11.03.1947
Efri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

191. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það virðist vera nauðsyn, einkum og sér í lagi vegna fjárhagsþarfa ríkissjóðs, að gera ráðstafanir meðal annars til þess að fá meira fé í ríkissjóð fyrir sölu á tóbaki en hingað til hefur átt sér stað. Í l. frá 1943 er heimild til þess að leggja á 150% tóbakstoll. Hefur þessi heimild verið notuð að fullu leyti. En ef hafa á meira fé á þennan hátt, er ekkert ráð fyrir hendi annað en að leita eftir heimild frá hv. Alþ. um það að hækka þessa álagningu. Hér er farið fram á, að heimilt sé að hækka álagninguna úr 150% upp í 250%. Þar með er ekki sagt, að sú heimild verði notuð að fullu, heldur eins og hæfilegt þykir. Tóbakssala hefur aldrei verið eins mikil og á síðasta ári. Mér er sagt, að það hafi verið selt fyrir 30 millj. kr. á s. l. ári. En þá verður maður að gæta þess, að það er ekkert smáræði af tóbaki, sem flutt hefur verið út úr landinu á því tímabili, bæði löglega og ólöglega. Það hafa verið fyrir hendi ákaflega margar leiðir til að koma þessari vöru út, t. d. með útlendingum, fiskiskipum, sem gengið hafa á milli, og á annan hátt. Þetta ástand er mjög breytt frá því í fyrra, svo að gera má ráð fyrir lægri söluupphæð nú í ár, þótt ekki sé tekið tillit til nema þessarar staðreyndar. Ég ætla ekki, að það þurfi að hafa hér um fleiri orð. Þetta mál hefur þegar gengið í gegnum hv. Nd. Ég vil mælast til við þessa hv. d., að málið fái afgreiðslu nú, einkum vegna þess, að þörf er á að koma nokkrum tóbakstegundum á markaðinn, sem liggja hér í geymslu, en er að verða vöntun á í landinu. En forstjóri tóbakseinkasölunnar segir, að örðugt sé að standa á móti því í marga daga að láta vöru koma á markaðinn, sem vöntun er á, úr því hún sé komin til landsins. Við þetta bætist svo það, að borið hefur á því, að menn leggi meira kapp á en áður að afla sér þessarar vöru. Það styður að því, að ef Alþ. fellst á annað borð á að fara þessa leið, sem ég tel réttmæta, þá viðhafi það fljótar aðgerðir við breytingu verðlagsins. Ég vildi svo geta þess, að málið er flutt af hv. fjhn. Nd. Mér finnst óþarft, að það fari í n. hér, því að annaðhvort leyfir Alþ. þessa breytingu á l. eða ekki. Vænti ég því þess, að málið geti haldið viðstöðulaust frá umr. til umr. í dag, þar til yfir lýkur.