19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. hefur nú farið þannig með hæstv. landbrh., að segja mætti, að það væri að leggjast á lítilmagnann að gagnrýna hann frekar en orðið er. Ég verð þó að koma að því atriði í ræðu hans, þegar hann var að bera saman stöðu forseta Sþ. og stöðu sína. Það er vitað mál, að ríkisstj. í hverju landi hefur það sterka aðstöðu, að hún ræður miklu um gang málanna, og að bera þá aðstöðu saman við aðstöðu forseta Sþ. er vitanlega fráleitt. Að bera saman vald forseta hér og vald forseta, sem hefur þessa aðstöðu á búnaðarþingi, var í samræmi við önnur rök hæstv. ráðh. Hann byrjaði ræðu sína á því að minna á, að þegar ég vitnaði í fyrrv. landbrh., þá meinti ég sjálfan mig. Þetta var alveg út í hött. Til þessa hafði ég ekki gefið neitt tilefni. Og ekki dettur mér yfirleitt í hug að bera mig saman við fyrrv. landbrh. En ég get tekið það fram í sambandi við það, sem hæstv. landbrh. talaði um sinn fyrirrennara, að eftir því sem ég hef kynnzt stjórn landbúnaðarmálanna á 20 ára tímabili, hefur hún aldrei verið eins hagstæð bændum eins og í tíð fyrrv. landbrh. Hæstv. ráðh. kvað mig ekki treysta bændum til að kjósa sína fulltrúa, en hann treysti þeim til þess. Eins og kunnugt er, var 25 völdum bændum víðs vegar af landinu falið samkv. búnaðarráðslögunum að kjósa verðlagsnefnd, en er falið samkv. þessu frv. að kjósa framleiðsluráð. En sá er munur, að verðlagsnefnd landbúnaðarafurða hefur samkv. núgildandi l. vald til að ákveða verðlag landbúnaðarafurða og annast sölu þeirra og skipulagningu hennar. En samkv. þessu frv. á framleiðsluráði ekki að vera trúað fyrir því að neinu leyti að ákveða verðlag. Það gerist utan við þetta framleiðsluráð, sem hæstv. ráðh. gumar af, að sýni hans vináttu til bænda, með því að þeir fái sjálfir að kjósa.

Þá taldi hæstv. ráðh. lítið lýðræði í því, að búnaðarráð hefði allt saman verið skipað af ríkisstj., en nú ætti að breyta þannig, að bændasamtökin sjálf kysu. En út í það skal ekki nánar farið, því að hv. þm. S-Þ. hefur gert því máli svo góð skil, hvað þar er veikur grundvöllur fyrir hendi, að ég þarf ekki þar miklu við að bæta. Þá var það eitt atriði í ræðu hæstv. ráðh., að með þessu frv. væri ákveðið, að bændur fengju tekjur, sem samsvöruðu tekjum annarra stétta. En allir, sem fylgjast með landbúnaðinum vita, að landbúnaðartekjur eru býsna reikular. Það hefur verið og mun verða þrætuefni, við hvaða búskaparaðstöðu á að miða, því að bilið er býsna breitt neðan frá einyrkjabónda, sem vinnur að mestu leyti með handverkfærum og upp til þess bónda, sem hefur fullkomnustu vélar, sem nú eru þekktar. Enn fremur er það, að sum svæði landsins eru minna undirorpin því en önnur, að fénaður hrynji niður úr veikindum. Sums staðar hefur plágan verið skæð, en annars staðar hafa menn heilbrigðan bústofn. Þegar á að reikna út mælikvarðann, er grundvöllurinn nokkuð veikur. En þessi útreikningur á hér að vera lagður undir aðeins þriggja manna gerðardóm. Hæstv. ráðh. sagði að óskað hefði verið af bændastéttinni eftir þessu skipulagi, sem hér er farið fram á. Ég spyr: Hvaða bændur hafa beðið um að fá þriggja manna gerðardóm til að ákveða verðlag á þeirra vörum? Ég þekki enga slíka bændur. Það getur verið, að stjórn Búnaðarfélags Íslands hafi beðið um þetta. Aðrir geta það tæplega verið. Og þó að hæstv. ráðh. mótmæli, að hér sé um að ræða gerðardóm og að þetta sé sambærilegt við sex manna nefndar álitið 1943, er þarna gersamlega ólíku saman að jafna. Sex manna nefndin 1943 var skipuð mönnum tilnefndum af neytendum og framleiðendum, og hennar verk var því aðeins að nokkru metið, að allir væru sammála. En hér er gerðardómur settur til að skera úr ágreiningi, sem væntanlega kann að verða í hinni nýju sex manna nefnd milli fulltrúa og neytenda. Engin ákvæði eru í 5. gr., að þessir gerðardómsmenn þurfi að koma sér saman, heldur ræður einfaldur meiri hl. úrslitum. Hér er því um röskun gerðardómsfrv. að ræða, þvert á móti því, sem var um sex manna nefndina 1943. Þá taldi hæstv. ráðh. það miklu máli skipta, að í þessum efnum yrði að byggja á búreikningum. Ég skal játa, að í sex manna nefndar starfinu 1943 var mjög mikill stuðningur að þeim búreikningum, sem til voru, og eins mundi nú verða. En ágreiningurinn, sem hlýtur að verða, var til 1943 og hefur alltaf verið til síðan. Hann er byggður á því, sem ég var að minnast á áðan, að búskaparaðstaða bænda í landinu er svo ákaflega misjöfn. að alltaf er opinn ágreiningur, við hvaða aðstöðu á að miða.

Þá kom ráðh. að því, að mikill fengur mundi ekki verða fyrir okkur bændur að fara út í baráttu um okkar verðlagsmál. Þetta get ég samþ., og því er heldur ekki neitað í mínum till. Ég get samþ., að það mun ekki vera það sterk aðstaðan nú, eins og félagssamtökum okkar bænda er háttað, eða öllu heldur eins og þeim er stjórnað. En þetta er tilefnislaus aths. frá hæstv. ráðh., því að í mínum till. er ekki gert ráð fyrir, að um neina baráttu sé að ræða. og ef sex manna nefndin kemur sér ekki saman, allir sem einn maður, þá sé framleiðsluráðs að skera úr.

Og þar vil ég leggja sama traust á þetta nýja framleiðsluráð eins og landbrh. lagði á búnaðarráð. Það er óhætt að treysta þessum mönnum, að þeir fari ekki út í öfgar, enda hafa þeir þess að gæta, að ekki er nóg að ákveða verð á vörunum, það verða að vera líkur til, að vörurnar seljist fyrir það verð. Svo er hins að gæta, að meðan jafnmikið er greitt af verði varanna með ríkissjóðs fé, er ekki að búast við öðru en verð hljóti að ákveðast meira eða minna í samráði við ríkisstj.

Hæstv. ráðh. sagði, að það þyrfti ekkert ákvæði um hlutfallskosningu, vegna þess að ákvæði væri til í l. um stéttarsamtök bænda, að hlutfallskosningar skyldi hafa, ef um þær er beðið. Við höfum enga tryggingu fyrir, að um þær verði beðið. Þess vegna á samkv. eðli málsins sjálfs að ákveða í l. hlutfallskosningu á þeim fulltrúum, sem á að kjósa. Þar að auki legg ég talsvert mikið upp úr því, að mín till. um 4 fulltrúa frá Sambandi ísl. samvinnufélaga verði samþ., því að þar er um þann aðila að ræða, sem hefur mikið með söluna á okkar afurðum að gera, bæði sauðfjár- og mjólkurafurðum. Ef þessi nýja sex manna nefnd á að vinna starf sitt frá grunni án þess undirbúningsstarfs, sem unnið var 1943, hygg ég hún verði ekki búin með það fyrir 1. ágúst, eins og lög gera ráð fyrir. Þess vegna tel ég, gagnstætt skoðun hæstv. ráðh., að eitthvað þyrfti að ákveðast um þetta í lögunum.

Hæstv. ráðh. taldi ekki fært fyrir bændur landsins að tryggja hag sinn betur en gert er með þeim l., sem fyrir liggja í frv.-formi. Þá fer að verða lítilfjörlegur mælikvarði á hagsmuni bænda, ef þetta á að vera helzta tryggingin fyrir okkar hag í framtíðinni, því að þessum l. má breyta á næsta þingi, ef stjórnarskipti verða, eins og l. er breytt gersamlega frá í fyrra. Með því að þingmeirihl. er svo breytilegur, verða hagsmunir heilla stétta ekki tryggðir með einstökum l. En ég held ákveðið fram, að ekki sé mögulegt, eins og sakir standa, að tryggja hagsmuni bændastéttarinnar í afurðasölumálunum betur en gert var með því samkomulagi, sem átti sér stað milli þriggja flokka, sem var undirstaða undir búnaðarráðslögunum, sérstaklega vegna þess, að í þessum þremur flokkum er meginhlutinn af bæjarfólki landsins, sem við höfum markað hjá. Ákvörðunarvald um verðlag og söluskipun í hendi verðlagsnefndar landbúnaðarafurða er miklu þýðingarmeira en að setja lög eins og hér er verið með.

Ég geri ekki ráð fyrir, að neitt þýði að fara öllu lengra út í þetta mál. Það mun nokkurn veginn ákveðið að samþykkja þetta frv. í aðalatriðum. Mér þótti þó rétt að láta þessar till., sem eru á þskj. 875. koma undir atkv., og mun biðja hæstv. forseta um nafnakall um þær báðar til þess að hafa það svart á hvítu, hverjir það eru í hv. d., sem vilja hafna því skipulagi, sem þeir hafa stungið upp á og tryggir að minni hyggju miklu betur aðstöðu bændastéttarinnar en það fyrirkomulag, sem í frv. felst nú.