05.05.1947
Efri deild: 125. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

230. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Eins og nál. sjútvn. ber með sér, hefur n. athugað frv. og er sammála um, að frv. nái fram að ganga. Ég skal geta þess, að einn nm., hv. 1. þm. Reykv., var fjarstaddur vegna veikinda, þegar n. afgreiddi málið.

Okkur nm. virtist það sjálfsagt, að þessar hafnir yrðu teknar inn í hafnarlögin, jafnvel frekar en ýmsar, sem þar eru. Borðeyri er ein elzta verzlunarhöfn á landinu, og er þar ágæt höfn, en skilyrði vantar til þess að afgreiðsla skipa sé þar þægileg, og því er það sanngjarnt, að hún fái styrk frá hinu opinbera til hafnarbóta. Höfnin þarna er ein af beztu höfnum landsins, en bryggjur skortir. Mér er ekki kunnugt um það, hvort skilyrði eru þarna það góð, að þægilegt sé um skipaafgreiðslu, en bátabryggju er fullkomlega sanngjarnt, að hi8 opinbera styrki.

Um hinn staðinn, Óspakseyri, er mér miður kunnugt. En ég geri ráð fyrir, að þar séu svipuð skilyrði og á Borðeyri Þar er höfn góð. Þetta er í stuttum og djúpum firði og skilyrði í alla staði hin beztu.

Það mun hafa verið fyrir vangá eina, að þessar hafnir féllu út í fyrra, þegar hafnarlögin voru til. umr., og sjálfsagt að bæta úr því nú.

En svo er það auðvitað á valdi fjárveitinga-valdsins á hverjum tíma, hvenær fé verður veitt til þessara framkvæmda, en ekki er ástæða til að ræða það nú. En svo sem ég áður sagði, eru nm. allir sammála um, að frv. nái fram að ganga.