25.10.1946
Sameinað þing: 4. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (4855)

21. mál, verðjöfnunarsjóður

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Það gleður mig, ef reynslan verður sú, sem hæstv. ráðh. vonast eftir, að svo lítið falli til af ærkjöti í ár, að kjötsalarnir sjái sér fært að kaupa þær birgðir, sem fyrir eru og eru meira en eins árs birgðir af ærkjöti til viðbótar því, sem leggst til nú. Það er ágætt, ef þeir hafa þá markaði fyrir vinnsluvöru sína á kjöti, að þeir geti bætt við sig sama sem 460 tonnum til þess að vinna úr, og það 1. fl. dilkakjöti. Ef þetta er rétt, byggist það á því, að ekkert er af ærkjöti í haust.

Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að engin mistök hefðu átt sér stað. Ég er honum ekki sammála í því. Ég álít, að um mikil mistök hafi verið að ræða, og mér er nú ljóst, í hverju þau hafa legið. Mér var það ekki ljóst. Mér var það óskiljanlegt, hvernig menn, sem ættu að vera vel að sér í kjötsölumálum, gætu hugsað sér þetta. En af greinum, sem Guðmundur Jónsson skrifar, verður mér þetta ljóst, því að hann tekur allt ærkjötið og allt dilkakjötið og dregur svo birgðirnar frá og segir svo, að þetta hafi meðalsalan verið á mánuði, en gáir ekki að því, að hann er hér með 422 tonn af ærkjöti, sem búið er að vinna úr, og 295 tonn af dilkakjöti, og miðar birgðirnar 1. maí við þær. Svo reiknar hann út, hvað selzt hafi á mánuði hverjum að sumrinu, og reiknar svo, hver neyzlan muni verða eftir því. Þetta kalla ég mistök. Og að lækka verðjöfnunargjaldið vegna þess, að talið er, að meira seljist mánaðarlega af dilkakjöti en raun bar vitni um, kalla ég mistök. Hvað snertir verð á kjötinu og hvað hægt hefði verið að fá fyrir það, þá ber þeim ekki saman mönnunum, sem hæstv. ráðh. valdi í búnaðarráð. Sveinn Jóns son segir, að hægt hefði verið að fá 5,50 pr. kg., en annar, Aðalsteinn Jónsson, segir, að það mundi hafa verið hægt að fá a.m.k. 5,40 pr. kg. Ég veit ekki, hvor hefur rétt fyrir sér. Hæstv. ráðh. veit það kannske. Þetta kjöt hefði átt að vera búið að flytja út, og það í fyrra haust, og hefði þá mátt spara þá peninga, sem nú er búið að eyða í geymslu, flutninga milli hafna, frystihúsagjald og svo rýrnun, þó að þeir peningar séu ekki miklir í augum hæstv. ráðh., þegar hann er að tala um, að engin mistök hafi átt sér stað. En það er samt sem áður full sanngirni í því að krefjast þess, að bændum verði bætt þetta upp og þeir fái heildsöluverðið greitt, hvaða leið sem farin verður, og það þurfi ekki að verða til þess að lækka næsta árs framleiðslu.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir undirtektir hana í málinu, og er það vel farið, ef hægt er að koma öllu kjötinu upp í heildsöluverð, en það er nauðsynlegt, að það fáist gert upp sem allra fyrst, svo að hægt sé að fara að gera upp við bændur.