23.05.1947
Efri deild: 145. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. lýsti því yfir í sinni ræðu, sem rétt var, að þetta frv. er samið af stuðningsflokkum ríkisstj. Mér þykir því rétt að gera nokkra grein fyrir minni afstöðu, þó að það raski ekki niðurstöðunni. Ég skal þá ræða nokkuð um hin ýmsu atriði.

Í 1. gr. frv. er sú breyting, að nú kemur framleiðsluráð í staðinn fyrir búnaðarráð, sem útnefnt var þannig, að landbrh. tilnefndi 25 menn, til að þeir veldu svo aðra menn til að sinna þessum málum. Ég get ekki séð, að þessi skipun sé til að koma málunum meir í hendur bænda. Það er ákveðið í l., að eingöngu bændur skuli sitja í búnaðarráði. Því hefur verið haldið fram, að hér réðu ekki bændur, heldur konungkjörnir fulltrúar ríkisstj. Þetta er rangt. Og þegar nú hæstv. landbrh. leggur til, að þessu sé breytt, þá eru fyrir því ein rök, og þau eru, að hann treystist ekki til að útnefna þessa menn eins samvizkusamlega og til er ætlazt. En hann hefur þekkt þessa menn um mörg ár, og er þetta því mikið vanmáttareinkenni. Þá vildi ég segja nokkur orð um stéttarsamband bænda. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé vafasamur vinningur fyrir bændur að hópa sér í harðvítuga stéttarbaráttu, og vildi ég benda á í því sambandi, að það er eina stéttin í landinu, sem Alþ. treystir svo vel, að Búnaðarfélagi Íslands er lagt stórfé til að tryggja hag bændastéttarinnar. Ég þekki ekki aðra stétt, sem hefur fengið að hafa slík forréttindi og gera ályktanir um sín mál. Og ef nú farið er inn á þá braut að efla stéttarsamtökin innan Búnaðarfélags Íslands, þá verður því ekki haldið uppi af ríkisfé, enda yrðu þá önnur fríðindi heimtuð til handa öðrum samtökum. Ég segi ekki þetta af því, að ég sjái eftir þessu fé, en vildi aðeins benda á, að bændastéttin hefur þessa tiltrú hjá Alþ. vegna þess, að hún hefur ekki baráttusamtök, og er vafasamt, að hún hafi hagnað af að fara inn á þá braut.

Þá vildi ég fara fáum orðum um II. kafla frv. Ég ætla mér ekki þá dul að ræða almennt um verkaskiptingu, en vil taka undir það við hæstv. ráðh., að greina verður á milli verðlags á lélegu fé og betri fjárstofnum. Ég get ekki annað séð en að hægt sé að leiða sauðfjárræktina frá lélegum héruðunum þar sem kroppþungi dilka er 12 kg., og í betri héruð, þar sem dilkurinn er 17–18 kg. og yrði það gert með því að ákveða mismunandi verð eftir þunga og gæðum fjárins. Ég hygg, að bændastéttin mundi fljótt fela sig við þetta, og væri ástæða til að athuga slíkar ráðstafanir.

Þá er atriði í frv., sem er nýmæli, en það er um hrossakjötið. Ég efa, að það sé rétt að loka augunum fyrir þeirri hættu, sem það skapar í landinu, sem er aukin hrossarækt. Hv. þm. V-Húnv. hefur flutt frv. til að draga úr aukinni hrossarækt. En hér er upplýst af hv. frsm., að það sé meðallag að um 900 tonn hrossakjöts berist á markaðinn árlega, en það gerir ekki litla erfiðleika fyrir þá, sem stunda sauðfjárrækt. Og þegar nú komið er inn á þá braut, að bændur eru búnir að fá jeppabíla, þá á auðvitað að fækka hrossum, og ætti því hæstv. landbrh. að beita sér fyrir að draga úr hrossaframleiðslunni.

Þá vildi ég segja nokkur orð um verkaskiptinguna í sambandi við mjólkina. Það er framkvæmdaratriði, hvort ætti að hafa mjólkurbúin stærri og t. d. nær Reykjavík og flytja þá frekar fólkið til. En ef á að fara inn á þá braut að reka stóriðju, þá er ekki hægt að halda uppi framleiðslunni með 2–3 kúm.

Þá kem ég að meginatriði þessa máls, en það er yfirnefndin. Ég held, að við ættum að læra af þeirri reynslu, sem við höfum fengið, þegar l. um verðskráningu voru samin árið 1943 og ákveðið var, að verðið yrði sett af sex manna nefndinni. Þá held ég, að engum hafi dottið í hug, ef nokkurn hefur þá órað fyrir þeim glundroða, sem af því hlauzt. Ég segi ekki, að bændur hafi fengið þá of stóran hlut, en þetta fór svo, af því að báðir aðilar vildu fá sem mest. Þegar bændur fengu hækkað, þá var komið að hinum að fá sitt hækkað, og þannig var verðlagið skrúfað upp, og Alþ. hefur verið alveg afllaust í þessum málum. En þetta ástand helzt, á meðan ríkisstj. heldur áfram að greiða verðið niður, því að þá hafa neytendur ekki áhuga fyrir því, að verðið sé lágt. Þessi molbúaháttur er því ekki til frambúðar. Þetta var gert, eins og hv. ráðh. tók fram, til að skapa bændum sæmilegt verð fyrir sínar vörur, en það mátti gera með því að bæta vinnuskilyrði þeirra, og hefði það verið skynsamlegri ráðstöfun. Þá sagði hæstv. ráðh., að byggja ætti á tölum hjá hagstofustjóra, en þær tölur eru komnar frá bændum, því að búreikningaskrifstofan á að reikna út þessar grunntölur. En ég held, að ég fari ekki rangt með það, að búreikningakerfið sé svo lélegt, að lítið sé hægt að byggja á því, en samt eiga þessar tölur að vera grundvöllurinn og hann svo traustur, að hagstofustjóri þarf ekki annað en að athuga þær, ef eitthvað út af ber. En hagstofustjóri er ekki hæfari að vera hæstaréttardómari í þessu máli en sá, sem kann að draga frá og leggja saman. Það er því rangt, að hér sé um nokkra lagaskýringu að ræða, en ef tölurnar reynast vafasamar, þá er það frekar málafærslumaður, sem ætti að koma til skjalanna. Þess vegna er hæpið að samþykkja þetta eftir þá reynslu, sem við höfum haft. Það eru valdir 3 meðlimir af bændum og 1 af alþýðusambandinu, og er það gert til þess, að sjónarmið neytenda komi fram, og svo einn frá Sjómannafélagi Rvíkur, sem er einn aðili í alþýðusambandinu. Þetta er komið til af því, að Alþýðusambandið er undir stjórn Kommúnistafl. í dag, en sjómannafélagið undir stjórn Alþfl. í dag. Þarna eru settir inn 2 pólitískir aðilar í n. og ekkert annað. Þau rök hæstv. ráðh. að Sjómannafélag Reykjavíkur væri samnefnari sjómanna í landinu, eru út í loftið. Í því félagi er sáralítið af sjómönnum, sem stunda sína atvinnu á smábátum og taka hlut. Þar er langmest af launamönnum hjá stórútgerðinni. Sjómannafélögin í Keflavík og Ísafirði og fleiri stöðum eru aftur á móti fulltrúar fyrir hlutarsjómenn. Í Sjómannafélagi Reykjavíkur eru nær eingöngu launþegar, vegna þess að hér er blátt áfram svo lítið gert út af mótorbátum, þar sem eru viðhöfð hlutaskipti. Hér er því um pólitíska fulltrúa að ræða. Og hvers vegna er þá ekki skipað hreinlega pólitískt heldur en að vera að þessu? Það er miklu heppilegra. Þriðji aðilinn þarna er svo Landssamband iðnaðarmanna. Á það hefur verið minnzt, að hér er ekki um stóran hóp manna að ræða. Þetta er að vísu nokkuð stór hópur í landinu, en ekki svo stór, að hann eigi að ganga fyrir ýmsum öðrum. Og hvað svo um alla hina, sem hafa engan fulltrúa, t. d. verzlunarmenn og embættismenn? Það eru stórir hópar launþega. Eins mætti segja, að kvenfélögin ættu hér hagsmuna að gæta. Sannleikurinn er sá, að hér er um pólitískt sjónarmið að ræða. Hér eiga að koma einn sjálfstæðismaður eða tveir, einn framsóknarmaður eða tveir og einn alþýðuflokksmaður og sósíalisti, og svo frá iðnaðarmönnum einn jafnaðarmaður eða sósíalisti. Það hefur aldrei legið neitt til grundvallar fyrir mótmælum Framsfl. gegn búnaðarráði annað en það, að ráðið væri ekki nógu pólitískt, ekki nægilega margir framsóknarmenn í því. Ég get ekki viðurkennt, að styr hafi staðið um verðlag landbúnaðarafurða á s. l. ári og varðandi ákvarðanir búnaðarráðs. Þess vegna er ekki ástæða til að breyta til nú. nema síður sé. Ég skal ekki halda uppi miklum umr. um þetta mái. Ég hef gert grein fyrir skoðun minni í höfuðatriðum. Ég hef ekki trú á þessu, og tel það stefna í öfuga átt í dýrtíðarmálunum og þetta verði því erfiðara sem lengra er haldið á þessari braut. Mun ég ekki bera fram brtt. við frv., eins og ég gat um í fyrstu, þar sem tíminn er svo naumur, enda mundi það ekki verða til neins. En ég mun greiða atkv. gegn frv. Ég tel frv. fyrst og fremst fela í sér yfirlýsingu frá Framsfl. um það, að hann telji sig ekki færan um að finna jafngóða menn í ráðið til að stjórna þessum málum eins og fyrrv. landbrh. gerði. Annars hefði landbrh. ekki gefið frá sér þetta vald. Ég tel, að í skipun framleiðsluráðsins felist svo mikil hætta, ekki aðeins fyrir ríkissjóð, heldur fyrir dýrtíðarmálið, að ég vil ekki bera ábyrgð á skipun þess. Ég mun því greiða atkv. á móti frv.