24.01.1947
Neðri deild: 58. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

132. mál, dýralæknar

Flm. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er tekið til meðferðar, er flutt af okkur nokkrum þm. og er flutt samkvæmt áskorun frá Búnaðarsambandi Skagfirðinga, Snæfellinga og Dalamanna. Samkv. þessu frv. á að færa fjölda dýralækna úr 6 í 8, og sú fjölgun verði á þann veg, að vesturhluti Norðurlands, Skagafjörður, Húnavatnssýsla, Snæfellsnes og byggðir við Breiðafjörð verði sérstök dýralæknisumdæmi.

Tilefni til þessarar áskorunar er mjög mikil þörf bænda fyrir aðstoð dýralæknis, sem að allmiklu leyti stendur í sambandi við stóraukna mjólkurframleiðslu og mjólkurvinnslu, sem er að koma upp, t. d. í Skagafjarðarsýslu, og er nú verið að undirbúa í Austur-Húnavatnssýslu. Sömuleiðis er það svo, að eftir því sem verðlag hækkar á búpeningi, eftir því finna menn meira til þess, þegar menn missa skepnur fyrir þær sakir einar, að ekki er hægt að fá hæfa menn til að liðsinna þeim. Nú er hátt verð á mörgum búpeningi, og er því illt fyrir bændur, ef þeir geta ekki fengið aðstoð dýralæknis, svo að gagn sé að, ef þörf krefur.

Á það hefur líka verið bent sem rök fyrir þessari nauðsyn bænda, að í Skagafirði hefur sýslufélagið talið þetta svo mikla nauðsyn fyrir héraðið, að enda þótt sýslan hafi vitanlega og búnaðarsambandið hafi í mörg horn að líta, að því er fjárgreiðslur snertir, þá hefur það lagt á sig allmikil útgjöld á sinn mælikvarða til að launa mann, þó að hann sé ekki lærður, til að sinna þessu starfi.

Það getur ekki farið hjá því, þegar þessi héruð bera fram óskir sínar, að þau beri sig saman við nágrannahéruðin, t. d. Eyjafjörð, sem hefur sams konar þörf í þessum efnum og hefur fulllærðan mann án þess að kosta til nokkrum eyri. Þetta finnst þeim héruðum, sem hafa jafnmikla þörf fyrir aðstoð dýralæknis, misrétti, sem þau geti ekki unað.

Ég skal taka fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að því miður er svo ástatt, eftir því sem yfirdýralæknir hefur tjáð mér, að nú er ekki kostur a. m. k. á innlendum dýralæknum til þess að fylla þessi embætti, en það er líka sleginn sá varnagli, að ef héruðin óska þess og kostur er á manni, sem yfirdýralæknir telur, að þessum héruðum gæti orðið að verulegu gagni, þá sé heimilt að fela honum störf dýralæknis um stundarsakir fyrir einhverja þóknun; sem samkomulag yrði um. Þetta er a. m. k. spor í rétta átt, og menn mundu eftir atvikum geta sætt sig við þessa skipun, þar til úr rætist og við getum fengið innlenda menn með fullkomna læknismenntun til að sinna þessum störfum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Ég tel, að fyrir þessu liggi þau sömu rök og þegar dýralæknisembætti voru stofnuð hér á landi. Ég tel líka, að Alþ. geti ekki skotið sér undan að sinna þessum eðlilegu og sjálfsögðu kröfum, sem eru hér fram bornar í þessu frv.

Ég vænti þess, að d. taki þessu frv. vel, og legg til, að því verði vísað til landbn. Mig minnir, að slík mál hafi verið fyrir landbn. áður.