25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

147. mál, vegalög

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. hafa séð á nál. á þskj. 550, þá hef ég verið einn af þeim nm., sem hef skrifað undir nál. athugasemdalaust. Það kann þess vegna að þykja skrýtið og jafnvel óviðfelldið, að ég sé að bera fram brtt. við þetta frv., af því að ég hef lagt til, að það verði samþ. óbreytt. En ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt. á þskj. nr. 567, er sú, að hæstv. menntmrh., 1. þm. S-M., mæltist til þess í gær, að ég flytti þessa brtt., ekki eiginlega sem brtt., heldur miklu frekar sem leiðréttingu við veg, sem hér er tekinn upp í frv. Brtt. er um 20. tölul. í D-kafla frv., sem er um Austurland. Þar stendur í frv. „Mjóafjarðarvegur: Af Fagradalsbraut sunnan við Köldukvísl um Eyvindardal, Slenjadal og Mjóafjarðarheiði að Firði í Mjóafirði.“ En ég legg til, að í stað orðanna: „að Firði í Mjóafirði“ komi: að Brekku í Mjóafirði. Ég er að vísu ekki kunnugur í Mjóafirði. En ég hygg, að sú lenging, sem leiða mundi af samþykkt þessarar brtt., sé ákaflega óveruleg. Ég hygg, að það sé stutt leið frá Firði í Mjóafirði að Brekku, og þess vegna sé hér ekki um nema smáræði að ræða. En hitt veit ég, að meðan útgerð var í Mjóafirði, mun hún aðallega hafa haft bækistöð sína á Brekku, og þess vegna hygg ég, að brýn ástæða sé til að ákveða endamark þessa vegar frekar hjá Brekku en hjá Firði. — Ég hafði sjálfur hér í þessari hv. d. flutt tvær brtt. við vegal., eftir að aðrir höfðu riðið á vaðið og flutt brtt. hér, og önnur þessara brtt. hefur verið tekin upp í hv. Nd. og er komin inn í þetta frv., eins og það liggur hér fyrir nú. Ég hefði gjarnan óskað þess, að báðar þessar brtt. mínar hefðu verið teknar til greina, og það var vitanlega auðvelt að flytja brtt. hér. En ég er hv. frsm. sammála um það, að það sé ekki rétt að gera margar brtt. hér, þar sem búið er að samþykkja nokkuð af brtt. í hv. Nd. og það gæti verið hættulegt afgr. frv., ef brtt. væru samþ. verulegar hér í hv. d. nú. En ég mælist til þess, að þessi smávægilega brtt., sem ég hef hér flutt samkv. tilmælum hæstv. núverandi menntmrh., 1. þm. S-M., verði tekin til greina og samþ.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um Hvalfjarðarferjuveginn. Mig vantar algerlega kunnugleika til þess. En ég get verið honum sammála um það, að ef svo er, sem ég hef ekki heyrt fyrr en nú, að þessari nýju Hvalfjarðarferju og veginum í sambandi við hana fylgir svo feikna mikill kostnaður sem hann sagði, þá geti verið full ástæða til að athuga það mál betur, áður en lögfest eru ákvæði um það mál. En þetta er mér ókunnugt mál. Og hvað, sem vera kann, hefði ég ekki trúað því, að þessi kostnaður gæti verið svona mikill, því að þeir, sem hafa athugað veginn um Hvalfjörð, vita, að vegurinn að ferjustaðnum báðum megin er ákaflega stuttur, svo að mér þykir þetta vera merkilegar upplýsingar, ef vegurinn kostar svona mikið.