02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég vil þakka hæstv. ráðherra. Ég heyri, að ekkert er til í fregn þeirri, sem birt er í Þjóðviljanum í dag, að neytendum verði veitt beint innflutningsleyfi. Ég hafði gert mér vonir um, er ég las þessa fregn, að eitthvað mundi rýmkast til um leyfi kaupfélaganna og að eitthvað væri að lagast í þessum málum, en hér hlýtur að vera á misskilningi byggt um, hvað gerzt hefur.

Viðvíkjandi 2. atriðinu sagði hæstv. ráðh., að stöðvun hefði komið á sölu frysts fisks, en bætt yrði úr þessu. Mér finnst eftirtektarvert, hvað ráðh. segir. Mér og líklega öllum fannst það ill tíðindi, er markaðurinn í Englandi takmarkaðist. En við eigum nú stórar innstæður í Englandi, svo að ekki mun vera fyrirsjáanlegur gjaldeyrisskortur þar. Það má búast við, að á næstunni gerist ýmislegt voveiflegt. En ef slíkir atburðir verða ekki til þess, að frjáls viðskipti verði með helztu nauðsynjavörur, þá lízt mér ekki á, að hér verði framar frjáls verzlun. Ríkisstjórnin átti að láta vera frjálsa verzlun með nauðsynjavörur við sterlingslöndin. Þess vegna finnst mér, að ráðherra ætti að tilkynna, að frjáls verzlun væri við sterlingslöndin, þótt undanskildar væru nokkrar vörur.

Mér er ljóst eins og fleirum, að hætta er á ferðum, ef innflutningshöftin standa lengi. Þá verður ástandið í verzlunarmálunum svipað og vatn, sem enga framrás hefur. Mér finnst, að ekki megi hindra frjálsa verzlun, meðan tækifæri og gjaldeyrir er fyrir hendi. Ég tel, að ekki ætti að draga að gefa út frílistann.