06.12.1946
Neðri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (3771)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Ég er nú nokkuð undrandi yfir þeim umr., sem spunnizt hafa út af þessu frv. hér við 1. umr., og það er fjarri því, að við tveir flm., sem töluðum hér lítils háttar, er frv. var lagt fram, gæfum tilefni til þess, að svo langar umr. yrðu um frv. á þessu stigi málsins. Þessu máli hefur verið tekið með svo miklu ofstæki og ofstopa, að furðu sætir. Ég þarf ekki að leiða rök að þessum ummælum, það gerði hv. þm. Borgf. svo rækilega í ræðu sinni um daginn. Sýndi hann fram á, hvílíkt gerræði það væri að ætla sér að vísa málinu frá á fyrsta stigi þess með dagskrártill. Aðalrök þeirra manna, sem að þeirri till. standa, eru þau, að þessi 1. séu svo ný, að ekki sé rétt að bera fram till. til breyt. á þeim. En hvaða rök mæla gegn því, að 1. sé breytt á næsta þingi, eftir að þau eru sett, ef sú breyt. hefur fengið þinglega meðferð og athugun í n., en það vilja þessir menn nú hindra? Þetta er nú hreint ekki dæmalaust, að 1. sé breytt á næsta þingi, eftir að þau eru sett. Fyrir þessu þingi liggja t. d. frv. um breyt. á 1., sem sett voru á síðasta reglulegu þingi, t. d. frv. til 1. um breyt. á tryggingalöggjöfinni.

Ég ætla nú ekki að fara að svara öllu, sem ástæða væri til að svara í ræðum hv. þm. A-Húnv., hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. S-Þ., því ég óska fremur eftir því, að þær umr. fari fram á síðara stigi málsins hér í hv. d. Þá mun ekki standa á okkur flm. að ræða málið ýtarlega, en að svo stöddu er það ástæðulaust með öllu, því að ég er viss um, að frávísunartill. hv. 2. þm. Rang. nær ekki samþykki, það væri til vansæmdar fyrir þessa hv. d. og nær engri átt.

Mér hnykkti við, er hv. þm. A-Húnv. talaði um það í ræðu sinni með miklum rosta eins og einvaldsherra, að þýðingarlaust væri að ræða þetta mál hér, það væri tilgangslaust, þar eð vitað væri fyrir, hvernig um það færi. Þessi ummæli tel ég ekki sæmandi, sízt þegar þess er gætt, að það er forseti Sþ., er lætur þau sér um munn fara. Og þegar talað er um, að ekki megi vekja óþarfa deilur um þetta mál hér, þá er mér spurn : Er ekki Alþ. einmitt sá vettvangur, sem jafna ber deilurnar á? En á þetta mál hefur aldrei mátt minnast, jafna deilur í því og komast að einhverri lausn.

Hv. þm. V-Sk. flutti dagskrártill. á síðasta þingi, þar sem lagt var til að vísa málinu — það er búnaðarmálasjóðsmálinu, hvernig tekjum sjóðsins skuli varið — heim til búnaðarfélaganna og láta fara fram atkvgr. um það þar. Þessi till. var bæði skynsamleg og rökrétt hugsuð, og á hana hefði hv. Alþ. átt að fallast. Þetta mátti þá ekki nefna sökum ofstopa þeirra, sem á móti voru, og það sýnir bezt ótta þeirra við það, hvernig fara mundi, ef málinu væri vísað til búnaðarfélaganna. Mér virðist því nú, er Alþ. hefur fellt jafnsanngjarna till., að ekkert geti verið fjarstæðara en að þingið vísi þessu máli frá sér, án þess að það sé einu sinni rætt í n. Og hvar ætti málið að lenda, ef þannig væri farið með það? Það er skylda Alþ. að varðveita eðlileg lýðræðisréttindi þegnanna og frjáls félagssamtök í landinu og heppilega uppbyggingu þeirra og veita aðstoð sína, er félagssamtök leita til þess um úrræði. Þetta er skylda æðsta varðar laga og lýðræðis í landinu, Alþ. sjálfs.

Hér hefur legið fyrir þinginu frv. til 1. um breyt. á 1. um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem hlutazt er til um atkvæðisrétt í félögunum og innri mál þeirra. Verkalýðsforkólfarnir hafa sterklega mótmælt þessu frv., og íhlutun af hálfu Alþ. sem sú, er þar er talað um, finnst mér ekki koma til mála móti vilja verkalýðsfélaganna, að blanda sér þannig í innri mál þess félagsskapar, er á að vera frjáls af þeirri íhlutun, af því hann vill það. En jafnsjálfsagt er hitt, er frjáls félagsskapur í landinu leitar til Alþ. til úrlausnar á málefnum sínum, að Alþ. leitist þá við að veita þá úrlausn. Hv. þm. S-Þ. taldi það fjarstæðu að innheimta búnaðarmálasjóðsgjaldið á þann hátt, er við leggjum til, sökum þess að bæjarflokkarnir, eins og hann sagði, væru í meiri hl. á Alþ. En það eru ekki þessir flokkar, sem vinna gegn þessu máli eða sýna því andúð, og þessi rök hv. þm. eru furðuleg, því ef til vill er það hann sjálfur, sem er foringi þeirra, sem berjast gegn því, að sjóðurinn verði slíkur, sem honum var í upphafi ætlað að verða, ásamt þeim hv. þm. A-Húnv. og 2. þm. Rang. Þetta eru raunverulega þeir, sem hv. þm. S-Þ. gæti kallað foringja bæjarliðsins eða bæjarflokkanna í þessu máli. Mér dettur ekki í hug, að hinir raunverulegu foringjar bæjarflokkanna sýni jafnmikið ofstæki í þessu máli og hv. þm. S-Þ. vill vera láta. Slíkt er fjarstæða að ætla. Eins og það er skylt að styðja verkamenn gegn íhlutun um félagssamtök þeirra, er það skylda verkamanna eða fulltrúa þeirra að styðja félagssamtök bænda, er þeir leita aðstoðar Alþ. um þessi samtök sín. Það er óhæfa og óviðurkvæmilegt að brigzla Alþ. um, að það þurfi endilega að sýna ójöfnuð í málinu, þótt það snerti ekki beint mál, sem foringjar bæjarflokkanna eru umboðsmenn fyrir.

Ég tel sérstaka ástæðu til að mótmæla þeim ummælum hv. þm. S-Þ. og hv. 2. þm. Rang., að ekki hafi verið leitað til búnaðarfélaganna um það, hvernig búnaðarmálasjóðsgjaldinu skuli varið. Þetta er alrangt. Frv. um búnaðarmálasjóð var ásamt grg. sent öllum búnaðarfélögum landsins, og þar var greinilega tekið fram, hvernig verja ætti þessu fé í þarfir landbúnaðarins, og þetta var gert í tíma, áður en fulltrúar voru kjörnir til búnaðarþings. Þetta er því ekki annað en ein rökleysa andstæðinga þessa frv., er liggur hér fyrir til umr., og sýnir hún bezt það ofstæki, sem beitt er í þessu máli, er vill kæfa málið í fæðingunni.

Vinur minn hv. þm. S-Þ. óskaði oft eftir því í ræðu sinni, að ég gæfi upplýsingar um eitt og annað, en ég verð að segja, að ég fann ekkert nýtt í þeirri klukkutímaræðu, er hann hélt hér. Ég hef svo oft heyrt hann flytja alveg sömu ræðuna á pólitískum fundum, búnaðarfundum, og átta til tíu útgáfur hef ég séð af henni í Ófeigi. Hann gat því sparað sér að flytja hana hér enn þá einu sinni. En því miður, verð ég að segja, af því mér er vel við þennan hv. þm., hefur hann orðið því einangraðri, því oftar sem hann hefur flutt ræðu sem þessa, og mig furðar ekki á því, að ræðuflutningurinn hafi leitt til þess. Það, sem hv. þm. virtist helzt vilja fá upplýsingar um, var það, hvort gjald til stéttarfélaga hefði yfirleitt nokkurn tíma verið innheimt með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir. Það skiptir raunar ekki miklu, hvort fordæmi er fyrir þessari aðferð, en þó má benda á, að í nágrannalöndum okkar, t. d. í Noregi, er slíkt gjald innheimt eftir stærð jarða, miðað við bústærð og tekið af jörðinni eða framleiðslunni, á líkan hátt og við hugsum þetta, en ekki sem nefskattur eins og tíðkast t. d. í verkalýðsfélögunum.

Ég vil leggja áherzlu á það, að bændur sjálfir leggja á sig þetta gjald, og það er því óhæfa og öfugmæli er hv. þm. S-Þ. segir, að þetta fé sé sótt í ríkissjóð. Þetta er alrangt. Þetta fé fer aldrei í ríkissjóð. Bændur leggja sjálfir á sig þetta gjald, taka það hjá sjálfum sér. Hin einu afskipti ríkisins af því eru þau, að ríkisstofnun innheimtir það, en það er ekki tekið úr ríkissjóði, því þangað fer það aldrei. Og að ætla Alþ. að misbeita valdi sínu í þessu efni er óhæfa og getsakir í þess garð, er ég vil ekki sætta mig við.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara að ræða um skipulag Búnaðarfélags Íslands við hv. þm. S-Þ., vin minn, Jónas Jónsson. Við höfum svo oft rætt um það mál áður, og ég veit, að hann hefur fengið grillur í hausinn um þetta, sem þýðingarlaust er að reyna að hrófla við. Ég hef svo oft heyrt hann segja sömu söguna, að búnaðarfélagið væri að leysast upp, það væri ekki annað en deild úr stjórnarráðinu, o. s. frv. Þetta er ekki rétt. Búnaðarfélagið er sjálfstætt félag, er ríkissjóður eflir að starfsfé, eins og fleiri félög. Það er hins vegar rétt, að hér áður fyrr voru gerðar samþykktir hér á Alþ., er sviptu þetta félag sjálfstæði, t. d. má í því sambandi nefna setningu jarðræktarl. En ég held, að þessi bönd hafi verið horfin af félaginu fyrir 10 árum síðan, eða um tveimur árum eftir, að ég varð framkvæmdarstjóri þess. Síðan hefur ekkert verið gert af hálfu Alþ. eða ríkisstj. til að skerða sjálfstæða starfsemi félagsins. Enginn landbrh. hefur síðan gert neitt til að hindra eðlilega þróun og eðlilegt sjálfstæði búnaðarfélagsins, og þetta segi ég jafnt um alla, sem verið hafa í þessu ráðherrastarfi síðan. Það er því útúrsnúningur einn að vera að tala um þessa hluti nú, ósjálfstæði búnaðarfélagsins og þess háttar. Það er sögulegt, en snertir ekkert það, sem gerist í dag. En mér getur ekki annað en komið í hug, er hv. þm. er sífellt að ala á því, að búnaðarfélagið sé aðeins deild úr stjórnarráðinu, það sé ekkert félag o. s. frv., hvort hann sé nú ekki að undirbúa herferð ásamt undirforingjum sínum, þeim hv. þm. A-Húnv. og hv. 2. þm. Rang., á hendur búnaðarfélaginu til að leysa það upp, að sínu leyti eins og þessir menn hafa undirbúið herferð í því máli, sem hér er nú til umr. Ég segi ekki, að svo sé, en það er ómögulegt annað en láta sér detta það í hug í sambandi við slíkan málflutning, því Búnaðarfélag Íslands er nú sjálfstæðara en það hefur nokkru sinni verið áður.

Það væri í sjálfu sér ástæða til að ræða hér margt fleira, en ég geri það nú ekki við 1. umr. málsins. Mér þykir eðlilegra að geyma það, unz málið er komið úr n. og búið er að athuga, hvort ekki næst frekar samkomulag um það nú en í fyrra. Þá var hér bent á heppilega leið til úrlausnar, ef Alþ. hefði tekið henni með sanngirni, en ekki ofstopa og ofstæki, og nú beita sumir sér enn þá fyrir því, að málinu verði ekki á þinglegan hátt vísað til 2. umr. og nefndar.