15.11.1946
Neðri deild: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

72. mál, byggðasöfn o. fl.

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er hart á því, að maður geti fengið sig til þess að reifa mál, þegar fullkomið upplausnarástand ríkir í hv. d. og menn eru á harðahlaupum um d., svo að varla er nokkur hv. þm. í sæti af þeim fáu, sem eru viðstaddir. En ég vil verða við áskorun hæstv. forseta og gera svolitla grein fyrir þessu máli.

Það er álit mitt og margra annarra, að verndun fornminja okkar og forngripa hljóti að vera nátengd þjóðarmetnaði okkar og þjóðarvitund, enda þótt sambandið milli þessa hafi ekki jafnan verið eins ljóst sem skyldi, því að þegar þjóðin vaknaði af margra alda svefni og kyrrstöðu, varð hún þess vör, að hún var margar aldir á eftir öðrum þjóðum í þessum efnum. Og loks þegar hún vaknaði, fannst henni, að allt, sem hún hefði gert og búið við á undanförnum öldum, væri svo lítils virði, að full ástæða væri til þess að kasta því og taka upp það nýja, sem aðrar þjóðir, sem lengra voru komnar, höfðu tileinkað sér. Það var í þessum svefnrofum, sem allt var rifið úr dómkirkjunni á Hólum, dýrmætum kirkjugripum var fargað til útlanda og margs konar munum, gerðum af miklum hagleik, var kastað og haft skipti á og útlendum varningi, sem tekinn var í staðinn. En sem betur fer, er þjóðin að komast yfir þetta gelgjuskeið eða svefnrofaskeið. Dómkirkjan á Hólum hefur aftur verið færð í sinn upphaflega búning. Það var 1921 eða 1922, sem fyrst var veitt fé til þessa, og þeim, sem eldri eru, blandast ekki hugur um, að hún sé nú eitt hið virðulegasta hús þessa lands. Það er búið að breyta henni úr því nýtízku húsi, sem hún var, eftir að rifið var innan úr henni, og hún er komin í sinn upphaflega búning og það með svo mikilli prýði, að allir, sem ég hef heyrt á það minnast, ljúka á þau verk lofsorði.

Það er margt fleira en kirkjugripir, sem koma til greina og prýða mætti íslenzk heimili, ef reynt væri að velja það bezta úr því gamla, sem forfeður okkar áttu, og slíkar fyrirmyndir gætu mjög mikið prýtt heimili okkar, ef við færðum það til samræmis við húsbúnað okkar nú og kröfur tímanna. En þessi viðleitni verður þá líka að koma fram frá Alþ. Það hefur verið leitazt við og Alþ. hefur á undanförnum árum lagt fé til þess að varðveita gamlar byggingar frá fyrri tímum, en þessar byggingar eru þó yfirleitt ekki svo gamlar, að þær geti talizt til fornleifa, og falla ekki undir þau ákvæði l., sem ræða um fornleifar, og gefa heldur ekki fornminjaverði rétt yfir viðkomandi stöðum eða að hafa þau afskipti af þessum byggingum, sem nauðsynlegt er, enda þótt hann hafi ásamt öðrum áhugamönnum haft forgöngu um, að ýmsar gamlar byggingar yrðu varðveittar, svo sem skálinn á Keldum á Rangárvöllum, Víðimýrarkirkja, bæirnir á Burstarfelli, Grenjaðarstað og Glaumbæ, svo að ég nefni nokkur dæmi, og hv. Alþ. hefur heimilað fé til viðgerðar á þessum stöðum. Það eru til ýmsar byggingar, sumar gamlar, sem ekki hefur verið fullkomlega frá gengið, svo sem bæjardyrnar á Stóru-Ökrum, sem Skúli Magnússon byggði úr dugguvið hollenzkum, og standa þær enn í dag.

Það hafa nú breytzt svo mjög búnaðarhættir hjá okkur á síðari tímum, að það má heita, að um gerbyltingu sé að ræða. Vinnubrögð, sem áður tíðkuðust, eru mörg horfin. Þar af leiðandi eru þau verkfæri, sem þá voru notuð, ekki lengur notuð og verða sjaldséðari með hverju ári, sem líður.

Þess vegna getur ekki liðið á löngu, að þau verði fáséð, og svo er um mörg verkfæri, sem forfeður okkar notuðu og það fyrir ekki lengri tíma en 50 til 60 árum, að þau þekkjast nú varla, og svo verður þetta framvegis. Hins vegar hafa nokkur héruð í landinu komið af stað hreyfingu um að varðveita þetta fyrir komandi kynslóðir. Eftir því sem ég bezt veit, eru það Vestfirðingar, Skagfirðingar og Austfirðingar, sem hafizt hafa handa um slíka hluti. Þetta er algerlega sjálfboðavinna, menn hafa unnið að þessu og lagt í það mikla vinnu og töluvert fé.

Við, sem flytjum þetta frv., lítum svo á, að þetta hvort tveggja, varðveizla byggða og söfnun muna og geymsla þeirra, sé svo merkilegt mál, að full ástæða sé til þess, að það opinbera og Alþ. taki það fullkomlega til athugunar og veiti því nægilegan stuðning. Það eru höfuðatriði þessa frv. í fyrsta lagi, eins og við hugsum okkur það, að setja í núgildandi l. ákvæði um það, hvernig skuli fara með fornminjar okkar, sem ekki teljast fornleifar, en þykja þess virði, að þær séu varðveittar, og bjarga þannig frá eyðileggingu fornum byggðum og munum, sem eftirsjón væri að. Í öðru lagi að varðveita forna búslóð, þ. e. innanstokksmuni og áhöld, sem notuð hafa verið bæði til sjávar og sveita og sýna að ýmsu lifnaðarhætti þess fólks, sem þá var uppi. Og loks teljum við flm. frv., að sú skipan, sem hér er ráðgerð, sé líklegust til að bjarga frá eyðileggingu fornum byggingum og munum, sem við teljum, að eftirsjón væri að.

Þetta mál er að vísu ekkert stórmál. En ef frv. þetta verður að l. og þar með væru tryggðar þær framkvæmdir, sem frv, ræðir um, þá kæmi mér ekki á óvart, að niðjar okkar eftir t. d. 200 ár mundu minnast þeirra manna með þakklæti, sem stuðlað hefðu að því, að menn þá hefðu beinlínis tækifæri til þess að kynnast og sjá með eigin augum húsakynni og lifnaðarhætti forfeðra sinna. Við, sem nú lifum, mundum vissulega telja okkur standa í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem hefðu komið því til leiðar, að það hefði verið varðveitt, þótt ekki hefði verið nema ein bygging, t. d. hús á einu höfuðbóli okkar frá því um 1600 eða á 16. öld. Við mundum vera þakklátir þeim mönnum, sem stuðlað hefðu að varðveizlu húsa og muna frá þeim tíma, sem hefðu gefið okkur hugmynd um lifnaðarháttu og störf þeirra manna, sem þá lifðu og störfuðu. Gæti það einnig orðið svo í framtíðinni, að mönnum seinni tíma þætti mikill fengur í því að kynnast á þann veg lífi og starfi forfeðra sinna. Og ég tel, að við eigum ekki að meta svo lítils þann arf í þessum efnum, sem við höfum tekið við og margir okkar þessara eldri höfum búið við, að við eigum að fleygja því eins og einhverju fánýti og gera ekkert til að varðveita það.

Ég vænti svo, að málinu verði vel tekið og því að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.