27.02.1946
Neðri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

115. mál, tunnusmíði

Skúli Guðmundsson:

Áður en þessari umr. var frestað, þegar málið var hér síðast á dagskrá, hafði hæstv. atvmrh. gert að umtalsefni m. a. þær brtt., sem minni hl. fjhn. flutti á þskj. 476. Um fyrstu brtt., sem er um það að fella niður 4. gr., sé ég ekki ástæðu til að ræða meira, þar sem fjhn. öll hefur fallizt á að mæla með þeirri brtt., eins og fram kom í ræðu hv. þm. V.-Ísf. áðan. En um 2. brtt. vildi ég segja nokkur orð. Hún er um það, að síldarútvegsnefnd annist stjórn og rekstur tunnuverksmiðja ríkisins og ráði starfsmenn þeirra. Hæstv. ráðh. sagði það um þetta, að þó að frv., sem hér liggur fyrir, yrði gert að l., þá væri ekki þar með sagt, að ríkið kæmi upp þessum tunnuverksmiðjum eða keypti tunnuverksmiðjur til að reka þær, það gæti vel farið svo, þrátt fyrir þessi heimildarl., að það yrðu viðkomandi bæjarfélög, sem með þennan rekstur hefðu að gera, og enginn vilji væri hjá stj. fyrir því að hindra bæjarfélög í því að hafa þennan rekstur í sínum höndum. Hann sagðist því telja það óþarft eða of snemmt að ákveða nokkuð um stjórn verksmiðjanna. Ég vildi benda á það í þessu sambandi, að ef það á annað borð þykir rétt að samþ. þetta frv. sem heimild fyrir ríkisstj. til þess að reisa og reka tvær tunnuverksmiðjur, finnst mér sjálfsagt, að í því frv. sé eitthvert ákvæði um stjórn fyrirtækjanna, enda er það nú í stjfrv., eins og það liggur fyrir, að í 6. gr. er gert ráð fyrir því, að viðkomandi ráðh. ákveði með reglugerð, hvernig stj. verksmiðjanna skuli fyrir komið. Ég tel það óeðlilegt, að ráðh. einn ákveði um þetta með reglugerð, heldur teldi ég rétt, að það væri ákveðið í frv., hvernig stj. sé fyrir komið. Vitanlega væri hægt að hafa þetta þannig að kjósa sérstaka stj. fyrir þessi fyrirtæki, en það er ekki lagt til í brtt. minni hl., heldur að síldarútvegsnefnd verði falið það, þar sem það virðist vel geta farið saman við önnur verkefni, sem síldarútvegsnefnd hefur. — Ég vænti þess því, að hv. d. geti fallizt á þessa brtt. og þá einnig 3. till., sem er í beinu sambandi við 2. brtt., og að hv. d. geti eigi að síður fallizt á 1. brtt., sem fellir burtu 4. gr. frv.