07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Hv. 2. þm. N.-M. beindi nokkrum spurningum til mín, en nefndi að vísu annan ráðh. í því sambandi.

Hann var að spyrja að því, hvað mikið byggingarefni mundi flytjast til landsins á þessu ári og til hvers það byggingarefni ætti að notast, og hvort væntanleg bygging gistihúss mundi ekki fara í bága við þær ráðstafanir, sem ætlazt væri til, að gerðar yrðu með frv. því um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar, sem liggur fyrir hv. Ed. Hér blandar hv. 2. þm. N.-M. saman tveim málum, því að þótt það frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., þá er ekkert í því, sem ákveður, hvenær hafizt skuli handa um byggingu þess gistihúss, sem þar ræðir um, þannig að ef það kemur í ljós, að skortur verður á byggingarefni og verkafólki til bygginga, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að gistihúsbyggingunni verði frestað vegna annarra bygginga, sem eru enn þá meira aðkallandi. Ég hygg, að ekki liggi enn þá upplýsingar fyrir um, hve mikið byggingarefni verði hægt að fá til landsins á þessu ári, og það er nokkurn veginn víst, að eftirspurnin eftir byggingarefni hlýtur að vaxa allverulega, þegar samgöngur komast í eitthvað betra lag í álfunni, þannig að þeir, sem nú hírast í bústöðum, sem ekki eru neinir mannabústaðir, eða eiga ekki þak yfir höfuðið, fá möguleika á að flytja til sín byggingarefni til þess að byggja úr. Það er þess vegna nauðsynlegt, að ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að reyna að fá flutt til landsins svo mikið byggingarefni á þessu ári sem mögulegt er, en eins og ég sagði áðan, er þetta í rauninni óviðkomandi frv. því um gistihúsbyggingu, sem hér liggur fyrir. Það getur vel komið til mála og er gert ráð fyrir því í frv. því, sem hv. 2. þm. N.-M. minntist á, að teknar verði ákvarðanir um að fresta framkvæmd stórbygginga, sem ekki er algerlega óhjákvæmilegt að koma á fót, til þess að geta látið nauðsynlegar íbúðarhúsabyggingar ganga fyrir. Ég hygg, að um þetta geti ekki verið neinn ágreiningur, að til þessa geti komið, og vil ég þó ekki segja það með þessum orðum, að ég telji ekki nauðsynlegt að ráðast í þessa gistihúsbyggingu sem allra fyrst.

Það stendur fyrir dyrum veruleg aukning á strandferðaskipum ríkisins, og búið er að panta mörg millilandaferðaskip. Það er og kunnugt, að ferðamannastraumur á eftir að aukast til bæjarins, bæði frá útlöndum og sömuleiðis frá ýmsum stöðum landsins. Það er því engan veginn vansalaust af því opinbera að láta það ástand haldast hér í höfuðstað landsins, að ekki sé hægt að hýsa þá gesti, sem til bæjarins koma. Ekki er ætlunin með þessu að gera hótelrekstur að ríkisrekstri, því að eðlilegra er, að einstaklingar hafi þennan rekstur með höndum, hins vegar er ekki óeðlilegt, að ríkið hafi afskipti af þessum málum einmitt í sambandi við aukinn ferðamannastraum, sem verið er að beina til landsins, m. a. fyrir opinberar aðgerðir. Mjög víða um heim, m. a. á Norðurlöndum, er það föst regla, að ríkið reki fyrirtæki eins og t. d. járnbrautir og eigi gistihús, sem eru rekin í sambandi við þær, og það þykir skylda, að hið opinbera, sem annast samgöngur og samgöngutækin, sjái um, að þeir, sem ferðast með þeim, geti fengið húsaskjól. Ríkið hefur nú rekizt í því, að hér verði reist gistihús, enda er það ekkert einsdæmi, að hið opinbera styrki hótel hér á landi. Hv. 10. landsk. hlýtur að vera kunnugt um þetta. Hér er því eigi farið inn á nýjar brautir, heldur tekin upp fyrirgreiðsla, er tíðkast annars staðar og þykir sjálfsögð. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að teygja frekar úr umr. Vildi ég aðeins svara fyrirspurninni.