25.10.1945
Neðri deild: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (4428)

40. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Um leið og ég fylgi þessu frv. úr hlaði, tel ég rétt að gera stuttlega grein fyrir sögu þessa máls.

Á aðalbúnaðarþingi, sem haldið var síðari hluta vetrar 1943, kom mjög til umr. skipulag á framleiðslu landbúnaðar og afurðasölu. Eftir að búnaðarþingið hafði rætt málið allýtarlega, var tekin ákvörðun um að skipa mþn. til að athuga þetta mál og ýmis önnur, sem biðu úrlausnar, sem búnaðarþing taldi, að eðlilegast væri, að yrðu athuguð í mþn.

Mþn. samdi svo frv., sem var lagt fyrir búnaðarþing 1945. Búnaðarþingið gerði á því nokkrar breyt. og ákvað síðan að senda það öllum búnaðarsamböndum landsins til umsagnar. Frv. var því næst tekið fyrir á aðalfundum búnaðarsambandanna og rætt þar, og mörg þeirra skipuðu auk þess sérstaklega n., til að athuga málið sem gaumgæfilegast. Frá búnaðarsamböndunum komu svo till. og álitsgerðir, sem voru því næst lagðar fyrir aukabúnaðarþing, sem haldið var síðasta sumar. 1945. Það aukaþing tók allt málið til nýrrar athugunar, sérstaklega þær till., sem komið höfðu frá búnaðarsamböndunum um land allt, og gekk þannig frá þessu máli.

Nú þegar málið er flutt af okkur flm., er það svo að segja alveg samhljóða eins og búnaðarþingið gekk frá því nú á síðasta sumri, þó að því viðbættu, að eftir að stéttarsamband bænda var formlega stofnað í september s. l., þá kom að nokkru leyti viðhorf, sem búnaðarþing að vísu gerði ráð fyrir, en taldi sér ekki fært að miða við algerlega, og þess vegna töldum við eðlilegast að vera þar í samráði við stjórn stéttarsambands bænda og breyta nokkrum atriðum í samræmi við þá skipun, sem orðin var með hinni formlegu skipun stéttarsambandsins. Að öðru leyti er frv. óbreytt eins og búnaðarþing gekk frá því. Aðalbreytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir frá eldra skipulagi þessara mála, eru fyrst og fremst það, að með frv. er lagt til, að bændur og bændastétt fái sjálf óskorað vald yfir sínum málum, bæði verðlagsákvörðunum og sölumeðferð landbúnaðarafurðanna. Og samkv. þessu frv. er lagt til, að stofnað verði framleiðsluráð, þannig skipað, að Stéttarsamband bænda nefni í það fimm menn, en félög bænda skuli tilnefna fjóra menn í ráðið. Framleiðsluráð ákveður síðan verðlag á landbúnaðarvörum á innlendum markaði og um verðmiðlun á vörunum, þ. e. a. s. aðra verðmiðlun en þá, sem fer fram innan mjólkurverðlagssvæðanna, en það er ætlazt til, að sú verðmiðlun sé, eins og verið hefur, algerlega í höndum þeirra stjórna, sem með það hafa farið. — Önnur breyt., sem frv. gerir ráð fyrir frá eldra skipulagi, er á þá leið, að það fær framleiðsluráði einnig vald yfir öllum framleiðsluvörum landbúnaðarins, í stað þess, að áður var þetta vald í höndum margra nefnda, sem þá höfðu lítið eða ekkert samband sín á milli. Hefur þess vegna ávallt verið nokkur hætta á því, að í starfi þeirra gætti ekki þess samræmis sem skyldi, og var sá möguleiki þá fyrir hendi, að af því gætu hlotizt nokkur óhöpp. Og þetta skipulag, sem verið hefur, hefur verið á þann veg einnig, að þrátt fyrir þessar mörgu nefndir, sem um verðlagsmál landbúnaðarins hafa fjallað, hefur þó verið nokkur hluti landbúnaðarframleiðslunnar, sem þeim hefur ekki verið ætlað að ná til. Þannig má segja, að sú mjólkurframleiðsla, sem ekki fellur undir mjólkursamlög, hafi verið algerlega utan við allt skipulag. Enn fremur hefur stórgripakjöt hvers konar ekki fallið undir þetta skipulag, heldur verið algerlega utan við það. Eins og þetta hefur verið, getur skipulagsleysið í þessum efnum hæglega valdið tjóni og glundroða í framleiðslu- og verðlagsmálum landbúnaðarins.

Enn fremur má benda á, að það er auðsætt. að ef hafa á einhver áhrif á það — sem margir telja nauðsynlegt — að beina landbúnaðarframleiðslunni í einstökum landshlutum að sérstökum viðfangsefnum öðrum fremur, þá er einasta leiðin til þess að koma slíku í framkvæmd, að til sé sameiginleg yfirstjórn þessara mála, sem geti haft áhrif í þessa átt, yfirstjórn, sem hafi þá yfirsýn, sem til þessa þarf, og gæti þá líka haft íhlutun um þetta.

Þá er enn það nýmæli í þessu frv., að lögboðin er verðmiðlun á mjólk milli sölusvæða. Nú er það þannig, að það er verðjöfnun innan sölusvæðanna, sem yfirstjórnir þeirra mála, sem bændur sjálfir hafa þar til valið, fara með. Og eins og ég hef tekið fram, gerir frv. ráð fyrir, að það fyrirkomulag haldist, en jafnframt verði lagt á ofurlítið verðjöfnunargjald til þess að jafna á milli bændanna. Þetta er gert með það fyrir augum, að það geti orðið til þess, að fram geti komið verkaskipting eftir því, sem hagkvæmt þykir, í framleiðslu landbúnaðarvaranna, — eins og reyndar hefur að nokkru verið, — þannig að sum bú leggi t. d. meiri stund á að framleiða smjör, skyr og osta, en önnur hafi aðallega neyzlumjólkurframleiðslu. Og þar sem því er nú þannig háttað, að framleiðsla neyzlumjólkur hefur yfirleitt gefið betri útkomu, þá er það hugsað þannig, að þeir, sem neyzlumjólkurframleiðslu stunda, leggi fram nokkuð af mörkum á þessu sviði til þess að styðja þá framleiðslu, sem ekki situr við þessi betri skilyrði. Þetta teljum við sanngirnismál, og mundi það verða til þess að jafna nokkuð aðstöðumun búanna og þá einnig bændanna.

Önnur nýmæli þessa frv. eru öll, getur maður sagt, afleiðing af þessum aðalþáttum, sem ég hef nú drepið nokkuð á. Frv. byggir, eins og eldri löggjöf, á þeirri meginreglu, að framleiðendurnir fái allir sama verð fyrir sams konar vöru á sama sölustað. Og hvað kjöt snertir er komin sú regla á, að sama verð er greitt fyrir sams konar kjöt, hvar sem það er framleitt á landinu. En hitt getur náttúrlega komið til álita, — og hafa um það verið uppi talsverðar raddir, og ég get getið þess, að mþn. gerir till. um það, — að höfð verði meiri íhlutun en gert er um framleiðslu bænda, og þá sérstaklega gagnvart kjötframleiðslu, þannig að þau héruð, sem bezta hafa aðstöðu til kjötframleiðslu, örvuðust frekar til hennar, en hin héruðin, sem litla eða lélega aðstöðu hafa til kjötframleiðslu, en góða aðstöðu til mjólkurframleiðslu, yrðu frekar örvuð til mjólkurframleiðslu. En það varð nú að fullu samkomulagi á búnaðarþingi að ganga ekki lengra í þessa átt en hér er gert í þessu frv. Og á það er líka hér bent í grg. frv., að með strangara mati má sennilega koma nokkru til leiðar í þessu efni.

Þótt stórgripakjöt sé hér tekið upp í þetta skipulag, þá er ekki gert ráð fyrir verðjöfnun á því. Búnaðarþing og bændur töldu yfirleitt ekki ástæðu til þess.

Að því er mjólkursölu snertir, þá er aðstaðan til hennar svo ólík víða um land, og ýmislegt er enn óráðið, er það atriði snertir, svo að búnaðarþing taldi ekki ástæðu til þess að upphefja þá skipun, sem gilt hefur í mjólkursölumálunum. En gera má ráð fyrir, að á næstu árum verði hér mikil aukning á mjólkurframleiðslu og að þá geti vel svo farið, að eitthvað þurfi að taka tillit til þess í þessu efni, þegar fram í sækir. En það yrði þá hlutverk framleiðsluráðs að gera tillögur um þær framleiðslubreyt., sem þurfa þætti með breyttum viðhorfum. En með því skipulagi, sem hér er upp tekið, er stigið spor í þá átt, að hægt sé að hafa áhrif á framleiðsluaukningu á sérstökum vörutegundum og þá sérstaklega framleiðslu mjólkurvara á einstökum framleiðslusvæðum utan mjólkurverðlagssvæðanna.

Ég hygg, þegar litið er á þetta mál, að leitun muni vera á frv., sem hafi fengið jafnrækilegan undirbúning og athugun og þetta frv. hefur fengið. Það er samið af mþn., síðan tekið til meðferðar af tveimur búnaðarþingum og öllum búnaðarsamböndum landsins, og nefndir bænda, sem samböndin hafa skipað, hafa fjallað um þetta mál. Í frv. koma þess vegna fram óskir alls þorra bænda um skipun þessara mála. Því að baki þessu frv., eins og það nú er, hygg ég að standi nokkurn veginn óskipt fylgi bændastéttarinnar, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Með frv. krefst bændastéttin þess sjálfsagða réttar að fá full umráð yfir vörum sínum og að ráða yfir verðlagi á þeim. En bændur fara ekki heldur fram á að fá eins einasta eyris framlag úr ríkissjóði til þessarar starfsemi.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar að sinni. Óska ég, að málinu verði, að umr. lokinni, vísað til 2. umr. og hv. landbn.