28.02.1947
Efri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

66. mál, menntun kennara

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. Barð., að samkv. 38. gr. eigi að vera fullkominn búrekstur í sambandi við húsmæðrakennaraskólann, en gert er ráð fyrir, að fyrirkomulagið verði svipað og verið hefur í því efni. Enn fremur þarf hv. þm. ekki að vera kvíðinn, að ég komi með kröfur á fjvn. í sambandi við skólahús, en ég vona, að hann sýni skilning í sambandi við fjárveitingar til menntamála yfirleitt, eins og hann hefur reyndar sýnt áður, og breytist það að sjálfsögðu ekki, þótt ný stjórn sé setzt að völdum, þar sem hann er stuðningsmaður hennar eins og hinnar fyrrv. stjórnar.

Þá vildi ég aðeins segja það viðvíkjandi skólanefndunum, að mér er kunnugt um, að skólastjórar vildu engar skólanefndir hafa, og þykir mér það leitt í sambandi við þetta frv. Þessir skólastjórar hafa góða hæfileika, en allmikil stoð ætti þó að verða í skólanefndunum. Ég vona því, þó að frv. verði samþ., að góð samvinna verði á milli skólastjóra og skólanefnda og að það verði skólunum til góðs.

Ég vil svo biðja hv. d. afsökunar á því, að ég þarf að fara á fund, en það ætti að vera saklaust, því að aðalatriði þessa máls hafa þegar komið fram.