11.12.1945
Efri deild: 47. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (4931)

24. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég játa, að þetta málefni er að því leyti dálítið hornskakkt við, á hæstv. Alþ., þar sem þetta frv. er hér í hv. Ed., en annað frv. um sama efni er í uppsiglingu í hinni deildinni. Þetta getur valdið óþægindum við afgreiðslu þessa málefnis. En ég sé ekki ástæðu til annars en að lofa frv. þessu ásamt brtt. við það að fara sinn veg við þessa umr. hér og láta kylfu ráða kasti við úrslitin. Það hefur nú verið fyrr á ferð, eins og vitað er, sams konar frv., sem var afgr. frá þessari hv. d. í fyrra og dagaði svo uppi í hv. Nd.

Ég get vel fallizt á þau rök, sem fram komu hjá hv. 7 landsk. þm., að þar sem hann veit, hvað því heildarfrv. líður, sem er í Nd., þá vill hann gefa því frv. gaum. Og ég er sízt að lá honum það. En það mál getur komið til sameiginlegrar athugunar beggja d., þó að það liggi fyrir aðeins annarri þd.

Ég held fast við brtt. mína um Árnýju Filippusdóttur, að njóta þess réttar, sem í fyrri lið. brtt. getur. Og ég álít, að þótt svo færi, að 2. liður brtt., sem ég greiði atkv., yrði samt sem áður felldur, þá yrði málið hálft í hvoru í lausu lofti. Því að hvað kemur þá í staðinn?

Ég óska, að hv. þdm. samþ. fyrri lið brtt. Og ég fyrir mitt leyti greiði einnig atkv. með seinni liðnum, með þeirri skilgreiningu, sem ég lýsti, og með þeim hug, að ég álít, að húsmæðrafræðslan í sveitum sé svo mikilsverður þáttur í þjóðlífinu, að til þess að hún geti notið sín og náð tilgangi sínum, þurfi að koma þannig fótum undir hana, að hún fari ekki á vonarvöl.