30.11.1945
Efri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (4913)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Eins og áður hef ég nú sýnt lit á því að vilja fylgja þessu frv., enda hef ég skrifað undir álit menntmn. fyrirvaralaust, og táknar það, að ég álít, að réttmætt sé að lögfesta frv. að öllu leyti eins og það er. En það, sem veldur því, að ég vildi segja nokkur orð, er það, að ég álít réttmætt að bæta inn í frv. aðeins einu atriði, án þess að raska á nokkurn hátt því, sem stendur í frv. Þetta, sem ég tel réttmætt að fella inn í frv. og hefur hvatt mig til þess að gera það, er áskorun frá réttum hlutaðeiganda. Það er, að einum stað sé bætt við, Hveragerði í Ölfusi, og leyfi ég mér því að bera fram skriflega brtt. um, að það sé gert. Þarna í Hveragerði hefur starfað húsmæðraskóli um nokkur síðustu ár og starfar enn, sem er stofnaður, reistur og rekinn af einkar duglegum ábúanda, sem hefur sýnt framúrskarandi fórnfýsi. Forstöðukona þessa skóla, sem heitir Árný Filippusdóttir, hefur leitað áður til þingsins um styrk, og hefur það orðið við þeim tilmælum eins vel og það hefur getað. En sá stuðningur hefur hvergi nærri hrokkið til, og henni þykir hart að vera tekin út úr kerfinu og þurfa alltaf undir högg að sækja. Mér finnst, að hún hafi þar við svo mikla sanngirni að styðjast, að ekki sé gott að mæla því á móti. Þetta er mikil bygging og dýr, sem er til orðin vegna mikils dugnaðar forstöðukonunnar, og fá færri þar inntöku á hverju hausti en vildu þangað komast, en skólinn tekur um 30 nemendur með þeirri stækkun, sem þar hefur átt sér stað. Og ég veit, að margir kynnu því illa, sem hafa reynt það, að þar er um góða húsmæðrafræðslu að ræða, ef skólinn yrði settur hjá.

Ég get að svo komnu látið máli mínu lokið og vænti þess, að hv. d. geti fallizt á að fella Hveragerðisskólann inn í kerfið.