17.04.1947
Sameinað þing: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (4730)

53. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta. Ég var aðeins að leggja áherzlu á það, að hv. þm. ætti ekki að setja sig til dóms yfir hæstarétt. Mildunin í refsingunni hjá hæstarétti byggist á því, að hann telur, að verðlagseftirlitið hafi farið rangt að. Ég sagði ekkert um það, hvort hv. þm. eða hæstiréttur hefðu haft rétt fyrir sér, en að öðru jöfnu verður að leggja meira upp úr því, sem dómstólarnir segja, en því, sem einstakir menn segja. Ég hef gert ráðstafanir í dómsmrn. til, að athugun verði gerð á því, hvernig í þessu liggur, og kann þá að koma fram, að viðskiptaráð hafi einhverjar afsakanir. Og ég vona, að um ekkert refsivert hafi verið að ræða. Það haggar þó ekki þeirri staðreynd, að afbrotin voru framin undir nefinu á verðlagseftirlitinu og að verðlagseftirlitið lætur brotið líðast í eitt ár án þess að gera nokkrar ráðstafanir.