12.12.1946
Sameinað þing: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (4916)

268. mál, kvikmyndir og ofdrykkja

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Það hafa komið fram á Alþ. nokkrar till., sem sýna það, að Alþ. hefur áhyggjur af því, að meðferð áfengis er ekki með því lagi hér hjá þjóð okkar sem skyldi. Hér hafa nýlega verið ræddar till. um þessi efni, og mun ég ekki víkja að því efni, heldur aðeins því, sem óhætt er að slá föstu, að drykkjuskapur er það mikill í landinu, eins og líka sýna þær tekjur, sem vínið gefur og eru að vissu leyti skuggahlið á þessu, og svo hins vegar þau margháttuðu leiðindi, sem fólkið hefur af þessari óskynsamlegu nautn áfengis. Ég hygg, þó að ljótt sé frá að segja, að við Íslendingar séum að fá á okkur nokkurt óorð fyrir það, hve illa við förum með áfengi. Og ekki hef ég í næstu löndum, þar sem ég hef farið um, séð jafnleiðinlega meðferð áfengis og hér á sér stað hjá okkur, og ég vil taka það atriðið, sem að vísu er kannske ekki höfuðatriði þessa máls, hvernig vín er notað í veizlum hjá okkur. Ég hef verið víða í veizlum í öllum næstu löndum, þar sem vín hefur verið á borðum, og ég man nú ekki í svipinn eftir, að ég hafi nokkurn tíma séð drukkinn mann þar í veizlum, en það er sjálfsagt til. En veizludrykkja hjá okkur er mikil og leiðinleg, en hún er þó ekki nema partur af hinum almenna drykkjuskap í landinu. Það er ekkert einsdæmi, þegar menn tala um samkomur, þar sem drukkið er. Hér er ekki neinn munur. Þjóðin er öll haldin þeirri óskynsamlegu, sterku þrá að nota áfengi. Af því að við Íslendingar erum nokkuð miklir skapgerðarmenn, þá endar þetta venjulega með því, að þeir, sem áfengi drekka, reyna að láta sem mest bera á sér, en það er ekki það heppilegasta, og verður þessi óvandi því enn þá meira áberandi.

Það hefur verið reynt hér á Íslandi að taka fyrir þessa skaðlegu vínnautn með algeru banni, og vitum við, að það gafst ekki nema að sumu leyti vel. Þjóðin hætti við það af utan að komandi ástæðum. Okkur voru settir tveir kostir, að tapa mörkuðum, sem ekki var hægt að vera án, eða leyfa víninnflutning, og var þá það ráð tekið að hafa nokkurs konar hálfbann, þar sem leyft var að flytja inn létt vín, en sterk vín bönnuð. Slíkar aðgerðir báru þann árangur, að margir fóru að brugga og það með óskiljanlegum krafti, eftir því sem hert var á hömlum með sterku vínin. Þetta sýnir, að það er ekki hægt að fá íslenzku þjóðina til þess að sætta sig við það, sem kalla mætti eðlilegustu meðferð víns, heldur er löngun hennar mest í sterku vínin, sem hafa mest og skaðlegust áhrif. Það má kannske segja, að núv. ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. og bæjaryfirvöldin reyni að gera eitthvað fyrir þessa menn, því að ætlazt er til þess, að þeir séu teknir úr umferð, sem ölóðir eru á götum úti, á samkomum eða heimahúsum, og lögreglan reynir að framfylgja þessu með allmikilli vinnu, þannig að marga nóttina eru hér í bænum teknir af þessum ástæðum um 70 menn, sem eru það drukknir, að ekki er álitið, að þeir eigi að vera á almannafæri. Það er ekki húsakostur til þess að geyma þessa menn, á meðan vínið er að renna af þeim, og það eru óneitanlega hálfhlægileg vinnubrögð, að menn eru settir í þessa geymslu í 1–2 klukkutíma að nóttu og þeim svo sleppt á ný eins drukknum til þess að geta komið lögum yfir að fullnægja réttlætinu. Það er ekki nægilegur húsakostur til þess, að þessir ölóðu menn geti sofið úr sér vímuna.

Þá má minnast á annað dæmi, sem sýnir líka, hve mikið fát er á þeim aðgerðum, sem reyndar eru. Það er hið svo kallaða drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi, og þar hefur verið allmikill tilkostnaður hafður til þess að lækna menn, sem illa eru komnir af ofdrykkju. En þjóðfélagið hefur búið þetta svo undarlega út, að það er gert ráð fyrir, að þessir menn eigi að koma þarna af frjálsum vilja eins og á einhvern menningarstað. Það er ekki hægt að hafa neinn aga þar, því að þarna hafa komið fyrir verkföll og brottgöngur hjá þessum sjúklingum. Þessi tilraun er gerð með svo viðvaningslegum hætti, að slíkt verður aðeins til þess að gera þjóðfélagið hlægilegt fyrir að reyna þetta með svo lélegum meðulum, að ekki dugi.

Það eina, sem að gagni gæti komið þessum mönnum, sem stöðugt eru drukknir sér til tjóns og skammar og öðrum til leiðinda, sem á þá horfa eða þurfa að umgangast, er það, að þeir verði teknir fyrir það að brjóta lög landsins og velsæmi og settir í eins konar fangelsi, það má kalla það spítalafangelsi, þar sem þeir eru undir læknis hendi og verða að vinna og vera jafnháðir fyrirmælum yfirmanna sinna og sjúklingar á spítölum eru undir forráðum lækna sinna. Þar séu þeir, þangað til þeir eru færir til þess að fara sinna ferða í mannfélaginu, en mér er sagt, að stjórnarskrá landsins hindri það, að slíkt aðhald sé hægt að hafa á drukknum mönnum. Ég vildi óska, að lagamennirnir kynntu sér það, sem Lárus H. Bjarnason, sem var mikill lagamaður, sagði á sínum tíma. Hann sagði, að ef Alþ. segði, að eigi að taka einhvern Jón Jónsson af lífi, þá ætti að gera það.

Við vitum, að vínnautnin í landinu er óhófleg, dýr og skaðleg og forráðamenn þjóðarinnar ráða ekkert við hana. Þessi sjúkdómur fer versnandi og engar teljandi varnir til. En nú hafa mönnum dottið ýmsar varnir í hug í þessu efni, og hafa komið hér um það þrjár till., t.d. hefur ein till. verið um skömmtun á áfengi, sem er mjög athyglisverð vegna þess, að í það minnsta í einu landi, Svíþjóð, þar sem hneigðin er mikil til víndrykkju, þá hefur þar tekizt með skömmtun að halda henni nokkuð í skefjum. Það er alvarleg tilraun, sem hægt er að mæla með. En það, sem verður að taka tillit til í landi okkar, er það, að þegar hneigðin eftir víni og það sterku víni er mikil og almenningsálitið er alls ekki þannig, að það dæmi víndrykkju, heldur þvert á móti, þá er ekki til neins að taka stóra sleggju til þess að slá í hausinn á Bakkusi, þótt hann kannske ætti það skilið. Slíkt er a.m.k. ekki hægt, á meðan finnast menn eins og voru í einu prestakalli, þar sem söfnuður tók svari prestsins og sagði: Já, hann drekkur, en við drekkum öll. Söfnuðurinn sagði þetta, af því að presturinn dæmdi hann ekki fyrir það, og fann þar einmitt brúna á milli sín og prestsins.

Ég hef leyft mér hér að flytja till. til þál. um þetta efni, sem ég veit þó, að ekki getur náð fyrir rætur þessa mikla meins, en ég hygg, að ef sú aðferð, sem þar er bent á, yrði notuð, hafi hún mikla möguleika til þess að vinna bót á mörgum leiðindum í sambandi við víndrykkju á almannafæri. Ég tel þann kost á þessari till., að hún er ekki harkaleg. Það er ekki gert ráð fyrir fangelsisvist, ekki gert ráð fyrir sektum, — það er ekkert gert við fólkið. Það er ekki kallað fyrir rétt eða þrengt kosti þess. Ef þessi till. væri samþ. og framkvæmt eftir henni, þá er ekkert gert annað en það, að tekin er prufa af okkur eins og við erum. Ef við erum ódrukkin, sést það á myndinni. Ef við erum lítið drukkin, sést það kannske. Ef við erum mikið drukkin, sést það glöggt. Það er ekki gert annað en að sýna það, sem spurt var um, hvernig maðurinn var. Ég hef hér ekki stungið upp á, eins og einstaka maður hefur spurt mig um, hvers vegna ég vildi ekki sýna þessa mynd á bíó. Það er af því, að mér er það ljóst, að slíkt mundi vera til þess að eyðileggja þessa framkvæmd, vegna þess að þetta er svo mikið útbreidd þjóðarnautn og þjóðarsmán. Það er ekki hægt að gera svo ákaflega mikinn mun á þeim, sem eru sekir og saklausir. Það verður að reyna að fá þá út úr, sem eru brotlegir, án þess að uppræta það, sem er heilbrigt, og það er hægt með þessu móti.

Ég vil benda á með nokkrum dæmum, hve mikil ástæða er til þessa. Í þessum bæ eru margir skemmtistaðir, þar á meðal Hótel Borg og margir aðrir. Ég gizka á, að á mörgum kvöldum séu danssamkomur á 6–7 stöðum í bænum, og á öllum þessum stöðum kemur svo oft fyrir, að drykkjuskapurinn er svo stórkostlegur, að það verður að kalla á lögreglu til þess að skakka leikinn. Það sjá allir, hvernig við stöndum sem þjóð, sem nú er orðin lýðveldi, höfum forseta og erum komin í þjóðabandalagið. Ef einhver kemur til okkar og segir, að íslenzk æska, sem á að bera lýðveldi okkar, er svo á vegi stödd, að á þeim 6–7 skemmtistöðum hennar verður hún að fá lögregluna til þess að skakka leikinn, þegar hún er að skemmta sér, — já, getum við þá svarað því, að hún sé vel fær til þess, að við treystum henni til þess? Það sjá allir, að slíkt er hæpið. En þjóðfélagið leyfir þetta, það tekur af þessu fólki skemmtanaskattinn o.s.frv. Þess vegna verður hún sem siðuð þjóð að sjá um, að þar fari fram skemmtanir, gleðskapur, sem samanstæði af siðuðum mönnum. Þó að við hefðum svo mikinn flokk af lögregluliði, sem gæti tekið alla þessa drukknu menn fasta og sett í steininn og sektað þá, þá segi ég, þetta er ekki það bezta, þó að það sé rétt eftir l. Þessar sektir hafa ekki áhrif á marga menn. Þeir hafa svo mikla peninga, að þeim er alveg sama, þótt þeir eyði miklum peningum í þessa drykkjupeninga. Sektarleiðin og fangelsun hafa ekki getað hrætt frá þeim löngunina í vínið á opinberum samkomum. Ég hef talað um þetta við reynda lögreglumenn, og þeir segja: Við getum ekki farið inn á allar samkomur, ef þetta verður samþ. á Alþ., en við getum notað þessa aðferð, þar sem við erum kallaðir til hjálpar á samkomum, þar sem drykkjuskapurinn er svo alvarlegur, að kallað er á hjálp. Ég segi þetta sem dæmi eins manns, sem álítur, að eftir slíkum l. mætti t.d. á Hótel Borg, Röðli, Breiðfirðingabúð eða Sjálfstæðishúsinu nota svona myndavél, ef lögreglan væri kvödd þangað, og mundi unga fólkið alls ekki vilja láta mynda sig á slíkum samkomum, hvort sem það væri mikið drukkið, lítið drukkið eða ódrukkið. Það bara vildi ekki vera í þessum félagsskap. Vitneskjan um það, að myndir yrðu teknar, mundi gera fólkið varkárara í þessum efnum, og ég geri mér vonir um, að ef þannig væri farið að, mundi svo fara á næstu samkomu, að aldrei þyrfti að koma til kasta lögreglunnar og svo aldrei á samkomum bæjarins.

Það má segja, að þetta sé ekki lækning nema að litlu leyti á þessari meinsemd, því að það er víðar drukkið en í Reykjavík. Í einni sveit á Norðurlandi, þar sem fólkið var að skemmta sér, kemur bíll úr kaupstað með 5–6 menn mikið drukkna. Þeir hefja undireins grjótkast á húsið, og svo koma þeir inn og ráðast á fólkið, sem er að skemmta sér. Þetta fólk tók það ráð að koma upp lögregluliði til þess að halda reglu, og ég hygg, að þetta hafi lagazt á þessum stað, vegna þess að það er vani þessara drykkjumanna, sem þannig ferðast um til þess að eyðileggja gleði annarra, að koma á þá staði, þar sem þeir hyggja minnst varnarlið, eða þá, sem eru varnarlausir. Ég vil taka dæmi héðan af Suðurlandsundirlendinu. Þar liggur staður vel í sveit. Samkomur hafa verið haldnar þar í mörg ár. Húsið er leigt svo dýrt, að ekki er hægt að halda þar nema fjölmennar skemmtanir, og þær fást ekki, nema vín sé. Svo gengur þetta þannig, að sá, sem leigir húsið, verður að auglýsa samkomuna og panta 4 pólití úr Reykjavík. Fjölmenni verður allmikið, og flestir eru með víni. Þegar fer að líða á skemmtunina, þá byrja áflog. Það er brotið og bramlað, og pólitíið verður að skerast í leikinn, svo að fólk verði ekki limlest. Nú vil ég halda því fram, að það þurfi ekki nema eitt pólití á svona stað, ef það kæmi með litla kvikmyndavél. Það mundi verða leiðin í þetta skipti og einnig það næsta. Það mundi leiða til þess, að fyllibytturnar mundu ekki koma þarna og skemmtunin falla niður. Og hún má falla niður, af því að hún er byggð upp á því, að fyllibytturnar komi og eyði miklu, svo að hægt sé að borga leiguna af húsinu og pólitíunum. Ég álít, að þótt það sé óhjákvæmilegt að fá lögreglu á svona staði til þess að sjá um, að ekki séu menn drepnir, þá sé þetta ástand langt frá því að vera frambærilegt. Eins og stendur vill mikill hluti þjóðarinnar njóta vínsins, en það verður að koma í veg fyrir, að nokkrum mönnum haldist uppi að njóta þess á þann hátt, að það setji blett á þjóðina.

Mér þætti gott að heyra gagnrýni um þetta. Ég vildi óska eftir því, að þegar þessari umr. er lokið, þá verði málinu vísað til n., og þegar n. hefur afgreitt það, að þá verði úr því skorið, hvort nota skal þetta eða ekki. Ég vil taka það fram, að það væri hægt fyrir ríkisstj. að leggja fyrir pólitíið að gera þessar ráðstafanir. En ég hef enga trú á, að það verði gert. Það er nefnilega ekki skylda ríkisstj. að taka upp nýmæli, sem kannske yrðu óvinsæl. Aftur á móti álít ég, að Alþ. hafi nógu breitt bak til þess að fyrirskipa þessa hluti, ef fulltrúar þjóðarinnar segja: Ég vil reyna þessa aðferð til þess að reyna að forða þjóðinni frá þeirri skömm, sem er svo mikil, að hún getur naumast staðið undir henni.