18.03.1946
Neðri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég verð að segja, að ég er undrandi yfir, hvað einstakir hv. þm. hafa ruðzt fram með brtt. við frv., sem sýnilega verður til þess, að allar stærri brtt. eyða málinu. Það hefði verið hreinlegra af þm. að ganga þá beint á móti málinu. Um þessar brtt. læt ég mér nægja að vísa til þess, sem hæstv. samgmrh. hefur sagt. En út af brtt. frá allshn. vil ég geta þess, að n. kom sér saman um þær brtt., sem fyrir liggja, til samkomulags við hæstv. samgmrh. Hefði ég miklu fremur kosið 5. gr. óbreytta, en lét til leiðast til samkomulags við meðnm. mína, til þess að fá málinu borgið í þingdeild.

Ég vil aðeins leyfa mér að geta þess út af því, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Reykv. um afgreiðslu þessa máls í fjhn. þessarar d. í morgun, nefnilega að það var fellt á fundi með 2:2 atkv. að gera nokkrar frekari till. um frv., að ég álít, að þess vegna komi ekki til mála að vísa málinu til fjhn. aftur í því skyni, að n. gangi inn á brtt. við málið í heild sinni. Einstakir þm. bæði í fjhn. og öðrum n. hafa óbundnar hendur um að gera brtt., enda hafa nú komið fram brtt. frá 2 þm. í fjhn. — Ég skal ekki hafa þessi orð mín öllu lengri, en vil aðeins minnast á, að hér er um stórmerkilegt mál að ræða. Bygging nýtízku gistihúss er nauðsynleg. Það eru að verða vandkvæði fyrir hið unga íslenzka lýðveldi, ef ekki rætist úr. Hér hafa þeir aðilar bundizt samtökum, sem líklegastir eru til að hrinda þessum málum í framkvæmd, nefnilega ríkið, Reykjavíkurbær og Eimskipafélagið. Ég teldi illa farið, ef máli þessu yrði eytt, svo að ekkert yrði úr framkvæmdum, eða að brtt. yrðu samþ. og málinu með því drepið á dreif. Ég vænti, að það samkomulag milli allshn. og samgmrh. geti borgið málinu.