29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég álít reyndar, að lögin um innflutning og gjaldeyrismeðferð þurfi ýmissa breytinga við og endurskoðunar. Ég hef einnig orðið var við, að framkvæmdin á þeim þarf ekki síður endurbótar við en lögin sjálf. Ef þetta frv. hefði verið fyrr borið fram, tel ég víst, að flokkur minn hefði reynt að koma fram ýmsum breyt. við þetta mál, og það verð ég að segja, að ef mætti skilja samþykkt Alþ. á þessu frv. sem yfirlýsingu um, að allt ætti að haldast óbreytt, mundi ég ekki treysta mér til að samþykkja það. En þó að þetta frv. sé samþ., hefur Alþ. það á sínu valdi að gera þær ráðstafanir, sem því þykir henta á hverjum tíma.

Ég sé enga bót í, að lögin um innflutning og gjaldeyrismeðferð falli úr gildi 1. des., og get því fallizt á, að sú meðferð sé á höfð, að frv. verði gert að lögum í dag, en það er langt frá því, að ég sé að samþykkja það, að allt skuli haldast í sama formi framvegis.