25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Það er örstutt. Eins og ég hef áður haldið fram, þá tel ég, að þessi sundurgreining hæstv. ríkisstj. eigi ekki að eiga sér stað, heldur eigi allir að eiga þess kost að fá vöruna við sama verði. En fyrst hæstv. ríkisstj. fann þetta upp, að skipta mönnum í flokka, þá hefði frekar verið mögulegt að forsvara það, ef hún hefði greint menn sundur eftir efnum þeirra og ástæðum, en það hefur hún ekki gert. Ég vil alveg mótmæla því, að sumir menn, sem hafa 3–4 menn í vinnu, græði meira á því, að vísitölunni sé haldið niðri, en eigendur hlutafélaga, sem hafa tugi manna í vinnu, þó að þeir hafi hlutafélagsform á sínum atvinnurekstri. Þeir græða margfalt meira en hinir á því, að vísitölunni sé haldið niðri, en samkv. reglu hæstv. ríkisstj. og framkvæmd hennar þá eiga þeir að fá þessa niðurgreiðslu.