27.02.1947
Neðri deild: 82. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. er um breyt. á l. nr. 93 frá 1942, um að reisa nýjar síldarverksmiðjur, og mun þetta vera í þriðja sinn, sem um er að ræða breyt. á þessum l., því að áður hefur þeim tvisvar verið breytt.

Það er nú orðið alllangt síðan frv. var hér síðast á dagskrá, en þá vakti ég athygli á ósamræmi í þeim upplýsingum, sem fyrrv. atvmrh. hefur gefið um þetta mál. Á síðasta Alþ., eða í apríl 1946, var hér flutt frv. af atvmrh, um 7 millj. kr. viðbótarlánsheimild vegna nýrra síldarverksmiðja, sem þá var verið að reisa, þannig að lánsheimildin yrði 27 millj. í stað 20 millj., sem áður voru heimilaðar. Í grg., sem fylgdi þessu frv., var svo frá skýrt, að framkvæmdir væru það vel á veg komnar, að séð yrði, hvað kostnaður væri mikill við verkið, og hann talinn 27 millj., og þetta féllst Alþ. á og samþykkti frv. En sex til sjö mánuðum síðar koma þessir sömu aðilar með ósk um, að heimildin verði hækkuð um hvorki meira né minna en 11 millj., eða upp í 38 millj. Sú n., sem ráðh. skipaði til þess að sjá um þetta verk, hefur skýrt frá störfum sínum í bréfi til fjhn., dagsettu 30. nóv. 1946, og látið fylgja með til bráðabirgða yfirlit, og er það að finna á þskj. 193 með frv. Frv. þetta var upphaflega flutt af fjhn. eftir ósk ráðh., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að hafa óbundnar hendur við atkvgr. um málið. Síðan hafa farið fram nokkrar athuganir á frv. í nefndinni, og hefur meiri hluti hennar ekki gefið út nál., en hins vegar hef ég gefið út nál., sem er að finna á þskj. 414. Ég hef drepið þar á það ósamræmi, sem fram hefur komið í þessu máli, og önnur atriði við framkvæmd verksins.

Í bréfi því, er áður er um getið, og meðfylgjandi bráðabirgðayfirliti kemur það í ljós, að n. hefur samið við hlutafélag hér í bæ, sem nefnist Almenna byggingafélagið, um að það sæi um byggingar á umræddum verksmiðjum og aðrar framkvæmdir byggingarlegs eðlis. Samkv. upplýsingum n. hefur þetta félag haft skrifstofur á báðum byggingarstöðunum, og auk skrifstofumanns hefur það haft einn yfirverkstjóra á hvorum stað. Eftir reikningsyfirliti hefur þetta félag fengið 800 þús. kr. fyrir umsjón með verkinu, eða 400 þús. kr. frá hvorri verksmiðju. Í þessu eru falin laun þessara tveggja starfsmanna á hvorum stað, en að öðru leyti mun þessi þóknun vera fyrir yfirumsjón þessa og aðra fyrirhöfn, og virðist það ríflega greitt og meira en þurft hefði. Þá hefur þessi byggingarnefnd haft í sinni þjónustu einn mann á hvorum stað til þess að líta eftir framkvæmdum byggingafélagsins og auk þess mann til að líta eftir vélum á Skagaströnd. Skrifstofu- og nefndarkostnaður, laun umsjónarmanna, ferðakostnaður, teikningar o. fl. er tun 450 þús. kr. Ekki hefur fjhn. fengið nánari sundurliðun á þessu, en byggingarn. upplýsir í bréfi nýverið til fjhn., að laun byggingarn. muni vart verða meiri en 1/5 hluti þessarar upphæðar. Hvernig hinu er þá varið, liggja ekki upplýsingar fyrir um, en eins og ég hef bent á, segist n. hafa haft þrjá menn, meðan á framkvæmdum stóð til eftirlits á þessum stöðum fyrir norðan og þar að auki einn mann á Skagaströnd um tíma til að líta eftir vélum og enn fremur einn mann enn á skrifstofu í Reykjavík vegna þessara verksmiðjubygginga. En hvað mikill hluti þessarar upphæðar er laun aðstoðarmanna, ferðakostnaður eða fyrir teikningar, sem þar eru nefndar sem útgjaldaliður, skal ég ekki segja, en þess má geta í þessu sambandi, að n. upplýsir, að hjá sér liggi krafa frá Almenna byggingafélaginu á annað hundrað þús. kr. fyrir teikningar. Vill félagið fá þetta greitt fyrir teikningar til viðbótar við upphæðina, sem ég nefndi áðan, að það hefði fengið í umsjónarlaun, og nam 800 þús. kr. Hins vegar hefur n. gert ágreining um þessa kröfu, og skildist mér, að ekki væri búið að greiða Almenna byggingafélaginu þessa upphæð.

Mér sýnist, að það hefði mátt spara eitthvað talsvert af þessari upphæð. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa að sjálfsögðu skrifstofur á Siglufirði, þar sem aðsetur þeirra er aðallega: Mér skilst, að það hefði verið hægt að komast hjá í sambandi við þessar framkvæmdir að setja upp sérstaka skrifstofu vegna þeirra. Fleira kemur þar til greina, sem vafalaust hefði verið hægt að haga á annan hátt til þess að gera yfirstjórn framkvæmdanna ódýrari.

Þá er það einnig kunnugt, að mjög mikið af vinnu við þessar framkvæmdir hefur verið framkvæmt utan dagvinnutíma, en nú er kaupgjald í eftirvinnu 50% hærra en í dagvinnu og í næturvinnu og helgidagavinnu 100% hærra en dagvinnukaup. Fjhn. óskaði fyrir löngu eftir upplýsingum um það, hvað eftirvinna, næturvinna og helgidagavinna væri mikil við þessar framkvæmdir, og hefur fengið bréf frá byggingarn., dags. 17. febr., þar sem birt eru sundurliðuð vinnulaun við verksmiðjuna á Skagaströnd, þ. e. a. s. það er aðeins upplýst um þá vinnu, sem Almenna byggingafélagið lét framkvæma. Hins vegar hafa engar upplýsingar borizt um framkvæmdir þessa félags á Siglufirði og ekki heldur um þá vinnu, sem framkvæmd var af hinum aðalverktakanum, vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík. En samkv. upplýsingum byggingarn. um þessar framkvæmdir Almenna byggingafélagsins á Skagaströnd nema aukagreiðslur vegna eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu þar um 590 þús. kr. Byggingarn. segir að vísu í þessu sambandi, að hún hafi fengið fyrirmæli um það frá fyrrv. hæstv. ráðh. að koma þessari verksmiðju upp fyrir síldarvertíð 1948 og haga sínum framkvæmdum í samræmi við það. En það er hins vegar ljóst, að það var fyrirsjáanlegt þegar snemma á s. l. ári, snemma vors, að ekki mundi vera hægt, þrátt fyrir það að mikið var unnið í eftir- og næturvinnu, að koma báðum verksmiðjunum upp fyrir síldarvertíð, og um þetta mun hæstv. ráðh. hafa fengið umsögn frá stjórn síldarverksmiðja ríkisins í marz 1946. Í byrjun marzmánaðar 1946 mun stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafa látið uppi það álit við fyrrv. hæstv. atvmrh., að hægt væri að hafa aðra verksmiðjuna tilbúna í byrjun síldarvertíðar með því að láta hana sitja fyrir um efni, vélar og vinnuafl, og stjórn síldarverksmiðjanna kveðst hafa gert um þetta rökstuddar till. til hæstv. ráðh. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. ekki tekið þessar till. verksmiðjustjórnarinnar til greina, og var því, eftir því sem upplýst er, unnið við báðar þessar verksmiðjur, þótt fyrirsjáanlegt væri, að þar með gæti hvorug þeirra orðið tilbúin fyrir síldarvertíð. Ég tel því, að það hafi ekki verið heppilegt að láta vinna svo mikið við þessar byggingar í eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu, því að það hefur að sjálfsögðu aukið byggingarkostnaðinn mjög verulega.

Af þessu, sem ég hef hér bent á og fram er tekið í mínu nál., þá tel ég það vera ljóst, að við þessar framkvæmdir hefur eyðzt miklu meira fé en þurft hefði að vera. Það hefur sínar alvarlegu afleiðingar fyrir síldarútveginn, því að eftir því sem stofnkostnaður verksmiðjanna er meiri og þar af leiðandi afborganir og vextir af stofnkostnaði hærri, eftir því er það minna, sem útgerðarmenn og sjómenn geta á hverjum tíma fengið fyrir sínar afurðir.

Nú er sennilega þýðingarlítið um þetta að tala. Það er komið, sem komið er, og verður fráleitt hjá því komizt að borga þennan kostnað, eins og hann er orðinn. Það mun því ekki um annað að gera fyrir menn en samþykkja þessa hækkun á lántökuheimildinni, sem farið er fram á í frv. En ég tel, að þessi framkvæmd og saga hennar öll sé þannig, að hún eigi að vera til viðvörunar í framtíðinni, svo að meiri hagsýni verði gætt við þær framkvæmdir af þessu tagi og aðrar, sem ríkið hefur með höndum, en hér er um að ræða, því að enn er eftir að reisa nokkrar síldarverksmiðjur samkv. þessum l., á Sauðárkróki, Hólmavík og Húsavík, og væntanlega verður hægt að koma upp þessum verksmiðjum, áður en langt um líður. Og þá tel ég þýðingarmikið, að haganlegar verði að þessu unnið en hér hefur verið gert, svo að verksmiðjurnar verði ekki dýrari en þörf er á.

Ég sé svo ekki ástæðu, nema tilefni gefist til, að fara fleiri orðum um þetta mál, en get látið nægja að vísa til þeirra gagna, sem hér liggja fyrir, bæði í frv. sjálfu og mínu nál.