27.02.1947
Efri deild: 81. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

140. mál, sala Böggvisstaða í Svarfaðardal

Bernhard Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir það, að hún hefur afgr. þetta mál og mælir með því, að frv. verði samþ.

En um brtt. þær, sem n. gerir, er það að segja, að ég get vel á þær fallizt. Ég sé nú ekki beint að vísu, að sú breyt. að taka það fram, að jarðeignin verði seld eftir mati dómkvaddra manna, sé nauðsynleg. Ríkisvaldið hafði þetta í sinni hendi samkv. frv., hvernig salan færi fram. Önnur breyt., sem í brtt. n. felst, um það, að Dalvíkurhreppur sé skyldur til að selja ríkinu aftur jörðina undir mannvirki, sem ríkið léti reisa, er í samræmi við það, sem ákveðið var um svipað mál á Sauðárkróki, og er ekki nema gott um það að segja. Það er eðlilegt og sjálfsagt, og fellst ég ákaflega vel á þetta. Þriðja breyt., sem felst í brtt. frá n., er sú, að Dalvíkurhreppi sé skylt að kaupa af ábúanda Böggvisstaða hús hans á jörðinni við ábúendaskipti eftir mati, ef öðruvísi semst ekki. Við þessu er ekkert að segja annað en það, að það stóð til að gera þetta. Það var aftalað, að húsin á Böggvisstöðum yrðu keypt af ekkjunni, sem þar býr. Það gerir auðvitað ekki til, þó að þetta sé einnig í l., en það breytir sem sagt engu.

Samkv. þessu get ég ákaflega vel sem flm. fellt mig við þessar brtt. hv. landbn. og endurtek þakklæti mitt til hennar fyrir afgreiðslu málsins.