19.05.1947
Neðri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

253. mál, embættisbústaðir dómara

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ég vil leiðrétta það, að því miður er það svo, að hæstaréttardómaraembætti eru ekki þau mest eftirsóttu embætti þessa lands. Þó að það séu ágætir menn, sem þau embætti skipa nú, þá varð að taka í þau menn, sem voru um þrítugt og höfðu tiltölulega litla æfingu, vegna þess að það voru ekki nógu margir af hinum eldri og reyndari lögfræðingum í embættismannastétt eða málfærslumannastétt, sem sóttu um þessi helztu embætti í lagastétt. Þessi embætti þykja mjög virðuleg og sæmd að vera í þeim, en þau eru ekki eftirsótt, og það getur verið, að menn telji sig neydda til að hverfa frá þeim, ef ekki verður betur að þeim búið en gert hefur verið, — svo að þarna kom líka fram algerður misskilningur hjá hv. þm.