11.11.1946
Sameinað þing: 9. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (4832)

46. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika þá ósk hæstv. fjmrh., að máli þessu verði vísað til n., því að það er miklu stærra en mönnum kann að virðast við fljóta yfirsýn. Í fyrsta lagi kemur það til athugunar, að piltar, er nám stunda erlendis, eyða svo misjafnt í námskostnað, þótt á sama skóla séu og við sama nám, að það er sexfalt. Um þetta get ég persónulega borið. Þá er og rétt að benda á það, að farið er að veita námsstyrki mönnum, sem aldrei hafa farið út fyrir landsteinana, og hefur fé verið yfirfært til náms þeirra erlendis, þótt þeir hafi aldrei lagt fram nein vottorð, er sýni, að þeir séu við nám, og ekki nóg með það, heldur hefur slíkt getað viðgengizt allt upp undir 10 ár. Sumir menn hafa fengið háa námsstyrki, en aldrei komið heim með nein próf, heldur svallað ár eftir ár fyrir ríkisfé. Ég álít, að þessi n. þurfi að athuga allt fyrirkomulagið um námsstyrkina og hvernig eigi að koma á eftirliti með því, að ekki sé fleygt námsstyrkjum í menn, sem fara aldrei utan til náms, eða menn, sem liggja í slarki og óreglu erlendis ár eftir ár, sem lesa aldrei neitt og taka engin próf. Eftir að námsstyrkur er veittur, þarf að hafa eftirlit með því, að honum sé varið til náms, en hann ekki hafður að drykkjufé eða fé til þess að ná sér í vörur erlendis frá, og styrkþegar sitji sjálfir hér heima, eins og dæmi eru um. — Ég vil, að þetta mál fari í n. og það sé tekið til meðferðar, á hvern hátt sé hægt að tryggja, að ekki sé fleygt í menn námsstyrkjum, sem þeir hafi aðstöðu til að eyða í svall og þannig geta orðið námsmönnum bölvun ein.