26.03.1947
Efri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (3608)

148. mál, vatnsveitur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil taka strax fram, að ég er dálítið hræddur við till., ef fram kæmi, líka þeirri, er hv. 6. landsk. hefur boðað. Það eru mýmörg dæmi um einstaklingaveitur, sem í sumum tilfellum eru gamlar og ófullnægjandi og ná til hluta af kauptúni, sem er hluti af hreppsfélagi. Ef slíkar gamlar veitur eiga að fá sama rétt og heildarveitur sveitarfélaga, þá geta þær um ófyrirsjáanlega framtíð staðið í vegi fyrir, að hægt sé að koma á heildarveitu fyrir sveitarfélag eða þorp. Það er vel hugsanlegt, ef þarna er sett inn í frv., að vatnsveitufélög skuli hafa sama rétt og sveitarfélög, þá taki 10–15 menn sig saman um að mynda slíkt félag, leggi vatnsveitu um hluta þorps, en vilji ekki taka á sig kostnað af að leggja um allt kauptúnið og standi þess vegna í vegi, að hægt sé að koma á fullkominni veitu. Það væri einkennilegt, ef ætti að gefa gömlum, úreltum og ófullkomnum vatnsveitum, sem ekki uppfylltu heilbrigðiskröfur, fullkomin réttindi og láta þær standa í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum þessara mála.

Viðvíkjandi dæminu um Glerárþorp vil ég segja, að eftir að slíkt frv. sem þetta er orðið að l., gæti ég ekki skilið mótiveringu hreppsn. fyrir að standa í vegi fyrir, að hluti hreppsins gæti orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem hér er um að ræða, því að þá gæti ekki verið um að ræða nema skilningsleysi eða fullan fjandskap.