01.11.1945
Neðri deild: 20. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (4574)

58. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. var undirbúið og samið, áður en vitað var um allsherjarhafnarlög fyrir landið. Með frv. er aðeins stefnt að því að endurnýja l. fyrir Vestmannaeyjar frá 1913, en á tímabilinu síðan hafa verið sett viðaukalög, og þótti því tími til kominn að endursemja l. Annars er frv. líkt og önnur slík frv., nema hvað ég vil vekja athygli á því, að ósanngjarnt verður að teljast, að Vestmannaeyjar, sökum aðstöðu, búi lengur við hluta framlags úr ríkissjóði, eins og þær hafnir, er bezta aðstöðu hafa, og verði í þess stað 2/5 á móti 3/5.

Mér þykir óþarft að ræða málið öllu frekar, en vísa til grg., þar sem ég hef tekið fram helztu rök fyrir þessu, m. a. hina miklu þýðingu hafnarinnar fyrir ísfiskútflutning þjóðarinnar. Ég tel svo tilhlýðilegt, að frv. verði vísað til sjútvn., sem einnig fjallar um allsherjarfrv., og verði frv. þá sameinað því. — Ég orðlengi þetta þá ekki frekar, en óska, að hæstv. forseti beri undir atkv. að vísa frv. til sjútvn.