07.10.1946
Neðri deild: 12. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki tefja umr. Hv. þm. Borgf. taldi þrjú atriði, sem ég vissi ekki um. Í fyrsta lagi, að þýðing handfæraveiða yrði mikil. En það skal tekið fram, að yfirleitt var um það rætt, ef réttindi yrðu veitt, þá væru þau takmörkuð með ýmsum ákvæðum, t.d. um visst árabil, ákveðinn bátafjölda eða skipastól. Hv. þm. Borgf. athugar ekki, að hugsunin er sú að láta þessi réttindi hverfa hægt og hægt, en ekki allt í einu. Þess vegna er hér um tímabundin og takmörkuð réttindi að ræða. — Viðvíkjandi þriðja atriðinu, sem kom frá hv. þm. Borgf., að Danir gætu lagt fjármagn inn í útgerð Færeyinga, þá trúi ég ekki, að Danir fari að gera út á handfæraveiðar frá Færeyjum. Og líka bendi ég á, að gera yrði ráðstafanir til að fyrirbyggja þetta, t.d. með takmarkaðri bátatölu. Auk þess trúi ég ekki, þó að þessi réttur væri veittur Færeyingum, að hann yrði misnotaður, enda er hægt að koma í veg fyrir það.

Viðvíkjandi því, að þessi framlenging samningsins sé ekki gott fordæmi, skilst mér, að þjóðréttarfræðingar mundu ekki fallast á það.