31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

47. mál, sauðfjársjúkdómar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér ásamt samþm. mínum. hv. 1. þm. Skagf., eina litla brtt., sem er aðeins um það að breyta samheiti þessara þriggja fjárpesta, sem rætt er um í þessum l. Við leggjum hér til, að í staðinn fyrir „sauðfjársjúkdómar“ komi: fjársóttir. Það má kannske segja, að orðið sauðfjársjúkdómar sé fullalgengt orð til þess að tákna þessa þrjá sérstöku fjársjúkdóma, og er það þá það eina, að því er mér skilst, sem að því yrði fundið. En með því að breyta þessu á þann veg, sem við leggjum til, þá er hjá þessu sneitt. Þetta orð er mikið notað og ég hygg, að það geti fyllilega komið í staðinn fyrir hitt orðið sem samheiti þessara sjúkdóma.

Um brtt. hv. þm. A-Húnv., sem hann tók réttilega fram, að ekki hefði verið borin upp í n., þá vil ég geta þess, að ég mun greiða henni atkv., nafnið fer fullt eins vel og það, sem fyrir var.

Ég þarf svo ekki að ræða um þetta meir, því að n. er sammála um þau atriði, sem hann gerði að umtalsefni.