11.12.1946
Efri deild: 31. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

41. mál, skipulag og hýsing prestssetra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég tók svo eftir hjá hv. frsm. þessa máls, að til muni vera einhver n., sem heiti skipulagsn. prestssetra. Hún mun hafa verið til nokkur undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir, eftir því sem hv. flm. fórust orð, að þá sé þessari n. ætlað að afla þeirra upplýsinga, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir að fá, og sennilega þá líka dæma um það, sem um þarf að dæma, eftir að þær upplýsingar eru fengnar, en það er m. a., hver af núverandi prestssetrum séu vel til þess fallin að vera aðsetur prests í framtíðinni, hvert sé æskilegast undir vissum kringumstæðum að færa prestssetur, og gera skipulagsuppdrætti að þeim prestssetrum, sem líkleg eru talin sem prestssetur í framtíðinni. Ég er á móti þessu. Í fyrsta lagi er ekki stafur um það í l., hvernig þessi n. á að vera skipuð, og veit ég ekki, hverjir eru í henni nú eða hvernig hún hefur starfað né eftir hvaða heimild hún er skipuð. Ég man þetta ekki, man ekki eftir, að Alþ. hafi skipað hana eða hún sé skipuð eftir neinni lagaheimild neins staðar frá. Ég tel því, að það fyrsta, sem gera þarf í þessu máli, sé það að ákveða, hvernig brauðasamsteypan verði. Ég álít ekki, að andleg þörf einhverra úti um byggðir landsins sé svo brýn, að hvarvetna séu prestsseturshús, en um allt land svo að segja, að Reykjavík einni undantekinni, er lengra að sækja lækni en prest. Það liggur áreiðanlega, fyrir í næstu framtíð að fækka prestsembættunum og steypa saman brauðunum, og þá er engin ástæða til að byggja prestsseturshús á brauðum, sem rétt strax eiga að leggjast niður. Þetta er það fyrsta, sem ég hef að athuga við frv. í heild.

Annað er það, að í raun og veru eru það þrjár stéttir manna, sem hið opinbera er skyldað til að sjá um húsnæði fyrir. Ég segi þrjár, en þær geta verið fjórar. Ég tel presta, lækna og sýslumenn, en það mætti vel bæta við skólastjórum, því að farið er að byggja yfir þá suma að nokkru leyti. Hvaða ástæða er til þess að láta sína hverja reglu gilda um þessa menn? Hvers vegna ekki að hverfa að því ráði að búa til ein sameiginleg l. um embættismannabústaði alls staðar? Hvers vegna að hafa sérstök l. um presta, önnur um sýslumenn og þau þriðju um lækna? Hvers vegna ekki heldur gera ein sameiginleg fyrir allar þessar stéttir. Það hef ég talið það bezta og væri mér næst skapi að vísa málinu í heild sinni frá til ríkisstj. með rökst. dagskrá í því trausti, að hún undirbúi almennalöggjöf um embættismannabústaði. Ég mun þó ekki gera það á þessu stigi málsins, heldur við 3. umr.

Þá vil ég vekja athygli á því, að ýmsir þær upplýsingar, sem biskupsskrifstofan hefur gefið, eru beinlínis rangar, af hverju sem það stafar. Það er t. d. rangt, þar sem talað er um Hofssókn, að byggja eigi á Hofi, því að þar hefur aldrei verið prestssetur, þó að sóknin hafi verið kennd við Hof. Presturinn hefur setið á Sandfelli, en ekki Hofi. Þetta er kannske bezta dæmið. Þá er og mjög villandi í þessari upptalningu þar sem talað er um úr hvaða efni núverandi prestsseturshús eru byggð. Má í því sambandi t. d. nefna prestsseturshúsið í Hvammi í Laxárdal. Það var byggt úr timbri, en ekki torfi. Mætti nefna fleiri dæmi í þessu sambandi.

Ég mun á þessu stigi ekki skipta mér af frv., en mun við næstu umr. koma með rökst. dagskrá um það, að málinu verði vísað til ríkisstj. og fyrir hana verði lagt að semja frv. um byggingar og opinbera embættismannabústaði. Hvort sem um er að ræða presta, lækna eða sýslumenn, þá er sjálfsagt að láta sömu reglu gilda um alla embættismannabústaði og ekki vit í öðru.