27.02.1946
Sameinað þing: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (5251)

173. mál, rafveita Norðurlands

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Á þskj. 448 eigum við hv. þm. Str. viðaukatill. við þá meginþáltill., sem hér er til umr.

Ég vil strax í upphafi taka það fram, að ég vil, að þessi þáltill., fylgi megintill. til n., sem athugi þessar till. og leggi úrskurð sinn á þær, og vænti ég þess, að sú n., sem verður sennilega fjvn., taki till. okkar til velviljaðrar athugunar og ályktunar.

Það eru aðeins örfá atriði út af þessari till., sem ég vil minnast á. Því er þannig farið með það svæði, sem þessi viðaukatill. á við, Dali og nokkurn hluta Strandasýslu, að það má heita, að þetta svæði sé komið í kvína og hringinn í kringum það sé farið að hefjast handa um athugun og jafnvel framkvæmdir á rafvirkjunum. Með þessari till., sem hér liggur fyrir, megintill., er það Norðurland, sem á að takast fyrir og athugast. Vestfirðir eru þegar komnir á flugstig með, að þar verði hafnar framkvæmdir, og Snæfellsnes er í uppsiglingu í sambandi við rafveitu Borgfirðinga. Við erum því komnir, inn í hringinn, við erum eins og auður depill, þar sem hringur liggur allt í kring, þar sem verið er að vinna að þessum málum, en ég veit, að við verðum ekki skildir þar alveg eftir í eyðunni. En ég vil sérstaklega minnast á það atriði við þá n., sem tekur þetta mál til athugunar, enda þótt við höfum kveðið svo að orði, að athuga skuli um háspennulínu frá Andakílsárfossum, að hún taki það til athugunar, hvort ekki væri heppilegra að leggja línuna frá Laxárfossum. Það getur leikið á tveim tungum um það atriði, hvort heppilegra sé að leggja línu á Strandir og í Dali að norðan eða sunnan. Þetta bið ég n. að athuga. Þá er það einnig Þrándargil, sem þarf athugunar og rannsóknar, því að jafnvel við lauslegt álit frá Rafmagnseftirliti ríkisins gizka menn á, að þar mætti fá allt að 900 hestöfl, og gæti komið til mála, að það mætti verða til að bæta úr brýnustu þörf nokkurs hluta þessa svæðis. En sem sagt, að svo komnu máli treysti ég n., sem fær þetta mál til meðferðar, — og ég geri ráð fyrir, að hv. meðflm. minn geri það líka, — að hún athugi þetta mál, og vil fela henni það til beztu úrlausnar og sjá svo, hversu horfir, þegar hún er búin að leggja sína líknarhönd og réttlætishönd á þessa þáltill. og þá fylgifiska, sem henni fylgja.