17.12.1946
Neðri deild: 39. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

60. mál, aldurshámark opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Allshn., sem fékk þetta mál til meðferðar, hefur ekki orðið ásátt um afgreiðslu þess. Eftir l. um aldurshámark opinberra embættismanna og starfsmanna frá 1935, þá skal embættismaður leystur frá embætti 65 ára af þeim, sem veitti honum embættið, en þó er heimilt að láta viðkomandi embættismann, ef hann er nógu líkamlega og andlega ern, gegna embætti til 70 ára aldurs. Það er sem sagt á valdi þessa viðkomandi aðila, sem veitti embættið. Nú er lagt til í þessu frv., að aldurshámarkið verði fært upp í 70 ára aldur, og hefur meiri hl. n. ekki getað fallizt á slíka skilyrðislausa hækkun aldurshámarksins, og leggur þess vegna á móti því, að frv. verði samþ. þannig.

Það er að vísu svo, og er rétt að láta það koma fram, að það hafa nokkur fleiri sjónarmið komið fram innan n. um það, að ef til vill væri ástæða til að breyta frá því, sem nú er gildandi, enda þótt nm. hafi ekki getað komið sér saman um að flytja nýja brtt. þar að lútandi. En ég tel rétt að láta það koma fram, að ég hef litið svo á, að það væri ekki óeðlilegt, að embættismaður hefði heimild til þess, þegar hann hefur náð 65 ára aldri, að hverfa þá úr embætti, ef hann óskar þess, en mætti þó gegna embætti til 70 ára aldurs, en munurinn er þessi, að þá er það á hans valdi, hvort hann gegnir embætti þennan tíma eða ekki. Að vísu kæmi þá til athugunar að veita ekki þessa heimild sjálfum embættismanninum nema hann hefði þá náð vissum embættisaldri, þ. e. a. s. verið um langan tíma í þjónustu þess opinbera. Ég lít svo á, að það sé ekki óeðlilegt, að embættismanni, sem t. d. hefur unnið 30 ár að opinberum störfum, sé gefinn kostur á því að hverfa frá störfum með þeim réttindum, sem menn mundu öðlast, þegar þeir eru orðnir 65 ára gamlir.

Hins vegar mundi það horfa öðruvísi við að gefa slíka heimild án þess að takmarka embættisaldurinn. En um þetta hefur, eins og ég sagði, ekki fengizt samkomulag innan n. Þá hef ég rætt þetta, eftir að málið var afgr. í n., við suma nm. og kynni því að freista þess á síðara stigi málsins að flytja brtt. við l., sem færi í svipaða átt og ég nú hef greint. En að öðru leyti hef ég ekki á þessu stigi málsins meira um þetta að segja. Meiri hl. n. stendur sameiginlega að því að svo komnu að vera á móti því að hækka aldurshámarkið, eins og gert er ráð fyrir í frv., skilyrðislaust upp í 70 ár.