08.02.1946
Neðri deild: 65. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Hvað viðvíkur öflun skipa, þá er það að segja, að ríkisstj. hefur leitað fyrir sér um það á Norðurlöndum. Hefur hún haft í huga að fá allt að 10 skip, helzt góð skip, því að eins og nú horfir með markaðshorfur, er tæplega fært að leggja út í það að leigja lítil skip, t. d. eins og færeysku skipin. Ríkisstj. lét spyrjast fyrir um það í Bretlandi, hvort leiguskiptim yrði leyfð löndun, og fékk neitandi svar. Þessi leiguskip koma því ekki til með að flytja fisk á enskan markað. En ef tekst að afla markaða á meginlandinu, t. d. Belgíu o. fl. löndum, þá er vel hugsanlegt, að nota megi þessi leiguskip til flutninga þangað, og verður þetta athugað nánar í því sambandi. En ríkisstj, hefur ekki talið rétt að festa sér þessi skip að svo komnu, því að ekki er vitað svo með vissu um markaðshorfur í þeim löndum, sem mundu leyfa löndun þessara skipa, en fyrir liggur neitun frá Englandi, eins og áður er sagt. Það fiskast nú mikið á heimamiðum í Englandi, og er mjög mikið um skip í enskum höfnum. Hefur ríkisstj. verið vöruð við því að treysta um of á löndun ísfisks í Englandi. Með þessa örðugleika í huga hefur ríkisstj. tekið þá ákvörðun að örva saltfiskframleiðsluna, svo að hægt sé að salta einhvern hluta aflans heldur en flytja hann út í ís í e. t. v. mikilli óvissu.