29.04.1947
Efri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður hefur tekið fram mikið af því, sem ég vildi segja, og mun ég því aðeins hafa þetta örfá orð. Það, sem ég vildi vita hjá ríkisstj., er það, hvort hún telji ekki sjálfsagt, að þetta mál yrði gaumgæfilega rannsakað. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að fá rannsakað, hvort maður hefur í umboði allrar ríkisstj. marglogið að Alþ. vísvitandi eins og fyrrv. atvmrh. hefur gert undanfarin ár, eða hvort hann gerir það í góðri trú og aðrir menn, ekki góðir, sem hann hefur sett í þessa frægu byggingarstjórn verksmiðjanna, skrökva. Það liggur ekki fyrir, á hverju þessi áætlun hefur verið byggð á hverjum tíma, og er þeim mun meiri ástæða til að rannsaka þetta, þar sem þessi sami leikur hefur verið leikinn í fleiri málum, t. d. eins og ferjumálinu á Hvalfirði. Þar var byrjað að telja ríkisstj. trú um, að kostnaðurinn yrði 800 þús., en síðan hefur það farið hækkandi stig af stigi og er nú komið yfir 2 millj. Ég vil biðja um rannsókn á þessu máli, sem hér liggur fyrir. Það hefur enginn maður talað hér í d., sem reynir að bera eitt orð í bætifláka fyrir öllum þeim kostnaði, sukki og margháttaðri óreglu, sem þarna hefur átt sér stað. Hverjum er það að kenna? Það vil ég láta rannsaka, jafnvel þótt það verði ekki byrjað á sakamálsrannsókn. Um það skal ég ekkert segja, hvort svo yrði á þessu stigi málsins, en þjóðin á heimtingu á að fá að vita, í hverju svona mistök liggja hjá mönnum, sem skipaðir eru í trúnaðarstöður. Reynist t. d. þessi byggingarn. hafa blekkt hæstv. fyrrv. ráðh. og hann svo Alþ., þá er hennar sökin, og þá á þjóðin að sýna þeim mönnum fyrirlitningu. En sé það hæstv. fyrrv. ráðh., sem hefur leikið sér að því að blekkja þingið með röngum upplýsingum, á hann að mæta sömu fyrirlitningu og hvorki að vera endurkosinn sem alþm. né til neins annars. Þetta vildi ég fá rannsaka,ð. Og ég tel þetta reyndar ekki vera einasta fyrirbærið, sem hefur átt sér stað einmitt hjá fyrrv. ríkisstj., sömu tegundar, þótt þetta sé það stórkostlegasta. En ég vil fá svona hluti lagða þannig fyrir, að menn geti gengið úr skugga um það, hvar mistökin liggja. Þessi n. mun hafa verið valin eftir blindri pólitík og án tillits til þess, hvort mennirnir voru hæfir til starfsins, og er trúlegt, að um mistök geti verið að ræða hjá slíkum mönnum. Ég vil því spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún hugsi sér ekki að láta rannsaka þetta allt ofan í kjölinn, hverjir eigi þarna sökina og að hverju leyti hún hvíli á hverjum einstökum. — Hitt er annað mál, að þrátt fyrir þessi mistök mega ekki þeir menn, sem ætla sér að stunda síldveiðar í sumar og þurfa á síldarbræðslu að halda, gjalda þessa með því að koma hvergi síld sinni í bræðslu, og því mun vera nauðsynlegt að veita þessa heimild, sérstaklega þó líka með tilliti til þess, að þessi mál eru nú komin í hendur manna, sem maður býst við, að hafi meira vit á þeim og meiri ábyrgðartilfinningu en þeir, sem í því hafa staðið og öll þessi mistök hafa gert. Ég mun því greiða atkv. með þessari heimild, en vil fá upplýst, hverjum þessi mistök eru að kenna.