14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (4429)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig undrar sérstaklega tvennt í málafærslu hv. 1. þm. Reykv. Annars vegar virðist honum ókunnugt um, af hverju frv. um búnaðarmálasjóð kom fram á Alþ., og hins vegar virðist 1. umr. málsins í Nd. alveg hafa farið fram hjá honum. Hann talar um, að það hafi ekki staðið í sambandi við stéttarsamtök bænda, af því að þau væru seinna til komin en frv. um búnaðarmálasjóð. Ég ætla að rifja þetta upp fyrir hv. 1. þm. Reykv., þó að ég hefði ekki talið, að þess þyrfti. Hann minnist kannske þess, að gerðar voru tilraunir til þess að mynda stéttarsamband bænda, landssamband bænda, sem kallað var. Á fjárl. var sú stofnun látin hafa 2000 kr., ef ég man rétt. Þessu landssambandi bænda var ætlað að yfirtaka stéttarmál bændanna, sérstaklega allt, er lýtur að verðlagi og sölu landbúnaðarafurða, og þannig starfaði það á meðan það starfaði, en það vantaði fjárhagsgrundvöll til þess að geta starfað. Það hafði aldrei komið sér svo fyrir, að það næði til bænda allra, og þeir, sem í því voru virkir félagar og greiddu gjöld, voru of fáir og greiddu ekki nóg til þess að starfsemin gæti haldið áfram. Svo fór að lokum, að félagið sofnaði í höndunum á einum góðum og gegnum sjálfstæðismanni í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem er ágætur stuðningsmaður fyrrv. forsrh. Þegar svo átök urðu um það, hvernig verðlag skyldi vera á landbúnaðarafurðum, og annað, sem að því laut, fór sjálft Alþ. að heimta, að Búnaðarfélag Íslands, sem er félagsskapur bænda á faglega eða fræðilega sviðinu, léti í ljós álit sitt, og einmitt af því, að það starfar á faglegum grundvelli, nýtur það styrks ríkissjóðs. Búnaðarfélagið hafði aldrei skipt sér af verðlagsmálum landbúnaðarins og ætlaði sér ekki að gera það. Það var byrjað á því að setja dýrtíðarlöggjöfina, hversu mikið landbúnaðarafurðir skyldu greiddar niður, skyldi ákveðið í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Búnaðarfélaginu kom þetta ekkert við sem fagfélagi, og það ætlaði sér ekki að fara út í þessi viðkvæmu deilumál, og það mátti það ekki, því að það starfar fyrir ríkisfé. Árið eftir var svo aftur komið til búnaðarþings og heimtað, að það segði álit sitt í þessum efnum. Þá var mönnum ljóst, að það yrði annaðhvort að endurreisa landssamband bænda, sem þá var dautt, eða stofna stéttarsamband bænda til þess að sameina bændur og fá greiðslur frá þeim til þess að standa undir útgjöldum, sem aldrei gátu orðið borin uppi af ríkissjóði. Þá var frv. um stofnun búnaðarmálasjóðs borið fram á Alþ. með það fyrir augum, að þaðan gæti stéttarsambandið fengið tekjur. Þetta eru tildrögin til hans og engin önnur, en þetta virðist hafa farið fram hjá hv. 1. þm. Reykv. Þó kom þetta fram í ræðu hæstv. núv. landbrh. í Nd. nú alveg nýlega. Nú, þegar hv. þm. heyrir þetta, býst ég við, að hann skilji kannske frekar tilganginn með frv. og þörfina fyrir stéttarsamtök bænda til þess, að þeir komi fram rétti sínum.

Hv. 1. þm. Reykv. heldur því fram, að miklu minna sé að marka vilja bændanna gegnum samþykktir búnaðarsambandanna en í gegnum síðustu alþingiskosningar — nema frá Búnaðarsambandi Suðurlands. Þar hafi verið samþykkt „með miklum meiri hluta,“ eins og hv. þm. sagði, að mæla með bæði l. um búnaðarmálasjóð og búnaðarráð. Ja, sá fylgist nú vel með málunum, þessi hv. 1. þm. Reykv. Á fundi Búnaðarsambands Suðurlands voru, þegar þetta var samþykkt, 3 menn, sem voru í stjórninni, og það var samþ. á stjórnarfundi, en aldrei á félagsfundi, og þetta samband er eitt af öllum samböndunum, þar sem stjórnin ein gerði samþykkt til þess að senda frá sér. En hv. þm. segir, að með miklum meiri hl. á fundi Búnaðarsambands Suðurlands hafi þetta verið samþ., en samþykktin kom aðeins frá stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, sem í eru 3 menn. Þeir samþykktu það, og með miklum meiri hl., af því að þeir voru þar allir. En í hinum samböndunum voru haldnir fundir, þar sem ekki aðeins stjórnin mætti, en upp úr þeim fundum lagði hann ekkert, en upp úr áliti stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands leggur hann mikið, því að það voru 3 menn, sem á Suðurlandi samþykktu þetta „með miklum meiri hluta“!

Ég held, að hv. fyrrv. landbrh. verði að fá sér kennslutíma í þessu, til þess að reyna að setja sig inn í þessi mál, svo að hann viti, hvað hann er að segja. Hann veit ekkert um, hvernig þessar samþykktir eru til komnar. Hann sagði, að ég hefði sagt, að bændur gerðu leik til þess að verzla við verzlanir, sem lægju utan við búnaðarsambandssvæði þeirra. Það var fjarri mér að segja slíkt. Ég benti aðeins á þær staðreyndir, að sums staðar eru verzlunarstaðir bænda utan við það búnaðarsambandssvæði, sem þeir búa á. Ég gæti nefnt dæmi um slíkar aðstæður víðs vegar frá. Hann sagði, að vandalaust væri að ráða bót á þessu, en hann hefur þó setið 2 ár á ráðherrastóli meðan þessi l. giltu, og ekki tekizt að leysa þann vanda, og lagalega séð gat hann það ekki, því að ekkert er í l., sem skyldar viðkomandi aðila til þess að segja til um, hvar bændur leggi inn vörur sínar. Hv. þm. Dal. gat þess, að bændur í nágrenni við hann verzluðu á 3 búnaðarsambandssvæðum. Það er ekki á því, að þeir vilji það endilega, heldur af því, að þannig liggja atvikin fyrir í lífinu. Þessu virðist hv. l. þm. Reykv. Engan gaum gefa, og telur vandalaust að ráða bót á því.

Þá segir hann, að ekkert væri léttara fyrir búnaðarþing að skipta þessu fé, sem inn kæmi eftir l., heldur en fyrir ríkisstj. Ja, hvað hefur ríkisstj. með þetta fé að gera? Það er orðrétt sagt í l.: „Sjóður þessi skal vera í vörzlu Búnaðarbanka Íslands, sem hefur á hendi stjórn hans og reikningshald. Fé sjóðsins skal um næstu 10 ár skipt á milli búnaðarsambanda landsins í réttu hlutfalli við það. sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum.“ Ekki eitt aukatekið orð um það, að ríkisstj. eigi að skipta þessu fé. Svo segir hv. fyrrv. ráðh., að eins hægt sé fyrir ríkisstj. að skipta þessu eins og fyrir búnaðarþing. Þetta er tóm endileysa, sem hv. fyrrv. ráðh. var að tala. Meira að segja svo mikil endileysa, að það lítur út fyrir, að hann viti ekki, hvernig l. um búnaðarmálasjóð eru í þessu sambandi. — Ég veit ekki, hvort ég á að elta ólar lengur við hann um þetta. Það segir sig sjálft, og hann veit það vel og sagði það reyndar nú, þó að hann héldi öðru fram í gær, að aldrei, ekki einu sinni þegar kjósa á um breyt. á stjskr., snúast alþingiskosningar um eitt mál. Það er að vísu ætlazt til þess, þegar stjskr. er breytt, að kosningar séu um það, en það er aldrei að kosningin takmarkist við eitt mál. Kjósandinn verður að gera það upp við sig, hvaða málum hann er mest fylgjandi. Það er fjarstæða að segja það, að kosningar sýni vilja þjóðarinnar í einu af mörgum málum, sem deilt er um í kosningabaráttunni. Kosningarnar síðustu sýndu ekkert, hvað bændur vildu gagnvart þessari löggjöf. — Ekki vott, það er alger misskilningur. Ég sagði í gær — og endurtek það nú —, að með framkvæmd l. um búnaðarmálasjóð, eins og þau voru og eru nú, þá er framið hróplegt ranglæti. Bændur eru allir látnir borga í búnaðarmálasjóð, og því fé er svo skipt eftir því, hvar þeir hafa selt vöruna og hverjir hafa keypt hana af þeim, og með því er tekið fé frá ýmsum mönnum í landinu og lagt í sjóð annarra manna, og með skiptingu á sjóðnum, sem gert er ráð fyrir í l., er ekki tekið tillit til þess, hvers bændur þarfnast af fé sjóðsins. Þess vegna er það til stórra báta, þegar búnaðarþingsmönnum er ætlað að skipta helming sjóðsins. Búnaðarþing mun þá skipta því fé, sem nú skiptist milli sambandanna, eftir allt öðrum reglum, sem miðaðar eru við þarfir bænda og taka tillit til margra hluta, en ekki með tilliti til þess, hver lætur féð af höndum. Það er skiljanlegt, að hv. 2. þm. Árn. sárnaði, þegar ég benti honum á það, að eftir því, sem ég bezt fæ séð, er það ekki annað en hrein og klár eigingirni, sem kemur tveim stórum búnaðarsamböndum til að vera meðmælt því, að l. um búnaðarmálasjóð haldist óbreytt. Annars vegar er það búnaðarsambandið, sem fær mest af promille gjaldinu af öðrum búnaðarsamböndum, því að þau síðar nefndu neyðast til að selja vöru í umdæmi þess. Hins vegar er það búnaðarsamband, sem haft hefur, fyrir rás viðburðanna, mesta sölumöguleika, og hefur þess vegna fengið mest úr ríkissjóði til þess að styðja að sinni framleiðslu og stendur þess vegna betur að vígi en önnur búnaðarsambönd og hefur þess vegna mestar siðferðislegar skyldur til þess að styrkja bændur. Þess vegna er raunalegt að heyra, að þessi félög vilji fyrst og fremst sitja að sínu, en ekki rétta neitt til annarra.