28.02.1947
Neðri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (4293)

180. mál, fávitahæli

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til að bera nokkuð af því til baka, sem hv. flm. hefur talað varðandi nauðsyn þessa máls. Þessi nauðsyn var fyrir hendi löngu áður en frú Guðrún heitin Lárusdóttir flutti sitt frv. árið 1936. Var þetta viðurkennt af Alþ. með því, að samþ. var að reisa fávitahæli, jafnskjótt og fé væri til þess ætlað á fjárl. Hins vegar tel ég það skyldu mína að benda hv. flm. og þeirri n., sem málið fær til meðferðar, á, að eigi að bæta nýjum útgjaldapósti á þau fjárl., sem fyrir liggja, þá er það ekki kleift, nema því aðeins, að um leið séu gerðar ráðstafanir til þess að kippa út úr fjárl. einhverjum af þeim útgjaldapóstum, sem þar eru, og ég verð að segja, að mættu vel víkja fyrir jafn, miklu nauðsynjamáli og hér liggur fyrir. Upp á síðkastið hefur það oft viðgengizt hér á Alþ., og ætla ég ekki að mælast undan að hafa tekið þátt í slíku, að þm. samþykki löggjöf um eitt og annað, sem bindur ríkinu útgjaldabyrði, sem ekki reynist svo fært að standa við. Í mörgum greinum hefur hér verið við hafður allt of mikill hraði. Ég vil t.d. benda á, að til þess að fullnægja kröfum l. um barnaskóla eina nú við afgreiðslu þessara fjárl. mun til þess þurfa 7 millj. kr. Það er aðeins til barnaskólanna, en svo koma þar á eftir framlög til gagnfræðaskóla í sveitum og kaupstöðum, og eru það margar millj. kr. Ég drep aðeins á þetta til þess að sýna, hvernig ástandið er. Hér var um daginn verið að afgreiða frv. til l. um hýsingu prestssetra, sem hefur stórkostlegan kostnað í för með sér fyrir ríkið. Þess vegna vil ég mæla það til n. þeirrar, er mál þetta fær til athugunar, að ef n. vill taka undir óskir flm. um það, að á þessu þingi verði tekið upp á fjárl. framlag til þess að byggja fávitahæli, þá geri hún ráðstafanir til að fella niður úr fjárlagafrv. eitthvað annað, sem bæði ríkisstj. og hv. flm. vilja sætta sig við, í staðinn fyrir þetta, og mun ekki af veita. Ég bið hv. flm. að taka þetta engan veginn sem andúð til málsins af minni hendi, þótt ég segi eins og er. Ég álít, að mér beri skylda til þess að lýsa fyrir honum og öðrum þeim vandkvæðum, sem hér eru á ferðinni. Á þeim tímum, þegar þetta mál var til meðferðar í þinginu, var ég einn af þeim, sem veittu því brautargengi, og gerði ég það enn, ef ég teldi fært að hrinda því í framkvæmd, eins og hv. þm. óskar. En hitt má Alþ. taka til athugunar, að hér er á mörgum sviðum lögfest að leggja út í mikinn kostnað af almannafé til fyrirtækja, sem þó eru engan veginn eins aðkallandi og það, sem um ræðir í þessu frv.