18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

84. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti. Þetta mál er komið hingað til þessarar hv. d. frá hv. Nd. og er flutt af sjútvn. þeirrar deildar. Frv. fór fram á breyt. á nokkrum ákvæðum l. um atvinnu við siglingar, sem voru samþ. á hv. Alþ. 23. apríl s. l. ár. Skólastjóri stýrimannaskólans taldi nauðsyn að breyta þeim ákvæðum, sem þá voru gerð, m. a, af þeim ástæðum, að menn, sem sigldu á skipum undir 30 rúml., hafi ekki getað öðlazt þá reynslu við siglingar sem þyrfti til þess að komast inn á stýrimannaskólann. En í reglugerð skólans segir, að þeir megi setjast í skólann, þegar þeir hafa siglt í 24 mánuði af þeim tíma, sem l. um atvinnu við siglingar ákveða. Vegna þessa er þetta frv. flutt. En sjútvn. þessarar d. taldi ekki nógu örugglega frá þessu gengið í hv. Nd., og þess vegna vill hún gera á frv. þá breyt., að til þess að komast inn í skólann og fá þetta skírteini, verði sá maður að hafa verið í 36 mánuði á skipum, sem eru stærri en 12 rúml., og þar af a. m. k. 18 mánuði á skipum stærri en 30 rúml. og af þeim 18 mán. að minnsta kosti í 6 mánuði á stærri skipum en 60 rúml. Við viljum láta miða við skip, sem eru 12 rúml. eða stærri, því að þau er hægt að lögskrá. Hér hefur aðeins verið tekið fram um lágmarkið og að það væru skip, sem skylt er að lögskrá.

N. óskar eindregið eftir, að þessar breyt. verði gerðar á frv. nú og munu hv. dm. vera henni sammála um það, svo að þær ættu ekki að þurfa að tefja málið eða verða til þess að fella það, og vildi ég fyrir hönd n. mælast til þess, að frv. verði samþ. með þessum breyt.