31.10.1945
Neðri deild: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (4554)

54. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Frv. það, er hér liggur fyrir, er flutt af heilbr.-og félmn. eftir beiðni menntmn. Einstakir nm. hafa þó, óbundnar hendur. Frv. þetta er fyrst samið af stjórnskipaðri n. og var hér lagt fyrir sem stjórnarfrv. Var það lagt fyrir Alþ. 1943. en var vísað til allshn., sem athugaði það mjög grandgæfilega og flutti við það margar brtt., en frv. dagaði svo uppi á því þingi. Á haustþinginu 1943 tók félmn. málið upp, en áður en það var tekið til umr. í d. hafði n. rætt málið við sakadómara og barnaverndarn., barnaverndarráð og ýmsa aðra aðila, og var málið tekið fyrir á þeim grundvelli, en frv. dagaði uppi hér í deildinni. Síðasta Alþ. tók málið upp á ný, og þá fór það í gegnum þessa hv. d. með smávegis breytingum, en var vísað frá í Ed. með rökst. dagskrá, og var ríkisstj. með henni falið að undirbúa málið frekar og þá í samráði við fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum.

Í grg. segir, að menntmrn. hafi sent frv. í marz s. l. til mþn. í skólamálum, barnaverndarnefndar Reykjavíkur og fræðslumálastjóra til umsagnar, en frá þeim hafi ekki borizt nein umsögn, og lítur menntmrh. svo á, að fyrrgreindir aðilar geti sætt sig við frv.

Ég ætla ekki að ræða frv. hér efnislega, enda hefur það verið rætt þrisvar sinnum áður hér í d., og einnig fylgir frv. ýtarleg grg. Ég vil þó aðeins geta þess, að hér er um aðkallandi nauðsynjamál að ræða, og kemur frv. þetta, ef það verður að l., í stað úreltra laga. — Ég legg til fyrir hönd heilbr.- og félmn., að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.