10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég þykist vita, að hv. þm. sá, sem síðast settist niður, sé ánægður með það að hafa komið að þeim persónulegu meiðingum, sem hann hafði í fórum sínum, og hafi því viljað fá mig hingað til að hlusta á sig. Ég harma það ekkert, þó að hv. þm. fengi þetta tækifæri til að koma að einu af klámhöggum sínum, hann er þekktur að því að vinna hér klækiverk. Þar á meðal hefur hæstv. forseti d. orðið fyrir slíku, svo að ég er ekki svo mikill fyrir mér, að ég gæti vænzt þess að sleppa algerlega við innræti þessa hv. þm.

Þegar maður hlustar á þær fordæmingar á þessum tekjuöflunarleiðum, sem þessi hv. þm. hefur hér í frammi og heitstrengingar um það, hvað vitlaust sé að halda áfram að borga niður dýrtíðina, þá er það undarlegt, að þessi hv. þm. skuli hafa fylgt fyrrv. stj. allan þann tíma, sem hún sat, þar sem hún hafði sömu stefnuna hvað þetta snertir. það getur verið, að hann hafi tölt á eftir henni með hnífinn í hendinni, en hann taldist ekki opinber andstæðingur þeirrar ríkisstj. eða þessarar aðferðar, sem þá var viðhöfð. Annars verður það sjálfsagt alltaf matsatriði, og fæst að minni hyggju seint niðurstaða á því, sem öllum þætti rétt, á hvern hátt eigi að berjast við dýrtíðina og verðbólguna. Ef einn stingur upp á þessu, þá fordæmir annar það. Þó að hver ríkisstj. eftir aðra hafi þrætt þessa leið, sem ég er ekki að lofa á neinn veg, þá er hún nú farin og hefur verið farin síðan utanþingsstjórnin tók við völdum hér. Sú stj., sem hv. þm. taldi sig fylgjandi, gerði þetta sama, og meðan ekki eru önnur úrræði fyrir hendi, þá virðist verða að koma í veg fyrir ofsalega hækkun á vísitölunni á þennan hátt. Ég man það, að á þeim tíma, sem utanþingsstj. sat að völdum, þá vitnaði þáv. fjmrh. í það, að stórþjóð eins og t.d. Bretar reyndu að vinna á móti dýrtíðinni á þennan hátt. Nú hef ég ekki lýst yfir, að þetta væri annað en bráðabirgða- og örþrifaráð, en þetta örþrifaráð hafa aðrir notað á undan þessari stj. Það er því ástæðulaust að hella úr skálum reiði sinnar, þó að hún gripi til þess, eins og yfir er lýst, til þess að forða bráðum vandræðum.

Og í tilefni af ummælum hv. 6. þm. Reykv. vildi ég segja, að hann talaði eins og vita mátti. Það er ekki von, að svoleiðis sakleysingja og honum, sem hvorki er á blettur né hrukka, né þeim, er þeir umgangast mest, — það er ekki von, að honum eða hans líkum liði vel í félagsskap eins og mínum. Það sæmir ekki prestlærðum manni eins og þessum hv. þm. að umgangast syndara, og ég get vorkennt honum að vera kenndur við svarta sauði eins og mig, og það hlýtur að vera áreynsla fyrir hans hvítu, hreinu sál að hafa mig svo nálægt sér. En af því að hann blandaði hér inn í umr. firma, sem ég á lítinn hlut í, en starfa þó ekki við, þá get ég sagt honum, að hann, eins og fleiri, leggst lágt, þegar hann baknagar þetta firma fyrir hluti, sem vitað er, að framkvæmdir hafa verið af öðrum og liðnir af yfirvöldunum, er réttir menn hafa átt í hlut. Það er engin nýlunda að safna umboðslaunum þannig til að brúka þau til kaupa, og ef það væri svartasta syndin, þá væri líklega margt öðruvísi hjá okkur, en það er. Hv. 6. þm. Reykv. má vel slá því á mig, sem hann hefur nú gert, ég ber það vel. Í fyrsta lagi hef ég ekki haft persónuleg afskipti af því fyrirtæki,. sem hann nefndi og um er að ræða. og í öðru lagi get ég þess til samanburðar, að það atferli, sem hv. þm. var að vita, er ekki talið brot á lögum eða talið brjóta í bága við almennt velsæmi í öðrum löndum, en hér er gerður úlfaþytur út af því, ef eitthvert firma safnar saman umboðslaunum sínum erlendis, og talað er um það eins og það sé hið eina brot, sem til er.

Annars. varðandi ummæli hv. 6. þm. Reykv. um firmað S. Árnason & Co., þá er það svo, að í máli þess er enn þá enginn dómur fallinn, og það er heldur löðurmannlegt af hv. þm.. þótt einhver sé settur undir rannsókn, að hlaupa upp með það hér á Alþ. eins og sökin væri sönnuð, og hefði hann vel getað beðið með slík ummæli, unz dómur er fallinn í málinu. Ég veit, að í þessu tilfelli er um mjög lága fjárhæð að ræða, sem útlendingur í þjónustu firmans átti að nokkru leyti, en fékk að hafa í banka á firmans nafni.

Þá kem ég að ummælum hv. 6. þm. Reykv. varðandi gróðann af svarta markaðinum. Hann áleit, að ríkið ætti að hagnýta sér þann gróða. En ef svartur markaður er ljótur verknaður af einstaklingum, vínsala og þess háttar á svörtum markaði, þá get ég ekki séð, að rétt sé af ríkinu að afla sér tekna þannig. Ég veit, að það eru ekki bara einstök tilfelli með svona hluti, þeir eru víða til í þjóðfélaginu. eða það, sem kalla má, að heyri undir ólöglegan gróða eða svartan markað. A.m.k. virðist almennur ótti við seðlainnköllun benda á, að það sé ekki aðeins ein stétt eða einn flokkur manna, sem hafi á samvizkunni að hafa eignazt það, sem ekki er löglega fram talið.

Hv. þm. var að lýsa eftir eignakönnuninni, hvað henni liði. Ég get frætt hann um, að það mál er í undirbúningi, og þó að það fylgi ekki hér með, er gert ráð fyrir, að það komi fram, en ekki er nauðsynlegt að láta bráðnauðsynlega tekjuöflun fyrir ríkið bíða eftir því. Hv. 6. þm. Reykv. er formaður í stóru kaupfélagi, sem engum dettur í hug að setja á bekk með venjulegum bröskurum, eins og hann kallar aðra verzlunarmenn, en ég þykist vita, að hann skilji, að þótt ekki væri nema af tæknilegum ástæðum, verður að hraða slíku máli gegnum þingið.

Heitið, sem þessi hv. þm. velur verzlunarstéttinni. er afætur. Það er orðið. sem hann notar, það eru mannréttinda- og samtakapostularnir. sem þannig tala. Ég þykist ekki vera neinn sérstakur talsmaður verzlunarstéttarinnar, en hún hefur verið nídd svo utan þings og innan, að ég álít komið út í öfgar, og ég er ekki viss um nema sumir niði hana vitandi vits í því skyni að villa um almenning með því að kenna heildsölunum og verzlunarstéttinni um allt, sem aflaga fer í verðlagsmálum. Það er svo fjarri því, að sú stétt eigi sök á dýrtíðinni öðrum fremur, að menn hljóta að segja slíkt í annarlegum tilgangi. Vel má vera, að hér vinni allt of margir að verzlunarstörfum, en það er atvinnufrelsi í landinu og ríkisvaldið selur réttindi til að verzla. Ég veit ekki betur, en hver maður, sem hefur óflekkað mannorð, geti keypt verzlunarleyfi, og meðan ekki er hætt að selja slík réttindi og veita mönnum aðgang að þeirri starfsemi, þá standa þeir höllum fæti, sem fordæma það, hve margir séu í verzlunarstéttinni. Ég hef áður sagt það — og segi það enn, að dýrtíðarvandamálið verður ekki leyst nema með fórnum. sem allir taka þátt í. Í ýmsum tilfellum eru þær fórnir ekki raunverulegar (þó að við teljum, að svo sé), þegar um fleiri aðila er að ræða, því að ef báðir eða allir slaka til, þá fórnar enginn raunverulega neinu. Það er stefnan út úr vandræðaástandinu. það verður að slaka til frá mörgum hliðum í senn til að komast á skynsamlegan grundvöll í atvinnumálunum.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á því, að ég skyldi tala um launaþræla hjá ríkisbáknum. Það má e.t.v. segja það öðruvísi. Tökum t.d. vínverzlunina eða einhverja aðra ríkisstofnun. Er honum ekki kunnugt um, að menn hafa jafnvel staðið upp frá búum sínum og gerzt launamenn þar? Það vill gjarnan verða svo, að menn sækjast eftir að komast að slíkum stofnunum og fleygja meira að segja frá sér sjálfstæðri atvinnu í því skyni.

Varðandi ummæli mín um gerðardómslögin er það að segja, að ég talaði þar ekki fyrir aðra, en ég er ekki myrkfælinn við að játa, að ég álít heppilegra, að vinnudeilur séu leystar með gerð, en skæruhernaði, eins og gert var á sínum tíma, sérstaklega af hálfu sósíalista. Ef gerð, og samkomulag byggt á henni, væri leiðarstjarna þjóðarinnar í deilumálum yfir höfuð. ekki neitt sérstaklega í vinnudeilum, heldur yfirleitt, og gert væri út um málin að yfirsýn beztu manna, þá værum við staddir betur á brautu nú en við erum í ýmsum málum, sem valda okkur vandkvæðum og torvelt er að ráða fram úr. Ég er því ekkert hræddur við það, þó að hv. þm. hendi á lofti, að ég aðhyllist gerðardóm, gerðin er einmitt rétti vegurinn á milli þess, er menn halda fram. er þeir deila.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara út í ræðu hv. 6. þm. Reykv.