03.02.1947
Neðri deild: 65. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

152. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. segir, að Samábyrgðin láni ekki út fé. Ég veit, að hún borgar ekki út lánsfé, en það er staðreynd, að hún á mikið útistandandi í gjaldföllnum kröfum og er þar af leiðandi orðin lánsstofnun. Hv. frsm. segir, að skipaeigendur fái gjaldfrest hjá félögunum og að þau standi ekki í skilum við Samábyrgðina, en hún hefur aðgang að þeim. Mér skilst, að til þess að ráða bót á þessu þurfi að herða ákvæði laga um innheimtu, og er ástæða til að taka það til athugunar í sambandi við frv. það, sem var til umr. næst á undan þessu og fór til 2. umr. áðan. Hv. frsm. er vantrúaður á, að hægt sé að ráða bót á þessu ástandi. En það ætti að vera hægt með því að setja strangari ákvæði um innheimtu iðgjalda. Ég veit ekki betur en að skylt sé að vátryggja bifreiðar og þarf þá að greiða iðgjöld fyrir fram fyrir vissan tíma í senn. Ekki verður annað séð en að auðvelt sé að láta hið sama gilda um skip og láta greiða fyrir fram. Fá félögin þá vátryggingarfé á, réttum tíma, og ríkið kemst hjá að hækka stofnféð, til þess að hægt sé að halda við óeðlilegri lánastarfsemi. Ekki svo að skilja, að Samábyrgðin ætti að hafa iðgjöldin hærri. Ég legg áherzlu á, að vátrygging skipa sé rekin þannig, að ríkið þurfi ekki að halda henni uppi með fjárframlögum.