj. í atvinnumálum, en vil nú rekja að nokkru þær framkvæmdir, sem þegar hefur verið ráðizt í.

Svo sem kunnugt er, hefur ríkisstj. fest kaup á 30 togurum í Englandi, stærri og fullkomnari en þekkzt hafa hér áður, sem munu koma til landsins á næsta ári. Með þessum togurum er togarafloti landsins meira en tvöfaldaður. Þetta er stærsta skref, sem stigið hefur verið í atvinnumálum hér á landi. Það eru vafalaust fá dæmi þess, — og þó að leitað sé meðal annarra þjóða, — að slíkt risaskref hafi verið stigið í atvinnumálum. Stjórnarandstaðan ræðst á þessi togarakaup, telur skipin of dýr og að ekki muni fást menn á þau. Framsfl. telur óhyggilegt að bíða ekki þangað til verð á togurum lækkar. Þeir menn, sem telja atvinnuleysi búhyggindi, geta haldið slíku fram, aðrir ekki. Ég efast ekki um, að ýmsir örðugleikar muni mæta þjóðinni, er hún ræðst í jafnstórstígar framfarir og þessi togarakaup, en ég er sannfærður um, að þjóðin hefur svo mikla trú á sjálfri sér, að hún lætur enga erfiðleika hræða sig. — Nýbyggingarráð hefur auglýst togara þessa, og hafa því borizt umsóknir um alls 43 togara. Þetta sýnir, að það er þörf fyrir enn fleiri togara. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur sótt um. 20 togara, og vil ég segja, að það er sízt of mikið. Bæjarstjórnin mun ætla að selja skipin einstaklingum, en reka þau skip sjálf, sem ekki ganga út. Ég tel sjálfsagt, að Reykjavík fái þessa 20 togara. Togaraeigendur í Hafnarfirði hafa sótt um 5 togara, og Hafnfirðingum er bráð nauðsyn að fá þessi 5 skip. En þá eru aðeins eftir 5 skip, sem ættu þá að skiptast á þá aðra staði, sem sótt hafa um alls 18 skip. Staðir þessir eru Akranes, Ísafjörður, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Akureyri, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar, Keflavík, Stykkishólmur og Eskifjörður. Togaraútgerð hefur lengst af verið arðbærasta útgerð á Íslandi, og það er því mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf þessara staða að koma þar á togaraútgerð. Það er líka með öllu ótækt, að haldið verði áfram á þeirri braut að beina fólksstraumnum eins til Reykjavíkur og verið hefur að undanförnu, en það verður, ef ekki verður komið upp atvinnutækjum úti á landi jafnframt. Af þessum ástæðum hef ég unnið að því að afla tilboða í fleiri togara í Englandi, og nú hefur atvmrn. borizt tilboð í 10 dieseltogara. Með því að festa kaup á þessum skipum er sennilega hægt að uppfylla allar óskir um togara. Það er ekki hvað sízt til þess að tryggja það, að Reykjavík geti fengið alla þá togara, sem hún hefur sótt um, að ég lét afla þessara tilboða. Ýmis þau bæjarfélög og hreppsfélög, sem hyggjast nú að koma á hjá sér togaraútgerð, eru þess ekki megnug af eigin rammleik. Til þess þó að gera þeim kleift að eignast togara, hefur orðið samkomulag um það í ríkisstj. að afla heimildar Alþ. til þess að ábyrgjast þessum bæjar- og hreppsfélögum lán eða lána þeim sem svarar 10% af kostnaðarverði skipanna, auk væntanlegs 75% láns úr stofnlánadeildinni. Þetta er að vísu heldur lítið, og upphaflega lagði ég til, að ríkið léti þeim í té 16% lán, en þetta er þó nokkur úrlausn.

Þá kemur röðin að bátunum. Nú er verið að smíða í Svíþjóð á vegum ríkisstj. 50 báta, sem allir ættu að koma heim á þessu ári. Auk þess hefur ríkisstj. gert samninga um smíði hér innan lands á 35 bátum víðs vegar um landið. Auk þess hafa verið keyptir 15 nýlegir bátar frá Svíþjóð, og verið er að smíða í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi báta á vegum einstaklinga. Samtals eru þetta um 140 bátar, sem búast má við, að verði tilbúnir og komi hingað til lands á næsta ári. Þetta er gífurleg aukning á bátaflota landsmanna, þegar tekið er tillit til stærðar bátanna, því að langmestur hluti af núverandi bátaflota eru smábátar innan við 12 tonn.

Þessi aukning á þilskipaflota landsins nemur 24 þús. tonnum, en það er tvöföldun frá ársbyrjun 1945 að telja. Á þessi nýju skip kemur til með að þurfa hátt á þriðja þúsund manna. Búast má við því, að sum af hinum eldri skipum og bátum muni verða að hætta að nota, enda er það mjög eðlilegt. Það er hart til þess að vita, að gömlum skipum og bátum skuli oft hafa verið haldið út þangað til þau hurfu með allri áhöfn. Líf hvers sjómanns okkar er dýrmætara en mörg skip, og því má ekki koma fyrir, að við missum menn í sjóinn af þeim ástæðum, að þeir séu sendir út á lélegum og gömlum skipum.

Nú er verið að reisa á vegum ríkisins tvær nýjar síldarverksmiðjur, hinar fullkomnustu, sem reistar hafa verið hér á landi og sennilega þó víðar væri leitað. Verksmiðjur þessar eru reistar önnur á Siglufirði með 10 þús. mála afköstum á sólarhring og hin á Skagaströnd, 7500 mála. Lögin um að reisa þessar verksmiðjur voru samþ. á þingsumarið 1942, en er núv. ríkisstj. tók við, hafði ekkert verið gert til þess að hefja byggingu þeirra, þrátt fyrir mjög tilfinnanlegan skort á verksmiðjum. Byggingarframkvæmdir hafa gengið vel, og er full ástæða til þess að vona, að þær geti báðar orðið til á komandi vertíð. Siglufjarðarkaupstaður hefur byggt, með aðstoð ríkisins hvað lánsfé snertir, 10 þús. mála verksmiðju, sem verður til fyrir næstu vertíð.

Með þessum verksmiðjum, sem ég hef nefnt, verða afköst síldarverksmiðjanna í landinu á þessu sumri komin upp í 77 þús. mál, úr 40 þús. málum 1944. Fyrirsjáanlegt er, að nauðsynlegt verður á næstunni að leggja eitthvað niður af hinum eldri verksmiðjum, vegna þess, hve úreltar þær eru. Með þeim verksmiðjum, sem byggðar hafa verið, vænkast mjög hagur útgerðarinnar og sjómanna, því að bæði er það, að ekki ætti í bili að vera ástæða til að óttast verulegar löndunarstöðvanir, og eins hitt, að hinar nýju verksmiðjur eru miklu fullkomnari og ódýrari í rekstri, og getur það hækkað síldarverðið. — Ég tel, að næsta verkefni, hvað snertir byggingu síldarverksmiðja, sé að reisa verksmiðju á Húsavík, en þar er gert ráð fyrir, að reist verði 9000 mála verksmiðja. Húsvíkingar eru nú að byggja hafnargarð, sem ætlað er, að verði fullgerður í sumar, og vænta þeir þess, að þá verði hafizt handa um bygginguna.

Eins og ég tók fram áðan, hefur okkur alltaf skort fiskvinnslustöðvar. Mörg hraðfrystihús hafa risið upp á síðustu árum og eru mörg í byggingu. Svo er komið, að hraðfrysting fisks er að verða stór þáttur í atvinnulífi okkar. En það er galli að hafa svo einhliða verkun. Það þarf að koma upp fiskvinnslustöðvum, sem geta tekið við fiskinum af bátunum, verkað hann og unnið úr honum eins og heppilegast er á hverjum tíma. Í slíkum fiskvinnslustöðvum þarf að vera hægt að hraðfrysta fisk, sjóða niður í dósir og vinna fiskimjöl úr úrganginum. Þá þarf enn fremur að verða mögulegt að taka þar við fiski til söltunar. Reynsla yfirstandandi vertíðar sannar, að bátarnir hafa ekki aðstöðu til að salta sjálfir, án þess að missa róðra, enda verður aldrei hægt að hafa eins praktísk vinnubrögð við að gera að fiskinum og salta, ef hver bátur kúldrast út af fyrir sig í misjafnlega góðu og hentugu húsplássi og með léleg tæki, eins og ef ein fisksöltunarstöð væri í hverri verstöð, sem tæki við fiskinum af bátunum. — Í Reykjavík er fiskimálanefnd að tilhlutun atvmrn. að reisa fiskvinnslustöð, og er þar byggt saman hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðja, er verður með þeim stærstu á landinu. Áætlað er, að það kosti á 4. millj. kr. upp komið. Gert er ráð fyrir, að húsið verði tilbúið fyrir næstu vertíð. Ætlunin er að reka hús þetta til tæknilegrar leiðbeiningar í atvinnuveginum. Víða úti um land eru hafnar eða eru í undirbúningi framkvæmdir til þess að koma upp fullkomnum fiskvinnslustöðvum, og eru það víða samvinnufélög útvegs- og sjómanna, sem standa að þeim framkvæmdum. Það hefur þó mikið frestað framkvæmdum, hve mikill dráttur hefur verið á afgreiðslu lánamálanna í ríkisstj. og á þingi. Það er nauðsynlegt, að þau fiskvinnsluver. sem reist verða, séu rekin með þeim hætti, að þau greiði fiskframleiðendum allt andvirði framleiðslunnar, að frádregnum vinnslukostnaði, vöxtum og eðlilegri fyrningu húsa og tækja stöðvanna. Til þess að það megi verða, er nauðsynlegt, að húsin séu rekin af samvinnufélögum útvegsmanna og sjómanna, er séu opin öllum fiskframleiðendum á staðnum. Þar, sem mikið er um aðkomubáta og jafnvel víðar, er rétt, að ríkið reisi fiskvinnslustöðvar, er reknar verði með líku sniði og síldarverksmiðjur ríkisins. Með því móti væri tryggt, að andvirði fiskafurðanna lendi hjá fiskframleiðendunum.

Ísland er nú þegar orðinn stórframleiðandi síldarlýsis, og er framleiðslan í örum vexti. Það er því með öllu ótækt að þurfa að flytja út þessa dýrmætu vöru óunna, eins og gert hefur verið. Árið 1942 heimilaði þingið ríkisstj. að láta reisa síldarlýsisherzluverksmiðju strax og sýnt þætti, að það svaraði kostnaði. Atvmrn. hefur látið fram fara rannsóknir á þessum málum og fengið tilboð í vélar og áhöld lýsisherzlustöðvar, með þeim árangri, að sýnt er, að nú er tími til þess kominn að reisa slíka verksmiðju. Á grundvelli þessara athugana verður á komandi sumri hafizt handa um byggingu verksmiðju, er hert geti 15 þús. tonn af síldarlýsi á ári. Að því ber að stefna á næstu árum, að allt síldarlýsi okkar verði hert áður en það er flutt út. Það mun tvöfalda útflutningsverðmæti síldarlýsisins, samkv. reynslunni fyrir stríð, og gæti auk þess orðið grundvöllur frekari iðnaðar í landinu, er byggðist á hertri feiti.

Þá vinnur ríkisstj. að því að auka sem mest síldarsöltun og hefur í því skyni fest kaup á 130 þús. síldartunnum í Noregi og Finnlandi. Framtíðarsíldarsöltun á Íslandi byggist að miklu leyti á því, að við getum sjálfir framleitt þær síldartunnur, sem við þurfum að nota. Í því skyni hefur atvinnumálaráðuneytið þegar hafið tunnusmíði í tunnuverksmiðjunni á Siglufirði og hefur nú aflað sér heimildar Alþ. til þess að reisa fullkomnar tunnuverksmiðjur, aðra á Siglufirði, en hina á Akureyri. Mál þetta er nú í rannsókn, en ákveðið er að hefja framkvæmdir á sumri komandi með það fyrir augum, að hægt verði að smíða tunnur á báðum stöðunum þegar á næsta vetri. Áætluð afköst verksmiðjanna eiga að vera allt að 75 þús. tunnur hvorrar. Rétt er að stefna að því að koma upp tunnuverksmiðju þar, sem söltun er nægilega mikil til að verksmiðja geti borið sig.

Þá verður hafizt handa um byggingu fyrstu stóru niðursuðuverksmiðjunnar í landinu, samkv. heimild í lögum frá yfirstandandi Alþ., nú á þessu sumri. Verksmiðja þessi verður jafnframt niðurlagningarverksmiðja fyrir kryddsíld. Keyptar verða til verksmiðjunnar hinar fullkomnustu vélar frá Ameríku. Verksmiðja þessi er fyrirhuguð sem fyrirmyndar verksmiðja til þess að vísa öðrum veginn í þessu efni, og því varð Siglufjörður fyrir valinu, er henni var ákveðinn staður. — Tunnuverksmiðjurnar og niðurlagningarverksmiðjur hafa óhemju þýðingu fyrir síldarsöltunina. Það er bráðnauðsynlegt að matbúa sem mest af norðanlandssíldinni okkar. Norðanlandssíldin er ágætis matur, sem hefur alls staðar hlotið viðurkenningu og er eftirsótt vara hvar sem er. Auk þess verður útflutningsverðmæti síldar, sem flutt er út niðursoðin eða niðurlögð í dósir, margfalt meira en ef hún er sett í bræðslu. Slíkar verksmiðjur munu líka veita mjög mikla atvinnu yfir vertíðarmánuðina, en sem kunnugt er, vantar mjög tilfinnanlega atvinnu á þeim tíma í bæjum og þorpum norðanlands. Það er ætlunin, að síldarniðursuðu- og niðurlagningarverksmiðjan verði upphaf að stórfelldum iðnaði á þessu sviði hér á landi, sem hundruð manna geti haft atvinnu við og færi milljónir gjaldeyris í þjóðarbúið.

Sú aukning á fiskiflotanum, sem ég hef hér lýst, þýðir tvöföldun á útflutningi þjóðarinnar á mjög skömmum .tíma. Ég tel enga ástæðu til að óttast, að ekki verði hægt að fá markaði fyrir hina auknu framleiðslu, en til þess þarf að starfa ötullega að markaðsöflun á meginlandi Evrópu til viðbótar þeim markaði, sem við nú höfum í Englandi. Það er full ástæða til að vænta þess, að sú Evrópa, sem komin er út úr hinum ægilega hildarleik, muni ekki þurfa að falla aftur í fen kreppu og atvinnuleysis og geti því orðið stöðugur markaður fyrir sjávarafurðir þjóðarinnar. Það er þjóðinni afskaplega mikilvægt að komast í viðskiptasambönd við ríkin, sem hafa komið á hjá sér áætlunarbúskap í atvinnuháttum og eru þannig vaxin yfir kreppur og atvinnuleysi. Eins og kunnugt er, munu öll lönd Evrópu að meira eða minna leyti fara inn á slíkar brautir, og viðskipti við þau geta því gert hið íslenzka þjóðfélag óháð kreppum, ef rétt er á málum þess haldið.

Það var spáð hruni og öngþveiti, verðlækkun á útflutningsafurðum og atvinnuleysi í landi, þegar ríkisstj. tók til starfa, — og ég efast ekki um, að núverandi stjórnarandstæðingum hefði tekizt að leiða yfir land og þjóð það hallæri, sem þeir alltaf hafa spáð, ef þeir hefðu haft völdin. En þjóðin hefur undir forustu ríkisstj. breytt hallæri hrakspármannanna í góðæri með þeim stórfelldu framkvæmdum, sem hið opinbera og einstaklingar samtaka hafa lagt í af stórhug og djörfung, í trúnni á auðlindir lands og þrek þjóðarinnar. Í krafti þessa er þegar búið að tryggja tvöföldun íslenzka fiskiskipaflotans á þrem árum, ferföldun íslenzka kaupskipaflotans á fjórum árum, tvöföldun afkastanna hjá síldarverksmiðjunum á tveim árum og aðrar álíka stórkostlegar framfarir á ýmsum öðrum sviðum. Þetta þýðir tvöföldun útflutnings okkar á þrem árum — og getur hver maður gert sér í hugarlund, hvað það þýðir fyrir lífsafkomu þjóðarinnar. Í stað atvinnuleysisins, sem spáð var, hefur ríkisstjórnin nú þegar gert þessar stórfelldu ráðstafanir til þess að tryggja sem arðbærasta atvinnu handa öllum. Sökum þess, hve samtaka þjóð og stjórn eru um að framkvæma stefnu þá, sem ríkisstj. hét að fylgja, er hún tók við völdum, hefur vágesti atvinnuleysisins verið bægt frá dyrum Íslendinga. Og ríkisstj. treystir því, að svo verði áfram, ef þjóðin fylkir sér um stefnu hennar jafnvel og hingað til. Það er fastur ásetningur okkar, að þeir hörmungartímar, að þjóðin sé í vandræðum um, hvað gera eigi við vinnuaflið, dýrmætasta kraft þjóðarinnar, komi aldrei aftur.

Eitt merkasta mál, sem afgreitt hefur verið á yfirstandandi þingi, er lánamál útvegsins. Það mál hafðist fram þrátt fyrir þá andstöðu, sem Landsbankinn hélt uppi í fyrstu, en þó með þeirri breyt., að hann fengi sjálfur að afgreiða lánin. Afgreiðsla þessa máls er mikill sigur fyrir íslenzkan sjávarútveg, enda er þetta í fyrsta skipti, sem Alþ. hefur sjálft tekið ákvörðun um aðgerðir í peningamálum þjóðarinnar. Meiri hluti Alþ. hefur sýnt Landsbankastjórninni það traust að fela henni að annast framkvæmd lánamálanna samkv. ósk hennar, og þar með hefur þjóðbankinn tekið á sig skuldbindingar um að greiða lánin reiðulega af hendi og sjá um, að ekki standi á fé til þess hluta lánanna, sem fara eiga til framkvæmda hér innanlands, hinna svo kölluðu B-lána. Það er von mín, að þjóðbankanum farist þetta mál vel úr hendi.

Það hefur lengi bakað Íslendingum erfiðleika, hve einhæft atvinnulíf landsins hefur verið. Þjóðinni er því hin mesta nauðsyn á að reyna að koma sér upp lífvænlegum iðnaði, iðnaði, sem ekki lifir í skjóli innflutnings- og gjaldeyrishafta eða verndartolla, heldur heilbrigðum atvinnurekstri, sem getur verið samkeppnisfær við erlenda framleiðslu. Til þess að það geti orðið, þarf að byrja á að rannsaka landið betur og athuga, hvort ekki sé hægt að vinna hér eitthvað úr hráefnum, sem landið hefur upp á að bjóða. Í því efni hafa verið ráðnir vísindamenn til þess að fara um landið í rannsóknarskyni. Á þessu stigi málsins er ekki hægt að slá neinu föstu um árangur. Þó er það eitt, sem ég vildi minnast á, og það er sementsframleiðsla. Allt virðist benda til þess, að unnt verði í náinni framtíð að hefja sementsframleiðslu hér. Ársnotkun þjóðarinnar, sem er 50 þús. tonn er það mikil, að framleiðsla getur borið sig. Auk þess hafa þær rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið, þegar gefið góðar vonir um, að hér finnist þau hráefni, sem þarf til þessarar framleiðslu. Sá staður, sem sérstaklega er hafður í huga í þessu efni, er kalksandssvæðið á Vestfjörðum. Ef sementsverksmiðja yrði reist hér á landi og rekin, mundi það sennilega tryggja um 300 manns fasta atvinnu.

Framsóknarmenn hafa gert mikið að því að ráðast á ríkisstj. fyrir ástandið í verzlunarmálunum. Það er rétt, að heildsölunum hefur haldizt það uppi á stríðsárunum að raka til sín óheyrilegum gróða. Gróðamöguleikarnir voru langmestir þegar vöruskorturinn var mestur, og hefur dregið nokkuð úr þessum gróða vegna aukins vörumagns og lækkunar, sem gerð hefur verið nýlega á álagningarprósentu þeirra. Þrátt fyrir það er óhæfa, hvernig heildsalarnir sitja á rétti annarra stétta og geta fleytt rjómann af arði annarra atvinnugreina, einkum sjávarútvegsins. Þjóðin hefur um mörg ár búið við það ástand, að verzlunarstéttin, innflytjendurnir, væri sú stétt þjóðfélagsins, sem öruggust væri um tekjur sínar. Þjóðin hefur beinlínis tryggt innflytjendunum, heildsölunum, milljóna gróða á kostnað útgerðarmanna, sjómanna og neytenda almennt, með því verzlunarfyrirkomulagi,sem komið hefur verið á. Upphaf þessa ófremdarástands má rekja til aðgerðar Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórnarinnar í gjaldeyrismálum. Þá var komið á ströngu eftirliti með gjaldeyri og reynt að skera niður öll innkaup, svo að í landinu varð tilfinnanleg vöruþurrð, sem tryggði það, að allar vörur, sem fluttar voru til landsins, seldust strax upp. Svo var komið upp stóru ríkisbákni til að úthluta gjaldeyrinum. Flókið kerfi gjaldeyriskvóta var skapað í bróðurlegu samstarfi við heildsalana og Samband íslenzkra samvinnufélaga. SÍS hætti samkeppni við heildsalana, sætti sig við fastan hluta af gjaldeyrinum. Enginn gat fengizt við verzlun eða iðnað, sem byggðist á innflutningi hráefna, nema stjórnarvöldin úthlutuðu honum gjaldeyri. En hver sá, sem fann náð hjá valdhöfunum og fékk gjaldeyri, var öruggur með stórgróða. Þannig varð innflutningsverzlunin og smáiðnaður úr erlendu hráefni fyrir innlendan markað öruggustu atvinnuvegir þjóðarinnar. Fjármunir einstaklinga streymdu í þessa atvinnuvegi. Þar var gróðavænlegast að festa fé sitt. Og bankarnir fundu líka, að öruggast var að lána peninga til heildsalanna til að kaupa út á gjaldeyrisleyfin. Það var ólíkt öruggara en að vera að lána útgerðarmönnum til þess að skapa gjaldeyri, sem gátu tapað aleigu sinni á einni vertíð. Afleiðingar þessa urðu þær, að alltaf dróst sjávarútvegurinn saman og þar með möguleiki þjóðfélagsins til að skapa sér gjaldeyri, en innflutningsverzlunin dafnaði að sama skapi, og brátt var svo komið, að innflutningsverzlunarstéttin var orðin óhæfilega fjölmenn og dró stöðugt til sín meira og meira af fjármunum þjóðfélagsins frá öðrum þýðingarmeiri atvinnuvegum, og þá fyrst og fremst sjávarútveginum. Það var þessi stefna Framsfl. í atvinnumálum, sem Eysteinn Jónsson markaði, sem var ein orsök til þess, að samstjórn Framsfl. og Alþfl. megnaði ekki einu sinni að hindra aukningu atvinnuleysisins, hvað þá að afnema það, á stjórnarárum sínum. Það verzlunarástand, sem Eysteinn Jónsson, hv. 2. þm. S.-M., skapaði, ríkir að mestu leyti enn þá. Heildsölunum líkaði skipulag Eysteins vel. Það tryggði þeim gróða, á hverju sem valt í sjávarútveginum, og þeir vilja ekki sleppa því, sem þeir hafa fengið. Ástæðan fyrir því, að ekki hefur verið breytt um verulega í verzlunarmálunum, er sú, að heildsalarnir, sem eru mjög mikils ráðandi í Sjálfstfl., heimta, að þeir fái að halda áfram þeim hlunnindum, sem þeir öðluðust undir stjórn Eysteins Jónssonar. Það er hins vegar bráð nauðsyn á að breyta um verzlunarhætti og draga úr hinum óeðlilega gróða og útþenslu verzlunarinnar. Öruggasta ráðið til þess að kippa þessu í lag er að setja landsverzlun á innfluttar vörur, eins og sósíalistar hafa bent á.

Ég vil að lokum ræða mál, sem mjög hefur borið á góma að undanförnu hér á landi og það ekki að ástæðulausu, en það er hið svokallaða herstöðvamál. Nú hefur hæstv. forsrh. gefið skýrslu um þetta mál. Við ráðherrar Sósfl. vildum gefa skýrslu þessa fyrir löngu síðan, en um það gat ekki orðið samkomulag í ríkisstj., eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. Það er mín skoðun, að það sé miður farið, að ekki skuli hafa verið birt skýrsla um málið fyrir löngu. En það er annað mál, sem ekki verður greint frá þessu herstöðvamáli, en það er dvöl Bandaríkjahersins hér á landi. Nú er bráðum ár frá því, að vopnahlé komst á í Evrópu, og því eru nú allar forsendur fyrir áframhaldandi dvöl hins bandaríska hers hér á landi brostnar. Þegar stjórn Bandaríkjanna flytur ekki af sjálfsdáðum burt her sinn héðan og það þótt enska stjórnin sýni þjóðinni þann velvilja að halda burt með sinn her og afhenda flugvöllinn í Reykjavík, þá telur Sósfl., að íslenzku stjórninni beri að krefjast þess af stjórn Bandaríkjanna, að herlið þeirra hverfi af landi burt þegar. Samkvæmt þessu fluttum við ráðh. Sósfl. í samræmi við samþykkt miðstjórnar hans till. um það í ríkisstj. þann 15. apríl s. l., að utanrrh. yrði falið að bera fram þá kröfu við stjórn Bandaríkjanna, að hún flytji af Íslandi allt herlið sitt, og sú till. er nú til meðferðar í ríkisstj.

Svo sem skýrsla forsrh. ber með sér, sem raunar var á allra vitorði áður, fór stjórn Bandaríkjanna fram á það með bréfi 1. okt. s. l. að fá á leigu til langs tíma flugvöllinn í Keflavík, lendingarstað fyrir sjóflugvélar við Reykjavík og flotastöð í Hvalfirði. Þessi beiðni varð ekki sízt vonbrigði fyrir ýmsa vini Bandaríkjanna hér á landi, sem töldu sig mega annars vænta en svona tilmæla. Sósfl. var frá upphafi þeirrar skoðunar, að það bæri að svara málaleitun Bandaríkjanna afdráttarlaust og tafarlaust neitandi. Sósfl. er algerlega andvígur því, að nokkru erlendu ríki verði látið í té herstöðvar hér á landi, hvort sem beðið er um þær af einstökum ríkjum eða ríkjasamtökum. Það er skoðun Sósfl., að ef íslenzka þjóðin afhendi nú erlendu ríki herstöðvar á Íslandi, þá sé hún að afsala sér sjálfstæði sínu. Hún er þá ekki einráð í landi sínu og verður ekki af öðrum þjóðum skoðuð sjálfráð gerða sinna.

Svo sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., hefur íslenzka ríkisstj. neitað beiðni Bandaríkjanna, en hins vegar tjáð sig fúsa til að ræða við hana um hugsanlegar skyldur Íslendinga í sambandi við alþjóðaöryggi. Að svo komnu máli hafa Bandaríkin eingöngu farið fram á leigu á nefndum herstöðvum til langs tíma og hefur þeirri beiðni, sem áður er sagt, verið afdráttarlaust neitað. Hins vegar hafa Bandaríkin ekki lýst yfir því, að þau muni falla frá beiðni sinni.

Hv. þm. Str. og raunar Framsfl. hefur reynt að gera veður út af því, að hæstv. forsrh. dró svo lengi að birta opinbera skýrslu um gang þessa máls. Þennan drátt hefur hv. þm. og Framsfl. yfirleitt notað sem átyllu til þess að taka ekki afstöðu til málsins. Ég vil ekki mæla þeim drætti bót, sem orðið hefur á birtingu opinberrar skýrslu um málið, eins og ég hef áður fram tekið. En ég vil benda á það, að Hermanni Jónassyni og Framsfl. öllum voru kunn öll atriði í sambandi við þetta mál. Framsfl. gat þess vegna myndað sér skoðun í málinu. En hann kaus heldur að grípa þessa átyllu, að ekkert var birt opinberlega um málið, til þess að taka ekki afstöðu. Afstaða Hermanns Jónassonar til þessa máls er sú sama og til allra annarra mála. Hann var tilbúinn að taka þá afstöðu til þessa máls, sem var líklegri til að fleyta honum áfram í valdastreitu hans. Þetta er afstaða Framsfl. líka. Þessi afstaða í jafnalvarlegu og örlagaríku máli fyrir íslenzku þjóðina er jafnvel fyrirlitlegri en að snúast opinberlega gegn þjóðinni. Það er kannske ekki undrunarefni, þó að fyrirfinnist menn haldnir jafnsjúklegri valdagræðgi og fram hefur komið hjá Hermanni Jónassyni, hv. þm. Str., í þessu máli, en að geta dregið heilan flokk með sér út í slíkt foræði, eins og fram kemur í ályktun miðstjórnar Framsfl., það er furðulegra. — En nú er búið að birta opinberlega tilkynningu um þetta mál og nú getur enginn komið sér undan að taka afstöðu til þessa máls.

Sósfl. hefur einn allra flokka tekið afdráttarlausa afstöðu gegn öllu lands- og herstöðvaafsali til annarra þjóða, hvort sem er til langs eða skamms tíma. Nú mun þjóðin spyrja þá flokka og einstaklinga, sem ekki hafa tekið afstöðu til þessa lífsvelferðarmáls hennar: Ertu með mér eða á móti mér, þriðji kosturinn er ekki fyrir hendi? — Og hún mun dæma þá eftir því. Við í hönd farandi alþingiskosningar mun þjóðin krefjast þess, að hver frambjóðandi taki afstöðu til þessa máls, og hún hlýtur að hafna þeim frambjóðanda, sem ekki tekur afdráttarlaust afstöðu með íslenzku þjóðinni og hafnar öllum beiðnum eða kröfum erlendra ríkja um herstöðvar á Íslandi eða önnur réttindi, sem brjóta í bág við sjálfstæði þjóðarinnar.